þriðjudagur, desember 27, 2005

Yule in Thule II

Frábær jól. Fjölskyldan hélt upp á aðfangadagskveld í hjalli mínum á Laugarásnum, og það uppáhald gekk vonum framar. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið beztu jól í mörg ár hjá oss. Nú skorti mig á jóladag bók til aflestrar, þar sem mér leist ekki á krimmann sem ég fékk frá ömmu. Ég fylli ekki næturgagnið svo gjörla yfir krimmum, svo mikið er víst. Þá datt mér sú öldungishugmynd í hug að lesa "The Da Vinci Code", þar sem mér hefur einum manna á Íslandi tekist að lesa hana ekki hingað til. En svá bregðast krosstré sem önnur tré. Er reyndar ekki kominn langt í henni, en hún lofar góðu. Á morgun er svo.... nöh! Jób sé oss næstur. Klukkan er orðin margt, og svefnfrygðin ágerist. Meira síðar!

þriðjudagur, desember 20, 2005

Í fréttum

Ég las fyrirsögn á Fréttablaðinu sem hlægði mig svo um munaði.

"Dr. Sýkill er frjáls ferða sinna"

Ég nennti nú ekki að lesa fréttina, en ég get frá fyrirsögninni giskað á innihald hennar.

"Dr. Sýkill er frjáls ferða sinna.

Hinn illræmdi snillingur og David Bowie-aðdáandi Dr. Sýkill flúði úr prísund sinni á Svalbarða á baki tamda rostungsins Viggó síðdegis í gær. Aðspurður taldi Uffe Bjeff, sérfræðingur í alþjóðlegum hryðjuverkum og rostungum, að Dr. Sýkill gæti nú þegar verið kominn í leynipýramída sinn í Aserbaijan. Hann sagði líklegt að Dr. Sýkill mundi nú á ný sameina krafta sína Þríhyrningsmanninum og Mannlega Sæbjúganu. Dr. Sýkill hefur áður spreytt sig á sviði heimsyfirráðatilrauna. Hinn vestræni heimur var á barmi tortímingar síðastliðið haust þegar Dr. Sýkill jók gífurlega framboð á frosnum jarðaberjum, en þá voru áætlanir hans stöðvaðar af Undra-Höfrunginum og aðstoðarmanni hans, Bill Clinton. Óvíst er hver mun bjarga málunum í þetta sinnið, þar sem Undra-Höfrungurinn rekur nú útibú Saab í Argentínu, og Bill Clinton hefur ekki tekist að kenna öðrum höfrungi að fljúga, né að spýja orkugeislum.

Reuters AP"

Heimur versnandi fer.

föstudagur, desember 16, 2005

"...og Arngunnur Árnadóttir leikur einleik á klarínett."

með Sinfó. Ekki er alllaust við að maður sé nokkuð stoltur af henni á þessarri stundu. Sendum henni hlýja strauma.

Gangi þér vel!!

miðvikudagur, desember 14, 2005

Fliss kattarins

7 hlutir sem mig langar til að gera áður en ég dey:

Vera hetja
Fara til Grikklands
Skrifa skáldsögu
Eignast börn
Lesa.. það er svo margt sem ég á eftir að lesa!
Ferðast til eða búa í Japan um stund
Læra japönsku

7 hlutir sem ég get gjörvt:

Borðað meira af gráðaosti í einu en flestir dauðlegir menn
Klappað með annarri hönd
Hugsað mjög djúpt
Búið til góðan ís
Talað of hátt
Búggí búggí á dansgólfinu
Riðið hrossi

7 hlutir sem ég get ekki gjörvt:

Fundið lykt af nokkrum sköpuðum hlut
Verið þunglyndur
Spilað fótbolta
Talað japönsku
Flogið (schade.)
Séð það vonda í fólki
Borðað banana. Ávextir satans.

7 hlutir sem heilla mig við fegurra kynið:

Hreinlyndi
Eldur
Gáfur
Fegurð
Kímnigáfa
Tónelska
Andríki

7 staðir sem mig langar á:

Grikkland
Japan
Róm
Tíbet
París
St. Pétursborg
Rúmið mitt

7 orð eða setningar sem ég segi oft:

"Ert'ekki að grennast í mér?"
"Djöfull er ég í góðu skapi í dag!"
"Eins og Ödípus"
"Crazy like a fool"
"Geðveikt!" (því miður)
"Beast!" (við Þorstein)
"Það er svo gaman að vera í Kórnum"

7 hlutir sem ég sé núna:

miðlungsvolgan bloggpistill
gítar
hendur
Albert Einstein
tunglið
japönsk teiknimynd
köflóttar bómullarnáttbuxur

Nóg komið. Næsta fordæmi ég Þorstein, Kára og Darra E.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Kitlaður köttur

Ef ég væri köttur, þá væri ég nú kitlaður. Þar sem var nýbúinn að hreta frá mér færslu þegar ég fattaði að Sigurlaug hefði kitlað mig verð ég að fá a.m.k. eins dags frest til þess.. en það kemur.

Yule in Thule

Nú nálgast Jólin. Í jólaprófunum hefur leikni mín við smákökubakstur, og þá sérstaklega við bruggun heits súkkulaðis, aukist um gríðarleg stökk, þar sem hún var ekki upp á marga fiska áður. Gerð heits súkkulaðis er ekki eldamennska fyrir mér, nei, hún er viðkvæm list og nákvæm vísindi. Mörg leynihráefni eru notuð, þ.á.m. nokkrir dropar af koníaki, örlítið chili-duft, tár engilsins og lungnasmjör drekahvolpsins. Allir sem hafa lesið Harry Potter ættu að kannast við aðferðafræðina úr seyðisbruggunartímunum hjá Snape, enda hef ég numið hjá Skarphéðni efnafræðikennara, sem er í rauninni sami maðurinn. Súkkulaðið er farið að verða ansi gott hjá karlinum, og þeir sem vilja það kneyfa skulu bara biðja mig um það. Ef þeir búa í skynsamlegri fjarlægð frá miðbænum / laugardalnum skal ég koma til þeirra og laga kakó (að því gefnu að þeir eigi suðusúkkulaði og mjólk). Slíkur bolli kostar þó að sjálfsögðu eina sálu, útlim eða klapp á bakið.

Ég vil hvetja MR-inga til að hittast óspart í jólafríinu og herða vinskaparjárnin í eldi góðs kveðskapar og bakkelsissukks, enda eru engin Jól Jól án aukakílóa.

Mig vantar góða fantasíubók til að drekka í jólafríinu. Vitið þið um eina slíka? Ef svo, látið mig vita!

Vááá hvað ég hlakka til Jólaballsins, og kórtónleikanna! Þetta verður skeggjað. Nú hefur maður ekki komist á kóræfingu í... ég veit ekki hvað marga daga. Fráhvarfseinkennin eru orðin harkaleg, þau byrjuðu með smávægilegum höfuðverkjum og niðurgangi, en hafa nú þróast út í beinverki, prófþreytu og geðsýki. Auk þess klæjar mig í nefið. Ekki nóg með það, MH-og Hamrahlíðarkórinn fær að syngja Mozart Requiem með Sinfó eftir jól! Guð minn góður, hvað ég myndi ekki gefa fyrir það. Helvítis MH-ingar, með sinn góða kór, og sínar tíðu æfingar, og sín sífelldu partí, og sitt létta nám... djö.

Þetta er farið að leysast upp raup, svo ég óska ykkur bara gleðilegra prófloka í bili.

laugardagur, desember 10, 2005

Föndurstund

Vá, hvað þetta lag er fyndið! Um er að ræða eitt lagið með Baggalútsbaularanum Tony Ztarblaster. Fyrir þá, sem eru alger flón, sem ekki vita hvaðan lagið er upprunið bendi ég á lagið Þönderströkk með Riðstraumi/Beinstraumi.

Dagurinn fór í stærðfræði. Ef ég segðist hafa farið úr náttfötunum í dag væri það augljóslega lygi. Ekki er laust við að maður sé soldið stoltur af afrakstri dagsins. Ég er búinn að beygja skrýmslið undir blóðugt stígvélið eftir ramman bardaga, klofinn skjöld og ótal sverðshögg. Verkefni morgundagsins er síðan að grilla bestíuna og eta.



























Þau próf sem eru búin heppnuðust vonum framar, vona ég. Prófin sem ekki eru búin mun ég vona að heppnist framar vonum. Vonandi.

Koma svo, krakkar! Eitt komment, eitt komment er allt sem ég þrái! Annars álykta ég að þetta blogg sé að deyja.

Doddi
-Með dauðahryglu.

sunnudagur, desember 04, 2005

Sálarhvíl eftir hugarvíl

Það er fátt, ef nokkuð, til betra að setja á fóninn en Django & band hans þegar steikir kálfasnitselið og flippar pönnsunum. Jú, rólyndi er kjörorð helgarinnar. Lærdómur hefur verið hófnógur, og tímabilið frá síðustu færslu einkennst af "feel doth it good, and the sun shineth, and mine arse swing'th as the arse of the swing God himselfe doth swing", svo ég vitni í sjálfan mig.

Prófkvíði, segðu frekar 1/prófkvíða. Prófléttir. Síðasta vikan í skólanum fór í óþreyjufulla bið eftir upplestrarfríi, kannist þið ekki við þetta, eðlu lesendur?

Fór á tvo geðveika tónleika um helgina. Útgáfutónleikar Garðars Thors Cortes, (plögg í boði Einars Bárðarsonar) voru í gær. Lagavalið var kannske ekki með klassískasta móti, en váááááá hvað maðurinn syngur! Jahve sé prísaður, og allar hans geitur! Karlinn fékk að sjáfsögðu standandi klapp eftir flutninginn, og á eftir hverju lagi sprakk út gífurleg klappflóðbylgja að síðasta tóni nýslepptum. Glæsilegt, svo ég segi ekki meira. Mútter spilaði í bandinu svo ég fékk að heilsa upp á kempuna baksviðs, og ekki var að taka eftir neinu egói í meistaranum. Það þykir mér ótrúlega aðdáunarvert, enda skilar það sér í flutningnum. Til að tónlistarmaður flytji frábærlega vel þarf hann ekki aðeins að vera góður á hljóðfæri sitt, heldur verður hann að vera laus við egó. Það er alltént mín skoðun. En nóg af því.

Hinir tónleikarnir voru ekki svo gríðarlegir, en þó frábærir. Þar söng Áskirkjukórinn í aðventuprógrammi í Áskirkju í kvöld (í.). Svakalega flottur kór þar á ferðinni. Þó átti ég erfitt með að halda niðri í mér hlátri undir lok flutningsins, þar sem nokkrir eldri menn supu hveljur djúpt ofan í kok með markvissu millibili. Það minnti nefnilega óheyrilega á rýt villigaltar. En það er jú eitt fyndnasta hljóð sem fyrirfinnst á jörðu, sérstaklega í þessu helga samhengi, maður varð bara að vera þarna.

Megi prófin brosa við ykkur, höfuðskepnur góðar.

laugardagur, desember 03, 2005

Jólaglöggur

Loks, loks! Nú er kennslu fyrir jól lokið og við taka jólaprófin. Ekki er alllaust við að nokkur óþreyja hafi komið upp síðustu viku skólans, sem ég tel að betur hefði verið varið í upplestrarfrí. Það segir sitt um hektík ársins að þegar ég kom heim í dag, í lok annarinnar hlammaði ég mér í dyngju mína og svaf værum blundi í sex tíma, vaknaði svo klukkan níu um kveld og fór skömmu síðar að sofa. Prófin leggjast nokkuð vel í mig, en þó segist ég ekki hafið hafa haft nægan tíma til að stunda námið. Þetta er þó í raun rugl og bullumsull; ef ég hefði lifað spartverskt hefði ég auðla (andst. trauðla) getað stundað námið betur, en allir menn þurfa sína hvíld með reglulegu millibili.

Engin kóræfing í tvær vikur. Hvernig skrimtir maður á því, mér er spurn? Ef ég á ekki að sökkva ofan í Hindúisma og mannát verð ég að finna mér eitthvað annað til upplyftingar, og það skjótt!

Allar uppástungur eru vel hafnar. Flljótt! Áður en ég kafna í pappírsflóði efnafræði-og stærðfræðilesturs!

föstudagur, nóvember 18, 2005

Þossii!!

Þorsteinn átti afmæli á fimmtudaginn, og telst því samkvæmt öllum helstu mælikvörðum vera átján ára (Þrym-Trúglátar myndu þó segja hann vera 3 og hálfs Garþronks alinn, en ekki skal tíðrætt um Þrym-Trúgláta þar sem þeir hafa sáralítið vægi í nútímasamfélagi þenkjandi manna). Nú er þessi glæsilegi dökkfexti gæðingur löggildur til brullkaups, "Kallinn er heitur, fáið ykkur bita áður en hann klárast(sic)"(Aristóteles), og ættu þeir sem hyggjast stunda manneldi til kynbóta að fá a.m.k. eitt undan "Fagra-Blakki" á meðan færi gefst.

Þossi, þú ert svo on fire að Fabio sjálfur legst út í horn og kjökrar af minnimáttarkennd í návist þinni.

Þessi dama féll í yfirlið af einskærri frygð er hún bar Þorstein augum. Þorsteinn sést ganga frá glugganum.

Nú bera gestir að dyrum... meira seinna

mánudagur, nóvember 14, 2005

Varðandi bumb

Ég hefi bumbaður verið af Þorsteini. Ekki veit ég hver fann upp á "Bumbi", en það felst í því að sá sem er bumbaður skal þylja þrenn drykki og þrenn tyggvanleg matvæli sem hugkvæmast sér. Værsgú.

Lögur
1. Íslenzkt fjallavatn, lífselixírinn kjarngóði.
2. Skoskt eyjaviskí, þvag stríðsguðsins. Namminamm! Bragðast eins og skosk gleði.
3. Dr. Pepper, sem hvarfast svo yndislega við gráðaost í munnholi voru.

Smjattó
1. Roquefort. Myglaður, safaríkur og rammheiðinn.
2. Lamb. Alltaf gott að jórtra á sakleysingjunum.
3. Ég. Gómsætur.

Humm. Ég held að bumbspírallinn staðnemist hjá mér að sinni. Leyfum öðrum að baða sig í honum.

Fréttir: Embættismannaferðin var sveittari en offitusjúklingur í kapphlaupi upp fjall vaxið frumskógi á flótta undan sverðtígri. Mjólk Heiðrúnar fyllti gnægðarhorn sumbllystugra, en þó var höfundur hófsamur og maklegur að vanda. Meira skal ekki sagt í bili, enda um gríðarlegt subb-og svallorgíueip að ræða. Seinna verður komið með nákvæmari lýsingu á ferðinni.

laugardagur, nóvember 05, 2005

5. X- Sjaldan fellur feitin langt frá steikinni.

Nú finnst mér tími kominn til að ræða um bekkinn minn, 5.X. Við fyrstu sýn gæti svo virst sem í honum væru aðeins úrbeinuð lúðuflök sem grúta út kalkúlus, en svo er ekki. Ég nefni dæmi. Í bekknum finnast meðal annars:

Öryrki (MC)
Flugmaður
Handboltamógúll
Sveitt góður píanisti
Sveitt góður bassaleikari
Sveitt góður Tommi

Bekkjarandinn virðist vaxa ört, líkt og massi eindar sem nálgast ljóshraða. Þó er hér ekki öll sagan sögð, því allir X-ingar lifa tvöföldu lífi. Á daginn leysa þeir stærðfræðidæmi. En þegar sólin sest klæða þeir sig í kevlar-spandexið og berjast gegn ranglæti. Þeir eru X-menn.

Hvur veit, kannski skrifa ég niður æfintýr þeirra síðar. En nú er klukkan orðin margt, og spandexið er þröngt um mittið. Ég uni mér aldrei hvíldar! Með diffrun skal durgum benjar þremja. Sofið rótt, já rótt. Því X-mennin vernda ykkur vökulum augum og vel skilgreindum reikniaðgerðum.

mánudagur, október 31, 2005

Speyti-Mbotos þáttur blámanns hinn síðari

Svá var það, að einni náttu eftir átveislu þá gríðarlegu er viðhöfð var úr búk Eggbélnis, að árla morguns, þó fyrir dögurð, en þó eftir sólrisu, en þó ekki svá mjög löngu fyrir dögurð, að gríðarleg hjörð Gór-Trylla þundraði í átt að þorpi Speyti-Mbotos. Merkti Mboto það snöggvt, og stökk á bak Fagra-Grá með spjöt allmörg í farteskinu. Þá gaurg Speyti-Mboto til Fagra-Grás: "Búbblíbíírdídí-úkk. Aíí!" (innskot þýðanda: á Kawamba-buhd-buhd-powalöbsku þýðir þetta: "Nú er lag, frómi vin! Nú skal spjótsgeirinn í spalir ok skarpt speyta! Ríðum, ríðum og rekum yfir sandinn!")
Það var sem við Fílinn mælt að hann stökk sem mús á fjórfættu stökki því, er aðeins færustu fílsknapar fá náð. Upphófst þá þröm mikil, og féllu Gór-Tryllin í hrönnum fyrir speytingum Mbotos, sem ýmist lagði til þeirra eða skaut. Tók eitt Gór-Tryllið upp grettistak allsvakalegt og orp því að Mboto af nákvæmni og afli. Mboto merkti það og lét Fagra-Grá stökkva þrefalda hæð sína í loft upp, svo bjargið hneit fyrir bringuspalir Gór-Tryllis eins er þar fyrir aftan stóð svo sundur tók búkinn. Svá stefndi Mboto fíl sínum í loftinu þannig að hann lenti á höfði Gór-Tryllis þess er bjarginu varpað hefði (hafa skal í huga að Gór-Tryllið er sjö sinnum stærra en fíllinn). Lagði hann spjóti í höfuð óargadýrsins svo út tók um kjálkann. Hratt þar út blóð allmikið og lést dýrið samstundis. Stökk þá fíllinn af skrýmslinu, og var Mboto ófeigur. Stundum tveim síðar hafði hann vegið sex tygi Gór-Trylla einn síns liðs með kókoshnetum, brenndum akasíuspjótum og Orrustufíl. Uppskar hann og mikið lof fyrir þetta, og át mikið, og varð sæll, og ölvaður nokkuð er hann svalg lifrarmjöð Gór-Tryllisins, en hann þykir hið mesta lostdrykki meðal vínsmakkara.

Þó er hetjudáðum Speyti-Mbotos á engan veg fullýs hér, kannske verður sagt frá viðureign hans við Sebrakrókódrekann ógurlega, eða hetjudáðum hans gegnt brynvörðum sænskum Flug-Elgjum.

Nóg í bili, meira kemur eftir eftispurn. Sem er líklega engin, þegar út í það er farið.

fimmtudagur, október 27, 2005

Speyti-Mbotos þáttur blámanns

Kwamba hét maðr. Hann var bur Siwale hins digra og hét móðir hans Kwa'bahawatb hin fríða, faðir hennar var Mannáts-Bahawatbib, sá er hafði öðlast frægð og mikinn drengskap, og mikið lof, og allmikla vömb, þar er hann át Khtbathb-ættbálkinn í heilu lagi á sokkabandsárum sínum.

Kwamba kvæntist Sigfríði Hilmarsdóttur hölds, en varði sambúð þeirra eigi lengur en vetur einn. Fór þá Kwamba utan frá Hrútafirði til heimanlands síns, á sléttum Kawamba-buhd-buhd-powalabab, þar er nú nefnist Zwaziland, með bur sinn. Bur hans var nefndur Mboto, og þótti hann strax í æsku sinni fremstur manna í öllu atgervi. Var hann sundmaður góður, sprettharður, hlaupari góður og léttfættur þá er hann hratt þurfti yfir að fara. Var það og mál manna að Mboto væri hlaupari allgóður. En sú var list Mbotos megnst að hann gat spjóti varpað þúsund faðma án áreynslu, og var því nefndur Speyti-Mboto. Nýttist þetta ættbálki Mbotos vel.

Dag einn, er Speyti-Mboto gekk til fílaveiða, sóttist að honum mannýg tröll-górilla. Var óvætturinn þrír tygir faðma á hæð. Slík voru ferlíki til í þá tíð, er váru afsprengi górilluapa og trölls. Einnig fundust þar afsprengi simpansa og trölla, en þóttu þau eigi svá ógnvænleg. Lét skrýmsl þetta illum látum flestum, ef ekki öllum, og gaurg (garga í þt., forn mynd) að Mboto: "...Auurgh! Ug!!... Öhh!". Speyti-Mboto skildi tryllsku, svá og Górill-Tryllskar mállýskur allar, og skildi því mál skrýmslsins: "Ungi maður! Hafið þér eigi numið hina eðlu list kurteisinnar? Hvers skulumk vér gjalta, að vér þolum þér ósvífurni yðvarra á lendum vórum? Mér er það skapi næst, að ég eti þig nú!"

Eigi hafði skrýmslið sleppt gargi sínu er það lagði til Mbotos loppu allmikilli, rúman faðm í þvermál. Mboto vék sér undan og speytti skrýmslið með spjóti sínu, og hneit það í kok því ofan, svo í gegn tók botninn. Féll skrýmslið samstundis.

Er Speyti-Mboto, fyrir tilstilli góða fílsins, hvern hann þekkti ágætlega, og var honum vel kunnugur, og Fagri-grár hét, dró hræ Gór-tryllunnar að bæjardyrum höfðingja þorps síns af kostgæfni og föðurlandsást, uppskar hann og mikinn fagnað.

Þó var Yggwa hinn djúpspaki, andalæknir þorpsins, hvumsa á svip og allskelkaður. Hváði hann nauðsyn þess, að fella dýrið. Sagði hann Gór-tryllið heita Eggbélni hinn fláráða, mikils metið og vinsælt Gór-trylli í Gór-trylla hópi. Óttaðist hann, að frændur Eggbélnis myndu hefndum fram ná vilja innan skamms...

Framhald síðar!

sunnudagur, október 23, 2005

Engrish

Ah.. fátt er fyndnara en þegar Japanir sem eru lélegir í ensku spreyta sig á næstástkærasta, næstylhýrasta málinu. Fjöldamörg dæmi eru um þetta..



Hahaha!

Hohoho!



Úff! Þetta er bara of fyndið, segi ég. En núna krefst stærðfræðigyðjan ástar minnar. Góða nótt.

föstudagur, október 21, 2005

Einar Finnsson

Í kvöld uppgötvaði ég hlut sem hryggir mig gífurlega, er ég las bloggsíðu vinar míns. Ég hef misst samband við besta vin minn, og það sökkar. Til útskýringar máls míns skal ég segja frá Einari, miklum heiðursmanni.

Ég kynntist Einari í fyrsta bekk í grunnskóla, og það mætti með sönnu segja að við hefðum verið eins og samlokur allan grunnskólann. Á hverjum degi fórum við saman heim og lékum okkur, spiluðum tölvuleiki og töluðum um allt milli himins og jarðar. Þó svo við værum um margt fáránlega ólíkir voru vináttubönd okkar þau traustustu sem ég man, og líklegast þekkir enginn maður mig betur en hann, sem og öfugt.

Það sem á milli kom var breyting í mér, já, ég tek sökina alfarið á mig. Þegar líða tók á tíunda bekk óx innan með mér þörfin fyrir að kynnast fólki, sökkva mér ofan í tónlist og vera í félagslífinu. Þegar við fórum svo saman í MR komu fram jafnvel meiri öfgar í þessu. Við Einar, Kolli og ég vorum einu strákarnir úr Austó sem fórum í MR. Einar og Kolli höfðu takmarkaðan áhuga á félagslífinu, sem er fullkomlega réttmæt afstaða í sjálfu sér, en ég ekki. Mig langaði að þekkja og þekkjast fólki í þessum skóla, fólki sem heillaði mig frá upphafi.

Ekki þarf lengi að segja frá því, að ég sökkti mér af fullum ofsa í félagslífið, kynntist þeim sem ég vildi kynnast og varð sáttari með líf mitt því meira sem ég stundaði það. Við Einar áttum nokkra sameiginlega vini, þar af tvo höfðingja, þá Darra og Þossa, en þeir höfðu verið með okkur í 3. G, en þó urðu vinahópar okkar óhjákvæmilega mjög ólíkir. Að sjálfsögðu þroskaðist Einar í eigin áttir, eins og allir menn gera. Mér til sorgmæðu uppgötvaði ég að hann þarfnaðist félagsskapar míns ekki lengur. Þó höfum við haldið vinskapnum eins og hægt er, en eitthvað hefur breyst á mikilvægan máta, og er því verr.
Mér finnst eins og ég hafi misst besta vin minn. Vittu það Einar, að ég elska þig sem bróðir, og mun alltaf. Ég vona bara að þú sért sammála mér.

Ég sé ekki eftir þeirri leið sem ég hef valið mér í lífinu, en ég sé eftir þér, kæri vinur.

laugardagur, október 15, 2005

Vits er þörf, þeim er víða ratar.

  1. Sá einn veit
    er víða ratar
    og hefir fjöld um farið
    hverju geði
    stýrir gumna hver,
    sá er vitandi er vits.
Verður maður ekki að bukka sig fyrir fornri visku? Jú, það verður maður nefnilega að gera, því ekki mun vera vitnað í Dr. Phil eftir níu hundruð ár. Sönn en óþægilega hreinskilin skilaboð Hávamála eru eitthvað sem allir kjarngóðir Íslendingar ættu að taka til sín.

Gaman nýlega, mikið sofið. Hvíldar var þörf, þeim er hvatki út fleppaði. Gott skemmterí í kvöld, hélt frábært partí sem þurfti reyndar að rýma fullsnemma sökum args nágranna. Já, Guðný, far þú í fúlan pytt! Í fúlan pytt segi ég. En þó lést mér bugur öngvur af því, sem endranær, og sótti ég sumbl (áfengisfrítt hjá mér, að vana) með valinkunnum heiðurstöppum niðri í bæ. Sem verður oft súrt epli, en ekki í þetta skiptið, onei.

Jæja, nú rís sólin bráðum. Ástralir koma heim úr vinnunni.

Nú hefur síðasta ófleyga setning þessa pistils baðað út vængjum sínum, stýfðum af klénheitum og slyddulegum talmálsstíl. En hlutir sem baða út stýfðum vængjum í von um flug eiga það einmitt til að hrapa og verða að blóðugri klessu fiðurs og líffæra á sléttum gleymskunnar. Sem er vonandi.

Góða nótt.

fimmtudagur, október 13, 2005

Lognið á eftir storminum

Úff! Úff. Úff!

Vá hvað ég hef haft allt of mikið að gera síðustu tvær vikur! Ég er ekki búinn að hafa tíma fyrir kristilegan nætursvefn í fleiri daga, og er í náttgalsa ævi minnar.

Á síðustu dögum hef ég:

-Borðað gráðaost í beinni
-Handfjatlað um tvær milljónir reiðufjár
-Sofið.. nei, reyndar frekar lítið af því
-Vegið dreka allmarga, sama og venjulega
-Drukkið tylftir lítra af gosi
-Ekki farið í sturtu mjög lengi
-Ekki haft tíma til að umgangast vini mína, en römm er sú taug og seint mun slitna
-Reitt skegg mitt í stressi og álagi. Ágálgi!

Nú lít ég til langþráðs svefns með löngunaraugum... smá svefn í haus er nauðsynlegur til að halda geðheilsunni, sem var jú af skornum skammti til að byrja með.

Menn vikunnar eru:

Aríel, fyrir að lána okkur tölvuna sína og selja miða með okkur af einskærri göfgi
Haukur Homm, fyrir að vera ótrúlega frábær gaur, og að róa mig niður í mesta stressinu
Restin af stjórninni, þau eru æðigæði.
Frimmi og Bjöggi, þyngdar sinnar virði í rauðagulli! Topppelar þar á ferðinni.
Og allir hinir.

Þetta var ein hefðbundnasta færsla hér í langan tíma. En örvæntið ei! Fleppstuðull mun verða í réttu hlutfalli við hressleika.

Góða nótt, og vá, ég hef aldrei meinað það eins mikið og nú. Góða nótt.

föstudagur, október 07, 2005

Hann-Mann

He-Man er yndislegur ljósdepill í menningarsögunni. Ég hef ákveðið að skrifa sögu um þennan vanmetna snilling.

Adam hét maður, bur Randvers og Márlindu. Þá er Adam þramdi bölverk Beinmunds á bak aftur var afl hans svá mikið, að enginn maður gangandi né skríðandi, né sitjandi í stól eða á steini, eða standandi, hvorki á steini né á öðrum fleti, var honum jafneflingur. Svá mikill var máttur Adams, að hann var nefndur Hann-Mann. Einn dag gekk Hann-Mann til hellisdyngju sinnar til sváfu. Þá merkti Hann-Mann grís nokkurn, er mælti til hans. Svá var þessauki gáfa Hans-Manns að skilja mæli villtra dýra, sem og alidýra, sem og annarra dýra sem hvorki teljast villt né alin. Grísinn mælti: "heill þér, Hann-Mann. Glundræði er í heimanbæ mínum! Kónar Beinmundar hafa hneppt grísi mína í þrældóm. Næst þykir mér, að þú skulir til hólms arka."
Ekki hafði grísinn fyrr orði sínu sleppt þegar Hann-Mann greip um hjöltu sverðs síns, er Gráskalli hét. Þá lyfti hann sverði sínu til himins og gargaði allgífurlega: VIÐ MÁTT GRÁSKALLA! MINN ER MÁTTURINN! Kattlingur Hans-Manns, hver hafði hvílst á steini nokkrum varð grænn á hörund og trölljókst í stærð, auk þess þaktist hann brynplötum allsvakalegum, sem og gat hann varpað leisergeislum um augntóftir sínar. Mælti þá Hann-Mann: "kom þú, Þrumu-Kisi. Látum oss þremja Beinmundi alla þröm þá, er ek þramið fæ." Hann-Mann sté á bak Þrumu-Kisa, og geystust þeir út í sólsetrið á slíkum hraða, að hross hefðu ekki við þeim, þó fimm tygir hlypu saman.

meira síðar, sofa núna.

mánudagur, október 03, 2005

Varðandi klukk

Þossi klukkaði mig. Því er ég skyldur til að segja frá fimm hlutum sem fáir vita um mig.

1. Ég fæddist rauðhærður með krullur. Sömuleiðis pabbi, hann var líka ljóshærður á unglingsárum og er núna alveg dökkhærður.

2. Á hnakka mínum er einskonar dúnn, og hefur þar verið síðan ég var örlítið mannakorn. Dúnninn líkist hári, en er þó ærið ljósari og mýkri.

3. Ég bjó eitt sinn í Bandaríkjunum í eitt ár. Það var afar gott ár, góður skóli. Samt, ótrúlega furðulegt samfélag. Þar lærði ég ensku af Spædermann í sjónvarpinu á 3 vikum. Neyðin kennir mállausum dreng að tala, segi ég.

4. Í móðurætt minni voru við fæðingu mína tveir Þórarnar fyrir. Því var ákveðið að ég skyldi ekki vera kallaður Tóti II. hinn yngri, heldur Doddi. Það nafn hefur algerlega grætt sig við mig. Margir hágæðabrandarar hafa sprottið út frá nafni mínu, svo sem Doddi koddi= Þórarinn svæfill, Doddi, doddi á rauða-gula bílnum glaður fer (haha! hann heitir nefnilega líka Doddi ,hahaha!).

5. Frá barnsaldri hef ég lifað og hrærst í ævintýraheim hugskota minna. Ein afleiðing þessa er sú að ég var afar afkastamikill teiknimyndasöguhöfundur á efri árum grunnskólagöngu minnar. Margar teiknimyndasagnanna uppskáru miklar vinsældir meðal árgangsfélaga minna, og helst þeirra var Goðsögn Kindarmannsins. Eftir útgáfu hennar, auk framkomu í búningi bóndans Vall-Sturlu á grímuballi, var ég nefndur Doddi kind. Þetta viðurnefni hefur svo haldið sér til dagsins í dag.

Næstur í klukkunarröðinni er Kári! Og Kristján! Haha! Ég veit að það er bannað að klukka tvo í einu, en ég er villtur.

sunnudagur, október 02, 2005

Comedian Harmonists: sendir að ofan!

Ég vil vekja athygli lesenda á hinni vægast sagt ótrúlegu sönggrúppu Comedian Harmonists. Um er að ræða þýzkan sextett, þ.e.a.s. einn píanista sem útsetur líka, og fimm söngvara, tvo tenóra (annan hærri), tvo barítóna og einn bassa. Sveitin var upp á sitt besta á 3. og 4. áratug 20. aldarinnar, og var ferill þeirra nær gullinn frá byrjun. Þeim sem vilja fræðast meira um þá bendi ég á

  • þetta.


  • Þeir eru alveg yndislegir, þessir pelar. Ef þú ert einhver sem ég þekki máttu endilega fá tvo feita safndiska með þeim lánaða hjá mér hvenær sem er. Breiðum út boðskapinn!

    Það var líklegast ekki fyrr en ég hlustaði á þá að ég fattaði hve undurfagurt tungumál þýzkan er...

    Annars gott að frétta. Sit hér um miðja nótt eftir góða spretti í afmæli Steindórs Grétars. Á morgun skal þó gjalda fyrir leti dagsins í dag. Fyrir hverja synd bíður hegning! Stærðfræði! Njála! Beittar spýtur! Ég skelf nú þegar.

    Check thineself before thou wreckest thyself, dude.

    miðvikudagur, september 28, 2005

    Júterpa

    Stundum verður maður einfaldlega að fallast á kné fyrir Júterpu, músu tónlistarinnar. Fátt, ef eitthvað, veitir mér jafnmikla gleði og tónlist. Ekki margir deila gnægðri ánægju minni af söng, en þó eru fjöldamargir mun betri söngvarar en ég. Lengi hef ég gælt við þann draum að setja á fót söngkvartett, en vinir mínir hafa annaðhvort ekki áhuga eða tíma til þess. Líklegast áhuga. En ég læt það sem vind um eyrun þjóta! Lúðraþyturinn skal þraminn úr lungum sönghæfra smásálna! Vá hvað ég elska annars sögnina "að þremja" (eins og kenningin í vísu Egils Skalló: þundr þremja-vandar, sem þýðir þá drunur stríðs-vandar).

    Já, með sanni má segja að ég sé mikill lífshedónisti á alla hugsanlega kanta. Mér er óheilbrigð ánægja af afar mörgu. Þó ekki af öllu.

    Rústaði stærðfræðiprófi í dag, mikil gleði.
    Ars longa, vita brevis. Hefur sjaldan átt eins mikið við og núna, enginn tími til neins!

    Tónskáld dagsins er Rachmaninov, sérlega eru píanóprelúdíur hans leiknar af Ashkenazy í spilun.

    laugardagur, september 24, 2005

    Gott er að skemmta sér.

    Já, krakkar mínir, það er svo sannarlega geðheilsunni til framdráttar að sletta úr klaufunum, svona einu sinni og endranær. Hér sit ég undinn en sáttur eftir ræðukeppni, rabb, skankaskak, tebó, meira skankaskak, og bæjartölt með valinkunnum andans mönnum.
    En vá, þessi ræðukeppni.

    Þetta var nú soldið trist, er þaggi?
    Ræðulið MR mætti á svæðið í fullum herklæðum, vopnað eggvopnum brýndum á hverfisteini mælskunnar og þungum gaddakylfum rökfestunnar. Þau komu tilbúin fyrir orrustu.

    En það eina sem mætti þeim þegar á staðinn kom voru hálfkveðnar bögur og slyttingsleg rök.. ef MH-ingarnir komu þá með nokkur rök í einhverri ræðu þeirra.

    Þetta er nú soldið trist. Jafnvel móðgandi, að þeir skuli ekki einu sinni hafa sent almennilegt ræðulið á móti okkur.

    Annars verð ég að óska ræðuliði MR hjartanlega til hamingju með geðveika frammistöðu. Auk þess skal þakka þjálfaranum, auk Gunna og Darra.

    Í keppninni voru gefin sirka 2100 stig. Þar af fékk MR 900 stigum meira en MH. Ekki gott, meine Sterneliebchen, ekki gott.

    Annars gott að frétta. Gaman gaman. Gaman að hitta vini sína aftur! Maður vill gleyma því í amstri skóladaganna.

    Peace.

    miðvikudagur, september 21, 2005

    Argur

    Urg. Stundum finnst mér lífið snúast í höndum mér, líkt og feitiborinn áll. Að minnsta kosti á ákveðnu sviði. Mikilvægu sviði.

    Nóg sagt.

    Hér kemur annars smá leirburður:

    Skenk mjer Jesúm, sálarhvíl
    skotinn er með kúpiðs píl,
    Steyt ei upp í botn minn stíl,
    syndara í hugarvíl.

    Hjálp þú oss að forðast hjóm
    helgri raust og glöðum hljóm
    Fyll þú oss með kurt og fróm
    fjálgur Jónas Krísóstóm.

    sunnudagur, september 18, 2005

    Busaferðin

    Já, hér sit ég úldinn og úrundinn, en afar sáttur. Busaferðin 2005 stóð yfir um helgina, og vá hvað hún var hressó. Í raun voru þetta tvær ferðir í röð, bekkir A-E á föstudag-laugardag, F-I á laugardag-sunnudag. Flenniskemmtilegur árgangur, það verður seint tekið frá þeim.

    Klikkað stuð, sungið og leikið á gítar frá komu til sex um morguninn. Margt rætt og margt hlegið. Óskeggvaxta busalingar trítluðu um gólfin og léku sér við fiðrildi meðan við suðum pelsur þeim til saðningar, seinna kepptu svo bekkirnir sín á milli í ýmsum leikjum (þið munið eftir þessu). Síðan fór mikill tími í að kynnast fólki og að spila og syngja. Fullyrða má, með nokkurri vissu, að Haukur Homm hafi farið á kostum í ferðinni, eins og honum einum er lagið. Eins og áður hefur sagt verið var sungið og spilað fram á rauða nótt, skriðið upp á dýnu um hálfsjöleytið. En hvað svo? Næsta dag endurtók sagan sig! Þvílíkt rugl. En vægast sagt gaman.

    Það kvöldið var leikinn leikur, sem hin eðla stjórn Herranætur kunngjörvði okkur. Klara, þú veist hvaða. Svo er alltaf fyndið að kitla Svanhvíti. Sama uppi á teningnum það kveldið: sofnaði á leikfimidýnu um hálfsjöleytið undir værðarvoði mínu grænhyrnda eftir langt spjall og synglisöngl.

    Ég gæti fjasað endalust um þessa ferð, en ég mun hlífa ykkur þeirri lönguvitleysu af einskærri samúð.

    Lifið heil, dúllurnar mínar.

    laugardagur, september 10, 2005

    Síðustu tveir dagar í hnotskurn dróttkvæðis.

    Sóttumst sumbl að náttu
    sálar heitt brann bálið,
    skönkum ört em skenkti,
    skreið þá Ás um Breiðvang.
    Reis úr röðull austri
    rammt var geð svefnskammt,
    huga skal hag þremja
    hegrans söng tegra.

    föstudagur, september 02, 2005

    Vafstur

    Mikið vafstur er á höfundi þessa dagana, en góðvafið þó. Sólarhringurinn skiptist í: 1. sofa frá 12-7:40, 2. skóli frá 8:10-14:30, 3. skólafélagsvinna frá 14:30-17/18, 4. lærdómur til miðnættis með matarívafi.

    Mikil gleði, mikið grín. Fjölþjóðleg heimadæmi og lútuglymur einkenna daginn í dag, þar sem Tæland sendi fulltrúa sinn í dæmasafn helgarinnar. Vinna! Vinna! Vinna!

    En eins og Hippókrates kunngjörvði forðum: "All work and no play make Jack a dull boy". Sannleikskorn, nei, baðströnd sannleikskorna felst í þessu Axíomi Hippókratesar. Því skal trallað allhvað í nátt, og ekla verður eigi á limaskaki. Staðreynd!

    Busarnir, já. Busar, busar. Busar.... Busar hafa flætt inn í höfuga og lakkaða ganga Skólans eins og hægðalosandi búðingur. En það eru að sjálfsögðu þeir sem munu skíta á sig á fimmtudaginn, sumir vegna hræðslu. Aðrir hafa ekki verið vandir af bleiunni, en það tollerast allt af þeim.

    Hlakka til að slappa aðeins af... en það verður líklega ekki fyrr en ég legst til hinstu hvílu.
    Lifið heil, elskurnar.

    þriðjudagur, ágúst 23, 2005

    Menntaskólinn að Lækjarhnjúkum

    Skólinn er settur, bekkirnir hafa verið skipaðir og morkinskinnurnar þeytast út úr prenturunum. Skólasetningardagurinn var bráðskemmtilegur en mjög hektískur. Líst ágætlega á bekkinn, að sjálfsögðu eru ekki bara súrrandi fleppaðar manngerðir á eðlisfræði eitt, en við öðru mátti ekki búast. Við lentum í góðri stofu á jarðhæð Gamla Skóla með góða kennara. Vesalings Ármann Jakobs, hið andlega skrúðfygli, sem bað um að kenna sömu bekkjum og í fyrra á þessu ári fékk sömu bókstafi. Þannig eru aðeins sárafáir úr 4.X í 5.X, en Ármann er að mestu leiti fastur með svitfeitla nerði, þar á meðal mig. Sem þruma úr heiðskíru lofti kom sú staðreynd að ekkert var sett fyrir í stærðfræði á fyrsta degi. Lognið á undan storminum, býst ég við.

    Frááábært að hitta elsku MR-ingana aftur, í allri sinni dýrð og fjölbreytileika; fjölbreytileika sem líkist vafalítið því er einfættur dvergur á þríhjóli neytir sýru er hann lítur gegnum hviksjá á sólarlag í Indusdal.

    laugardagur, ágúst 20, 2005

    Áskorun

    Mikið finnst mér fyndið hvað stelpur fá miklu fleiri komment á síður sínar en strákar. Þetta hefur í sjálfu sér ekkert með gæði skrifana eða venslaþensl höfundarins, einungis það að stúlkur eru duglegri að merkja við hjá vinkonum sínum. Toppurinn er þó líklegast síðasta færsla hæstvirtrar Arngunnar, með 31 athugasemd. Sem eru álíka margar og flestir strákar fá um eins árs tímabil.

    Arngunnur. Ef þú nærð hundrað, já hundrað athugasemdum á færslu, skal ég marséra upp og niður Vonarstræti klæddur sem sæbjúga.

    fimmtudagur, ágúst 18, 2005

    Bamboocha

    Bamboocha, auglýsingaherferð Fanta, var að miklu leyti algert flopp. Drekkum Fanta, verum Bamboocha kveikir ekki á neinni peru hjá mér eða nokkrum sem ég þekki, en þó fannst mér merking orðsins Bamboocha afar skemmtileg. Þar sem eyjaskeggjarnir í auglýsingunni töluðu afbjagaða og óskiljanlega ensku skal ég hér betra ensku þeirra.

    Maður nálgast hawaiiíska eyju á einæringi, glaðhlakkalegur með bústið afró. Annar maður, líkur í útliti, þó feitari, heilsar honum hlæjandi:

    [þar sem ég man ekki nöfn mannanna í auglýsingunni bý ég til ný.]

    "Hail, Ulysses. I have hither come from the sundering seas to inquire of thee if thou, in thine magnificent generosity and noble spirit, wouldst join me to voyage upon yon ocean in mine humble flagship?

    Well met and hail to thee also, brave Prometheus, my portly friend. Indeed, it is a day in which one wouldst enjoy frolicking upon the courts of Poseidon, and the Sun God smileth, and beeth at great joy, for he showest us his radiant face upon this third day of the month of the Aardvaark. Speak to me then, O Prometheus, whither hast thou bethought thineself to sail yon boat?

    No place have I reckoned in this respect, Great Ulysses, nor a waterway through which to navigate thenceforth. Nay, I wish only to meander and mirthfully sing "Wheeeee". This musing beeth beknownst to me as Bamboocha.

    Aye? I must tell thee, mighty Prometheus, that though I have sailed the sundering seas, defeated the enchantress Minax and eaten dragon brains, I have not in all of mine numerous exploits encountered this expression. I beg of thee, O wise Prometheus, bespeak unto me its meaning, that I might glean knowledge!

    Indeed, fabulous Ulysses, I shall explain to that Bamboocha meaneth to eat life with a large spoon!"

    Þetta er ansi gott mottó: éta lífið með stórri skeið. Akkúrat! Lifa lífinu lifandi.

    þriðjudagur, ágúst 16, 2005

    Heilagur Jóhannes Kristostóm og hans litúrgía sé með oss!

    Sumir hafa sagt íslendinga hafa keimlíka tónlistarsál Rússum. Þetta myndi útskýra hve vel öðrum þjóðum þykja Íslendingar spila Síbelíus, jafnvel jafn vel og Finnar. Reyndar er Síbelíus finnskur, en athygli skal vekja á að Finnar eru allúgrískir, en úgríska er aðeins gríska með ú-i skeyttu framan við, og Rússar eru jú grískt-orþódoxkir. Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er hversu beinu sambandi ég næ við t.d. Tchaikoffsky og Rachmaninov, eða bara rússnesk þjóðlög og flotta rússneska /fyrrv. sovétríska kóra.

    Ef til vill mætti kalla þetta "hina Norrænu sál"? Reyndar verð ég að taka hin goðmögn tónskriftanna með í reikninginn, en eins og flestir ættu að vita voru flest þeirra ekki rússnesk.
    Þau verk Rachmaninovs sem ég ætlaði að minnast á fyrr í færslunni eru Vespers Op. 37 og Liturgy of St. John Chrysostom, Op. 31, eða Kvöldsöngvar og Tíðagjörð Heilags Jóhannesar hins Gullmynnta (já, án gríns). Verkin syngja Dumka, ríkiskór Úkraínu, og hinn Sinfóníski ríkiskór Rússlands.

    Þessi verk tengja sig beint í hjartað í mér, svo ekki sé meira sagt. Ég er ennþá að leita að diski með karlakór St. Basilskirkjunnar sem söng hér um árið.

    Svo er skyr líka gott.

    sunnudagur, ágúst 14, 2005

    Óhagstæður samanburður

    Æ hvað mér þykir leiðinlegt að kunna ekkert á bloggsíður... Ég var að skoða hina nýbökuðu, glansandi síðu Arngunnar (konungleg fleirtala ætti hér við) og sá í einni hendingu hvu hjákátleg mín eigin er. Lengi hef ég öfundað Arngunni af því að vera skemmtilegri bloggari en ég, en þetta var sem olíusletta á brennandi múlasna.
    Nú er hennar líka orðin ýkt kúl! Ég íhuga að setjast í helgan stein...

    fimmtudagur, ágúst 11, 2005

    Úje



    Hér sit ég í náttslopp og fönka af áfergju
    Góstbösterslagið á gítarinn...

    Da es etwas fremdes
    in deiner Nachbarschaft ist
    welche rufst du an?
    Geisterjägern!

    Geister fürchten mir nicht, je.

    Hú ha

    Ú

    A

    Ef ég fæ ekki að dansa úr mér nýrun innan skamms missi ég vitið!

    Fönkíheit komast greinilega illa til skila gegnum ritmál, en þið skiljið hvað ég er að hugsa.

    þriðjudagur, ágúst 09, 2005

    Danmerkurferðin

    Þar sem þrír heiðursmenn hafa hvatt mig til frjálslegri skrifa kemur hér frjálslegt skrif.

    Miðvikudaginn 3. júlí fórum við Einar Óskarsson og ég (ef mig skyldi kalla) til Danmerkur. Dvöl Einars verður um nokkuð lengri en mín, því hann mun stunda nám við Idrethǿjskolen i Brǿnderslev til jóla.

    Þá fannst okkur góð hugmynd að flippa saman í fjóra daga áður en hann héldi til nyrðra Jótlands, enda var það ástæðan fyrir ferðinni.
    Okkur tókst að redda frábæru hóteli á afargóðum (n.b. afargóðum í einu orði sem áherzluauki) kjörum, þ.e.a.s. 250 kr. beynskar á nóttina. Ferðin var yndisleg á alla kanta, við röltum talsvert oft upp og niður Strikið, og auk þess stunduðum við allthvaðþúetakanntflatbökuhlaðborð helzt til grimmt. Um leið og heim var komið hóf ég matarafeitrun, sem sagt sneri ég mér alfarið að fiskáti.
    Næturlífið í Kǿben var afar skemmtilegt, talsvert afslappaðra en það í Reykjavík. Kórvanir muna ef til vill eftir snilldarkaraókítöktum Kára Sighvats á Sam's bar í kórferðinni fyrr í sumar. Dönsku hnakkarnir sem komu fram að þessu sinni stóðu sig vel, en þó efast ég um að þeir státi Kára í sveittri sviðsframkomu og einskærri geðveiki..
    Síðasta kvöldið okkar endaði á að verða það bezta. Þá fundum við loksins að kveldlagi borgarhjól okkur til afnota og yndisauka. Kvöldmatnum var frestað vegna hjólafundsins, en borgarhjólin eru nær alltaf upptekin, og hjólað var um öngstræti Kaupinhafnar í góða tvo tíma. Það var ekki fyrr en í þessum hjólatúr sem ég áttaði mig á hve ótrúlega falleg borg Kaupmannahöfn er. Sérstaklega man ég eftir bronzstyttu af engli niðri við höfnina, rétt hjá Litlu Hafmeyjunni. Þetta var í ljósaskiptunum, og við höfðum gleymt myndavélinni á hótelinu. Við áttuðum okkur á að við myndum ekki ná til baka fyrir myrkur, svo engar myndir náðust. Sem er synd.
    Einar fór til Jótlands með lest klukkan ellefu næsta dag, og eftir að hafa fylgt honum að lestinni vissi ég ekki svo vel hvað ég ætti að gera af mér. Þá ákvað ég, í brjálsemis-og flónskukasti að fara strax á flugvöllinn, og lesa þar Karamazoff-bræðurna þar til flugvélin færi um ellefu að kveldi.
    Þangað fór ég, og átti í hrókasamræðum um ekkert við leigubílsstýruna á leiðnni. Að sjálfsögðu gat ég ekki skráð mig inn svo snemma dags, svo ég neyddist til að bíða á ytri flugstöðinni í rúma sex tíma. Þar lummaðist ég um hina ýmsu járnbekki og leðurstóla er ég sökk dýpra og dýpra í Dostojeffsky, og var lesturinn aðeins truflaður af stuttum spássítúrum með ákveðnu millibili svo ekki færi að blæða úr legusárunum.
    Öllum verð ég að ráðleggja að lesa þessa bók, því hún er ææði. Ég mun ekki kasta skömm á bókina með hjákátlegum tilraunum til lofsöngs, frekar læt ég það öðrum mönnum mér betri og gáfaðri eftir.
    Á endanum var flugvélinni svo seinkað um tvo tíma, en ég var svo heppinn að hitta vinkonu mína úr Menntaskólanum, og iðkaði þar langþráðar mannlegar samræður eftir ellefu tíma grúfu og þanka. Svo lenti ég í Saga-klassasætum, en þau þykja fremur öðrum fluvélasætum hönnuð fyrir mannskepnur, en ekki Rhódesíska kast-dverga.
    Já, og í Danmörku hafði ég keypt mér iPod (hljóðkút á Hellsku), en hann var mér því miður gagnslaus í Hinni Miklu Bið, verandi tómur.

    Æðisleg ferð.

    Getur einhver annar þýtt Ultramontanism yfir á íslensku? (nema Þossi, því ég hefi sagt honum frá hugtakinu)

    miðvikudagur, ágúst 03, 2005

    Spádómur.

    Eldur og brennisteinn! Asni Bíleams hefur mælt.

    Blogg þetta er rotið. Já, líkt og Sódómu var til forna mun því verða tortímt af bræði Abaddons séu róttækar breytingar ekki í nánd.

    Síðan þjáist af litleysi og athyglisskorti, en þó mest af ófrýnilegu andleysi höfundarins, sem kreistir út úr sér hvert sódómítaafstyrmið á fætur öðru, aðeins til að sprikla skakklepptum útlimum í skamma stund áður en þeir lemstrast í leðjuflóði erfðasyndarinnar.

    Og minnist konu Lots, sem varð að saltstólpa er hún horfði yfir öxl sér á sauruga borgina rifna í sundur í heiftarlegri eldgeðveiki!

    Horf ei til baka, heldur flý. Flý, og lítið aðeins til framtíðar, og þekkið aðeins vonina! Von um betri bloggfærslur í framtíðinni!

    Síðan rær lífróður upp Viktoríufossa, Viktoríufossa úr hrauni og höfuðkúpum syndaranna!

    laugardagur, júlí 23, 2005

    Framliðinn sálufélagi

    Jób sé oss næstur! Ég fann sálufélaga minn er ég hrein og skókst af hlátri við lestur Gerplu. Mæli með þessu.

    miðvikudagur, júlí 20, 2005

    Miskunn hilmis vall-hærðar fjörgva.

    Góðviðrið virðist engan enda ætla að taka. Á hverjum degi kem ég heim þakinn ryði, steinryki og drekablóði, auk svita í boði Sólarinnar. Sjitt hvað ég ætla í stuttbyxni á morgun, því blessuð Sólin elskar allt en þó ekkert meira en að steikja vinnusama Menntskælinga.

    Strætókerfið reyndist mér rýrt í dag, þar sem ég neyddist til að rölta frá elliðavatni út í Breiðholt til að finna mér einhvern strætisvagn. Þó var það mér til upplyftingar að sjá þrjár gullfallegar ljóshærðar stúlkur á heimförinni, sem tók tæpa tvo tíma.

    Vááá hvað ég hlakka til að byrja í skólanum! Það verður fagnaður allgóður þegar höraldnir skólabekkirnir mæta afþreyttum botni daglaunamannsins.

    Skín þú, Helíós! Lát geigðarbjarma þinn bylja á búkum vorum.

    sunnudagur, júlí 10, 2005

    Geislabaugur

    Nú hef ég komið hinu víðfrægða Haloscan kommentakerfi upp. Því miður virðast öll gömul komment hafa þurrkast út, og bið ég því ykkur að kommenta allduglega til að fylla í skörðin.

    fimmtudagur, júní 30, 2005

    Stórmerki

    Í Zimbabwe ríkir ófremdarástand. Robert Mugabe, forseti landsins, drýgir hverja heljarskyssuna á fætur annarri og lætur dólgslega. Hungursneyð ríkir sökum óstjórnar kempunnar, sem hefur á örskömmum tíma eyðilagt framleiðslugetu Zimbabwe á landbúnaðarafurðum.

    Þó eru ekki allir íbúar Zimbabwe eins ólukkulegir. Samangoapar Bvumbasvæðisins voru í gleðilegu uppnámi í fyrrimorgun. Umsjónarmenn svæðisins voru furðu lostnir er þeir sáu apana dansa æsingslega auk þess að slefa óhóflega á meðan þeir fóru hamförum (ss. fóru stórfellt úr hárum) er þeir rykktust um jörðina í spasmakenndum tryllingi. Umsjónarmennirnir merktu einnig að sumir apanna slógu taktfast á bringu sér og orguðu af mikilli innlifun. En mest kom þeim þó á óvart þegar bumbuslátturinn / gargið auk dansins hætti skyndilega, og stór, gamall, forystuapi tók upp grasbítslærlegg, í hvern voru skorin göt af lystugleik, og blés kröftuglega í. Þar næst lyfti hann flautunni til himins og gargaði allhressilega í norð-norðvestur. Einungis einn sjónarvotanna, Sir Wimble Fitzgarfunkel, hafði skilning á athöfninni. Þrumu lostinn fleygði hann safarí-hatt sínum í loft upp og grenjaði svo undir tók í einglyrninu: "Ariel has returned from his year of being a foreign exchange student in the city of Nishny Novgorod, also known as Hólmgarður in the ancient tounge of Iceland, in Russia, whence he has flown by the means of an airplane whose owner's plane it is! So sayeth the monkey shaman."

    mánudagur, júní 27, 2005

    Rondo bjargar deginum

    Í dag kom mér óvæntur bjargvættur til hjálpræðis og geðsupplyftingar. Sá heitir Rondo og er útvarpsstöð á vegum RÚV. Stöðin segist spila klassík og djass, en þó heyrði ég varla eitt djasslag allan daginn. Þó kvarta ég ekki, því lagavalið var framúrskarandi fjölbreytt og gott. Sérlega þótti mér fyndið þegar á eftir enn einni klassíkinni kom tilkynningin "Útvarp Rondo- spilar líka djass". Næsta lag var svo gleðilegur píanókonsert sem átti ekki frekari samleið með djassinum en varadekk með hlébarða, þó þeir séu í raun sami hluturinn.

    Svo vil ég benda á að tíðni BBC er 94.3, en það vissi ég ekki fyrr en í dag. Rondo er svo 87.7.

    Í Kastljósi dagsins komu fram Eiríkur Jónsson og kona frá samtökum blaðamanna að mig minnir, nafni hverrar ég hef því miður gleymt. Af því er ekki meira að segja en að Eiríkur kúkaði sér á bak upp allgróflega. Þessi maður er holdgervingur DV, ég mæli með því að lesendur kíki á kastljós dagsins á Vefsíðu RÚV.
    Maðurinn var... ólýsanlegur. Ég læt lesendum eftir að mynda sér skoðun á málinu, en þykir mér um allrýran mannpappír rætt.


    Já, börnin góð. Færslunni verður lokið með tilvitnun í hið íðilfagra lag "Eine kleine Frühlingsweise" með Comedian harmonists.

    ,,Da ertönt ganz leise, leise,
    Meine kleine Frühlingsweise,
    Bis die gold'ne Sonne strahlend lacht.
    Und die Blumen blühen wieder,
    Auch die Wolken ziehen wieder,
    Und vergessen ist die kalte Nacht.
    Freut Euch der Jugend, nutzt jede Stunde,
    Wenn euch die Sonne strahlt im Mai.
    Sucht die Schönheit im Leben,
    Steht nicht daneben
    Denn der Frühling geht ja doch so schnell vorbei!"

    þriðjudagur, júní 21, 2005

    Hyrj?

    Í dag var ég að vinna kringum Hyrjarhöfða 8. Mér var spurn: hvaða orð í ef. er Hyrjar?
    Orðið er ekki fleirtöluorð, því þá væri það Hyrjahöfði. Því giska ég á hyrj. Nákvæmlega hvað orðið hyrj þýðir skal látið liggja milli hluta, en viti einhvurjir málspekúlántar svarið er þeim guðvelkomið að uppljóma mig.

    Tilvitnun dagsins:
    „Það sem þú ert að segja mér hér er að í danskri fenj hafi fundist klyfj sem er minj um menj af trefj?“
    -Radíusbræður

    þriðjudagur, júní 14, 2005

    Stakanov-Doddi

    Mikið er yndislegt að vera vinnandi maður. Frá klukkan átta á morgnana til sex að kveldi hamast ég við byggingavinnu, land og þjóð til ómælds og óeftirtækilegs gagns. Þreyttur og galsafullur kemur maður heim og rennir sér í sloppinn, hlustar á valsa eftir Chopin og lætur hugann geysast um himinblámann. Reyndar efast ég um að Stakanov heitinn hafi getað hlustað á Mahler, en hvað um það.

    mánudagur, júní 13, 2005

    Yfirlýsing

    Hér með lýsi ég því yfir að klassísk tónlist sé æðst og göfgust allrar tónlistar.

    Þau smábörn sem ekki eru sammála mér mega halda áfram að jórtra snuðin.

    fimmtudagur, júní 09, 2005

    Hvað er tónlist?

    Tónlistin hefur gegnsýrt mannkynið frá árdögum. Varla finnst sú manneskja á jarðkringlunni sem ekki hefur hlustað á tónlist af einhverju tagi, og fjöldamargir hafa helgað lífi sínu sköpun tónlistar.

    Allir tónar hafa heiltölutíðni, þ.e.a.s. tíðni þeirra mæld í hertzum er heil tala. Hver nóta hefur ákveðna tíðni, og sé sú tíðni aukin um helming hækkar nótan um áttund og lækkar um áttund þegar öfugt er gert. Önnur hlutföll eru líka sterk í þessu samhengi, og þar er fimmundin næststerkust á eftir áttundinni.

    Það vekur undrun mína og forvitni hvernig taktföst symnetría einfaldra hlutfalla bylgna með ákveðna heiltölutíðni getur hrært jafnkröftuglega í sálardjúpum mannskepnunnar og raun ber vitni, en nákvæm virkni þessa er algerlega óþekkt.

    Nú er ég byrjaður að vinna við byggingavinnu, og fyrsta vinnudaginn vann ég við nýja viðbyggingu við spennustöð Mosó. Þar inni voru gríðarstórir spennubreytar, og fann ég kröftuglega fyrir segulsviðinu í líkamanum. En það sem kom mér mest á óvart var að hið háværa suð sem spennubreytarnir gáfu frá sér var hreint g. Mér til mikillar skemmtunar söng ég tvísöng með spennubreytinum er ég færði mörg tonn malar inn í bygginguna. Það er nefnilega afar spes að mynda fimmund við spennubreyti og syngja Krummavísur eða Ísland farsælda Frón, og efast ég ekki um að margir myndu efast um geðheilsu mína ef þeir hefðu séð athöfnina.

    Það sýnir ennfremur fram á hversu oft tónar koma fram í umhverfi okkar utan hljóðfæra og söngs að þegar ég var að mála húsvegg í vinnunni heyrði ég nokkuð hreint c koma frá steinsög í nágrenninu. Sami leikur var þar leikinn og við spennubreytinn.

    Munið það svo, tónlistarskoffín máladeildar að PÝÞAGÓRAS fann upp tónbilin!
    1-0 fyrir stærðfræðinni, latínunerðir.

    laugardagur, maí 28, 2005

    Benedikt Kristjánsson

    Af gefnu tilefni vil ég herma ykkur frásögu af Benna vini mínum, sem stundar nám við MH og söngskólann.

    Benni var með mér í bekk allt frá sjöunda bekk til loka tíuna bekkjar. Áhugi drengjarins á rokktónlist var vægast sagt gríðarlegur, og varð hann skjótt góður vinur Leibba og Gumma holu. Af grunnskólaárunum er kannske lítið að segja, því ég kynntist Benna ekki fyrr en seint í 10. bekk og eftir grunnskólann. Þó ber að minnast á að hann lék á rafgítar og söng í ýmsum hljómsveitum á hinum ýmsu atburðum í félagslífinu.

    Leiðir skildust eftir grunnskólann, og fór Benni harðákveðinn í MH. Þar gekk hann fljótlega í MH-kórinn margfræga og blómstraði. Fyrst um sinn er ég þekkti engann í MR sótti ég djamm með gömlum vinum í MH, og voru Benni og Gummi Hola þar framarlega í flokki, þar sem Benni hefur æ verið stuðbolti.

    Því er verr að samskiptin dvínuðu um mjög eftir því sem ég kynntist fleirum innan MR, sótti klaufaúrslettingar þar og rak frá gamla hópnum sem ég átti máske aldrei almennilega heima í, þrátt fyrir að Benni, Gummi og Leifur hafi verið góðir vinir og gullmenni mestu.

    Benni fann köllun sína í hinni eðlu list söngsins, og kom fljótt í ljós að hann hafði fyrir sér þónokkra hæfileika á því sviði. Meðal afreka hans þar eru að lenda í öðru sæti í Söngkeppni MH, syngja sóló með MH-kórnum við fjöldamörg tilefni og kröftug þáttaka í Músíktilraunum með hljómsveitinni Maníu.

    Ég viðurkenni að ég var nokkuð stoltur af karlinum þegar hann dúxaði í grunnstigsprófi í söngskólanum með 96 stig af 100, og var þá jafnhár hæstvirtun Aroni Axeli MR-Kórtés (sem telst seint blávatn í söngnum, það skal ég segja þér.)

    Svona vill gerast þegar menn fara í mismunandi skóla; menn gleyma að hittast. Hinsvegar höfum við haldið allgóðu sambandi gegnum MSN, og er það vel.

    Nú verð ég að skunda á kóræfingu. Danmöööörk!!

    föstudagur, maí 27, 2005

    Tristrans kvæði tóbaksvarnarfrömuðar

    Tristran háði bardagann
    við heiðinn hund,
    Reyklaus er og vel hann kann
    að iðka sund.

    Lagði Tristran lensu sinni langt í svart það lunga
    rumdi hávært múslimsk gunga
    vó þar gerpið máttug stunga.

    Akbað sárt bað argan Tristran aumu lífi vægja
    bauð þá poka sesamfræja
    og uxa til að akra plægja.

    Tristran trúði réttvíst trauðla körgu eymdarkvaki
    öflugt hjó til Tristran spaki
    sundur tók við miðju baki.

    Þetta er hugmynd mín að nýrri herferð gegn reykingum. Við nýtum okkur þjóðþekkta þjóðsagnapersónu, Tristran úr hinni frægu riddarasögu um Tristran og Ísönd. Tristran ferðast til Arabalands og höggvir sér leið gegnum hjarðir heiðinna arabískra reykingamanna til að drepa Kamel-dýr. Tristran trúir að sígarettur séu gjörðar úr Kamel-dýrum, rétt eins og maður sér á pökkunum, og ef hann dræpi öll slík dýr, sem eru að sjálfsögðu í Arabalandi, myndi reykingum vera útrýmt.

    Jahá, gaman að lifa. Eins og bóndinn hann Binni okkar orti í vísnabálk sínum Binnavísum tek ég til orðs:

    Gott er að eiga góðar gleðistundir
    leika sér um lífsins grundir
    og láta börnin koma undir.

    Prófin voru hörmung samkvæmt mínum stöðlum. Þó fékk ég níu í ólesinni stærðfræði, sem kyndir upp í hinum forn-útkulnaða loga stærðfræðistolts míns, hver dó í MR. Ojæja, þarna dó hann aftur.

    Sumarið verður sjúkt mjúkt, fokking dúlla. Helvítis krútt, maður. Stjórnarvinnan er búin að vera á fullu alla vikuna, og er mun skemmtilegri en ég hefði búist við. Þrátt fyrir fjöldamarga hluti í sumar sem jafnast á við dróttkvæða gnýstuðla í skemmtanagildi er ég strax farinn að hlakka til að fara aftur í skólann eftir fríið. Eðlisfræði 1, namminamm.

    Skorsteinn Pönnuson, minn frómi vin, hefur staðið undir væntingum mínum. Honum tókst, eins og ég hafði spáð, að fá djeng í latínu. Með því dúxaði hann, og óska ég honum hjartanlega til hamingju. En á næsta ári dúxa ég stærðfræði, vittu til, sataníska bölverpið mitt.

    Komið nóg í bili, þarf að sofa. Úrg!
    Namaríë.

    mánudagur, maí 23, 2005

    Star Wars

    Ah... Star Wars er nú alger snilld, kæri lesandi. Þessi mynd sullaði hressilegu magni eldflaugaeldsneytis á eld hins gamla Star-Wars narðar í mér.

    Pæling: hvernig væri að Skólafélagið skipulegði hópferð/ir fyrir MRinga á tónleika Sinfóníunnar og á aðra klassíska tónlistarviðburði? Mér hefur fundist sem alldrjúgur hluti þeirra MRinga sem ég hef talað við hafi mætur á slíkri tónlist, og er alls ekki úr vegi að slíkar ferðir væru skipulagðar ef viljinn væri fyrir hendi. Ef til vill efldi þetta áhuga MRinga á klassískri tónlist, eða væri tækifæri til að sýna nýliðum fram á töfra fágaðri geisla tónrófsins?

    Svona er heimskulegt að fara á of góða bíómynd þegar maður þarf að vakna daginn eftir. Ég er allt of innblásinn til að sofa!

    Til gamans má rifja upp uppruna orðatiltækisins "All your base are belong to us."
    Fáfræðingar, fallnir í forardý rænuleysisins, gætu haldið að téð lína sé ekkert nema torskiljanlegur brandari hjá óþekktum alnetsnerði.
    Svo er ekki.
    Setningin er tilvitnun í opnunarsenu leikjarins Zero Wing, hver gefinn var út fyrir Sega Mega á sínum tíma. Þýðing leikjarins frá japönsku yfir á ensku var skemmtilega hláleg, og mun ég hér sýna atriðið eins og það leggur sig:

    ,,In A.D. 2101.
    War was beginning [sprenging og leisergeislar sjást í bakgrunni].
    Captain: What happen?
    Mechanic: Someone set up us the bomb!
    Operator: We get signal.[í æsingi]
    Captain: What!
    Operator: Main screen turn on.

    [skuggalegur áni birtist á skjá með hálf-vélrænt höfuð]

    Captain: It's you!
    Cats: How are you gentlemen.
    Cats: All your base are belong to us. You are on the way to destruction.
    Captain: What you say?
    Cats: You have no chance of survive, make your time.
    Cats: Ha ha ha ha!!
    [slítur sambandi]

    Captain: Take off every Zig! Move Zig!
    Captain: For great justice.''

    Jæja, dagsskammtur minn af geðveilu er uppurinn. Góða nótt.

    föstudagur, maí 20, 2005

    Tokonatsunokuni! Hikaru watakushigi!

    Prófanna helsi er nú lyft af blóðrisnum öxlum MRinga, og við tekur sumarið. Þó var ekki allt með sælunni gert daginn eftir prófið, þar sem vér Einar Óskarsson lentum í talsverðum örðugleikum varðandi fjórðubekkjarferðina margumtöluðu. Við vorum í gullnum fíling með Jagúar á Djammófóninum í landbúnaðartæki Einars á leiðinni til Þingvalla til að bétála og staðfesta ferðina þegar bomban kom. Þrátt fyrir að við hefðum fengið afar jákvætt svar og tekið tjaldstæðið frá seint í apríl fengum við flata neitun frá konunni í símanum. Þannig var mál með vexti að þeirri konu sem tók við símtali okkar í maí tókst með ótrúlegum hætti að a)skrá okkur ekki á tjaldstæðið b)fara í frí akkúrat þegar hún sagði okkur að hafa samband við sig. Furðu lostnir trøstespésum við (sögnin at trøstespise í þátíð) nammi í næstu sjoppu og íhuguðum stöðuna. Til að gera langa sögu stutta hringdum við Einar út um allt, og fengum bæði neikvæð svör, auk eins jákvæðs sem var seinna svikið. Að lokum tókst mér, eftir að hafa hringt í helming íbúa uppsveita Árnessýslu, að fá tjaldstæði hjá bónda. Allt síðan óminnishegrinn göfgaði háloftin með vængjaþyt sínum hafa íslenzkir bændur verið innblásnir og bættir, hresstir, kættir af nærveru sauðkindarinnar, eins og hvert mannsbarn gáfaðra en hjólbarði ætti að vita. Því kom það ekki á óvart að bóndanum var slétt sama hve mikið væri djammað, svo lengi sem við tækjum til eftir okkur, auk þess sem hann reddar grillum, fótboltamörkum og býr yfir klósettaðstöðu (ég kalla engann þann sem ei hefur þveitt bossafeiti í gvöðsnáttúru lands vors og skeint sér með víðigrein Íslending, og hananú!). Svo vonast maður bara eftir að sleppa undan gæsamömmuhlutverkinu, ég vil líka skemmta mér!! Ég eyddi nú öllum deginum til þess að þessi ferð gæti átt sér stað, krefst þess að fá a.m.k. eitt stig fyrir það.

    Máladeildarskoffínin mín, ykkur óska ég háfleygrar skemmtunar við grandskoðun forn-grískra leirkerja, þerimínleik eða hvað sem þið gerið þegar þið hættið að drukkna úr slefi yfir beygingarkerfum fornmála.

    Gleðilegt sumar!

    laugardagur, maí 14, 2005

    Hvítgylltur fjallstoppur mannsandans

    Gullroðnir tilhlökkunarstraumar og yfirgengilegur hressleiki fylla önd mína er ég hugsa til sumarsins. Hvert árið virðist helmingi skemmtilegra en það undanfarna. Með þessu áframhaldi fæ ég hjartaáfall úr óstjórnlegri tilhlökkun! Sumarið byrjar með smelli þegar kórferð til Baunalands fylgir fjórðubekkjarferðinni, sem verður á einum fegursta stað Íslands. Þung byggingarvinna gerir Dodda að brúnum, ljóshærðum massa sem á slatta af pening. Síðan djammið, elskurnar, Djammið! Sumblekla próftarnarinnar hverfur í grátt aldanna skaut, og við tekur íðilfögur miðnætursól sálarinnar. Seinna sumars verða tvær vikulangar hestaferðir um óbyggðir Íslands með Pabba. Bara við tveir á harðastökki um víðar lendur forfeðranna, ekkert samband við umheiminn. Enginn sími, enginn Moggi og engin sturta í heila viku!

    Ætli maður verði ekki vel tilbúinn til að byrja aftur í skólanum og hitta valinkunnan skrílinn eftir sumarið?

    Vá hvað ég hlakka annars til að hafa tíma til að umgangast vini mína eitthvað að ráði! Sé ykkur eftir prófin, goðmögn.

    Bethlezabsbók

    Nýlega fundu fornleifafræðingar fyrrum óþekkta ritningu úr Gamla Testamentinu í neðanjarðarhvelfingu undir dýflissum Oxford. Sú hét Bethlezabsbók, og hefur ekki enn verið þýdd úr ensku, en mun hér stuttur kafli sýndur, ykkur til sáluhjálpar og guðhræðslu.

    "So readeth the sixthe booke of Bethlezab, verse XIV.

    And so it was foretolde that the Parthans did faste as had been foreseene by the prophet Typhaieb, and there was much rejoicing. Thus spake God unto Bertheilad, scion of Razhghazbaal, he who led the flock of God's chosen Ostriches through the valley of Lethbezdel, whose lorde payed not his tithe and was thenceforth smitten by much fire and thunderous death by the hand of God, that he might gather many wreaths of goat-wool to the holy mountain-shrine of Negzebleb. So shore Bertheilad many goats and wrothe wreaths thereof, and verily did he faithfully bestride to the mountain-shrine of Negzebleb astride a great wilderbeast, which he had wrothen in many wreaths of goat-wool. Verily did Bertheilad step the holy ritual dance upon the goat-wool wreaths, and wailed he loudly and flailed his limbse, and so did he smear himselfe with the juice of the autumn-dades, and God was pleased, for he saw that it was good. Thusly spake god unto the people, that they might heed his wisdom, that they shoulde fashion masks of the heads of the goats, and bemask the famisciles of the children, that they might see the light. Ulgrothelbezdel the brutish barbarian nomad however spake against the Word Of God, and believed he nay the need for the mutilation of all the tribe's goats, who were fair-bred children of Kaanan. It was bespaken amongste the people that a great beam of death-fire did scream from the heavens, and Ulgrothelbezdel was turned to duste, and his spirit was sent to eternal damnation and torture in the burning pits of Hell. So fashioned they masks of the goat's heads and placed they the goat-masks upon the heads of the children, and there was much rejoicing..."

    Ah... afsakið lélega færslu, ég þurfti bara svo feitast að fá útrás fyrir flepp.

    þriðjudagur, maí 10, 2005

    ...og eftir prófið

    jess!

    Bæn litla mannsins

    Klukkan er tólf, kvöldið fyrir ólesið stærðfræðipróf.

    Ó, stærðfræðigyðja! Veit mér skýra hugsun og sveittan skrifhraða! Veit mér innblástur þegar ég er útblásinn! Og í guðanna bænum, ekki yfirgefa mig á milli eitt og hálfþrjú á morgun. Q.E.D.

    Nú tekur svefninn við.

    mánudagur, maí 09, 2005

    Andskotans helvítis fokk!

    Arg! Þvílíkur er sprengikraftur reiði minnar að vetnissprengja virðist sem eldspýta í samanburði. Með herkjum einbeiti ég mér nóg til að mynda setningar á lyklaborðinu. AAAAAARRRRRRRGGGGGGGGHHHHHHH!!!!!!!!!!!!

    Fokk!

    Urr!!! Dauði!! Hölle, Tod und Teufel, und seine Großmutter! Mein Herz liegt in dem Pfuhl des Verdammungs!

    AAAAAAARRRRRRRRGGGGG!!!!!

    Lesna stærðfræðiprófið í morgun gekk hörmulega, svo ekki sé meira sagt. Allt gekk vel þangað til að síðustu tveim dæmunum var komið; þessu var einfaldega stolið úr mér. Dæmin giltu aðeins 15 prósent, en það nægir til að halda mér frá góðri einkunn. Ég sem hélt ég sæti sem grískt goð á tindi stærðfræðilegrar snilldar og hefði málin í lófa mér, en svo virðist ekki.

    Ekkert annað fag en stærðfræði espar upp skapstærð mína, og þá af mikilli heift. Ég á að fara í ólesið stærðfræðipróf á morgun, en ég get ekki einbeitt mér betur en geðfatlaður hjólbarði sökum brennandi haturs á sjálfum mér.
    Urg....

    Garg!!! [Froðufellir og gerist blóðrauður í framan].

    Hví? Hví?? HVÍ ER MÉR MEINAÐ AÐ GANGA VEL Í STÆRÐFRÆÐI!?!? Ó, STÆRÐFRÆÐI, ÉG ELSKA ÞIG! EN ÞÚ ElSKAR MIG EKKI TIL BAKA!!!!!!!!!!!!

    Ehemm... jájá, þetta var nú spes. Hlakka til að sjá ykkur þegar geðheilsa mín kemur til baka úr útlegð.

    sunnudagur, maí 08, 2005

    Shahckmar Húmbúkk, hinn kambódíski körfuvefarameistari / bardagasnillingur

    Eins og athugulir lesendur gætu hafa tekið eftir í kommentum síðustu færslu þekki ég prýðismann er heitir Snorri Helgason. Krapkarlinn sá, hver er karl í krapinu, var samverkamaður minn á bóndabænum Högnastöðum II. Fyrir utan að vera allsherjarsnillingur á alla bóga er drengurinn svo yfirgengilega fyndinn að litlu munaði að Þangbrandur kafnaði í eigin lungnasmjeri sökum ofhláturs megnið af tímanum í sveitinni. Snorri Helgason lifir tvöföldu lífi, annarsvegar er hann hinn spaki bóndasonur Snorri, glettinn og góður í fótbolta, en hinsvegar Shahckmar Húmbúkk, hinn víðrómaði kambódíski apamaður/ bardagasnillingur / körfufléttunarmeistari. Snemma á ævi sinni vakti Shahckmar athygli skólafélaga sinna og kennara sökum ómanneskjulegs liðugleika og geðveiki. Eftir að hafa rifið heilann úr saklausum mjólkurburðarmanni með berum höndum var hann rekinn úr skóla, og flúði inn í frumskóga Kambódíu, heimalands síns. Þar giltu aðeins lögmál frumskógarins: vefaðu körfur eða deyðu. Í skóginum fann hann sálarró sem hann hafði aldrei þekkt fyrr, og fyrir tilstilli hennar lagði hann stund á bardagalistir og körfuvefun. Rauðu Khmerarnir lærðu að óttast Shahckmar, eða "blóðþyrsta djöfla-apann" eins og þeir kölluðu hann. Á endanum varð Pol Pot, leiðtogi Rauðu Khmeranna leiður á því að láta rífa heilana úr hermönnum sínum, og lét ausa úr trogi napalmheiftar yfir frumskóg Shahckmars. Hann átti sér engra kosta völ nema að flýja til Gotlands. Eftir þrjá mánuði af hlaupum á fjórum fótum, yfir fjöll, engi og freðmýrar Kína og Sovétríkjanna sálugu komst hann loksins á áfangastað. Hin Gotlenska leyni-ofurhetja, Gústav Gústavsberg tók hann undir verndarvæng sinn, og börðust þeir, ásamt aðstoðarmanni sínum Dr. Flepp, gegn hinum illa Barón Von Herzligkeit og her hans af stökkbreyttu sesarsalati og öðru lífrænt ræktuðu grænmeti.

    Svona fer sveitin með mann, kæri lesandi. Óteljandi frásagnir, sumar talsvert speisaðri en þessi ultu úr skoltum vorum á þessum tímum, en ykkur til sáluhjálpar skal þeim haldið leyndum.

    Farið er að glytta í ljósið á enda gangnanna myrku, gangna vorprófanna. Bara smávegis. Hlakka til að fara í 4. bekkjarferðina, vonast til að sjá sem flest árgangssystkini mín þar.

    Ég óska svo öllum hjartanlega góðs gengis í stærðfræðini á morgun og hinn.

    fimmtudagur, maí 05, 2005

    Fjallkonungurinn

    Uppstigningardagurinn sem átti að fara í samfelldan lestur fór í langa Esjugöngu með tveim vinkonum. Hversu lengi getur ein Esjuganga varað? Greinilega rúmlega fimm tíma! Ástæða þessa er líklegast hversu mikið við eipuðum á leiðinni. Að lokum komumst við upp fjallið eftir mikla vitleysu, og fann ég prýðisgott hásæti á tindi Esjunnar. Þar settist Fjallkonungurinn og góndi yfir víðfeðmar lendur sínar og á Atlantshafið. Fjallkonungurinn hafði hlaupið upp Esjuna berfættur, eins og sönnum íslenskum karlmanni sæmir, og sofnaði höfgum svefni í Tindastólnum eftir að hafa sporðrennt kjötlögðum brauðsneiðum auk einhvers bölvænlegs heilsunammis sem stúlkurnar potuðu að honum. Nokkru síðar rumskaði hann og með þrísöng skeiðuðum við niður kletta, skriður, snjó og gras þar til við loksins komum að bílastæðinu um fimmleytið.

    Þá þarf bara að lesa Kein Schnaps für Tamara fyrir Þýskuprófið á morgun. Þetta yndislega þjóðlag var sungið þónokkrum sinnum á leiðinni. Learn the Frón or be a flón!

    Ísland, farsælda frón,
    og hagsælda hrímhvíta móðir,
    hvar er þín fornaldar frægð,
    frelsið og manndáðin best?

    Landið var fagurt og frítt
    og fannhvítir jöklanna tindar,
    himininn heiður og blár,
    hafið var skínandi bjart.

    Gangi svo öllum vel í Þýzku / Frönsku / Spænsku á morgun.

    þriðjudagur, maí 03, 2005

    1/4

    Með munnlega dönskuprófið afstaðið hef ég lokið minni opinberu dönskumenntun. Prófið gekk ágætlega, þó fleytti ég beykisteypuna ekki eins ljúflega og í þýzkunni. Eftir að hafa komið mér í danskasta fíling ævinnar gekk ég inn í stofuna, þar sem tvær kennslukonur sátu og buðu gu'dag. Segja má með sanni að þær myndi einskonar ying-yang-samstæðu, Þyrí sem hinn biksvarti bölverpishelþvengur og Ebba sem sólbjört dönsk vaffla með rjóma og kirsuberjum.

    Þangbrandur var með pottþétta áætlun um að beita yfirskilvitlegum skilvitum sínum til að finna miðann, á hvern var ritað af kostgæfi eitthvað annað en "Lotte s. 28". Svo virðist sem Mátturinn hafi yfirgefið mig á ögurstundu, og dró ég téðan miða af mikilli sannfæringu.

    Þyrí reyndi að myrða mig með ósýnilegum augn-leiser, en tókst ekki.
    Á staðnum matreiddi ég háleita sálfræðigreiningu á hinum fólskulega mjaðskenkli Martin sem skildi eftir aðdáunarsvip á Ebbu, en sama djöfullega morðæðissvipinn á Þyrí. Eftir það var ég spurður út í sumarið, og leiddi ég hugann hjá fnæsi Þyríar.

    Í gærkveld fórum Jonni og ég út í garð, vopnaðir axi, ryðgaðri sög og beltisreipi dóminíkanamunksins Renfelds Von Haettenschweiler. Fjögur tré féllu fyrir heiftúðlegri árás okkar og reipisins. Við vorum hætt að sjá skóginn fyrir trjánum.

    Tölvufræðipróf á morgun. Vinsamlegast sendið hlýja tvíundarstrauma til mín um hádegisleytið.

    sunnudagur, maí 01, 2005

    Chamottermǿrtel

    Min farfar drikker sǿdmælk
    ja sǿdmælk drikker han
    og drikker han ikke sǿdmælk
    så spiser han ærter med flæsk.

    Já, kæru lesendur. Grandvarir aðgrandendur vita að á morgun, mánudaginn 2. maí er stúdentspróf í dǿnsku. Því kvíðir Þangbrandur engan veginn, heldur flaumeys (sögn sem þýðir að gera einhvern flaumósa, ensk. to flummox) próflesara með fjálggreyptum stíl og braghentum rauðagullsklausum.

    Satt best að segja, vinir góðir, er Þangbrandur feginn að vera kominn í próf. Kennslustundir síðustu skólavikunnar voru rýrar og upptrekkjandi, enda allt nýjabrum horfið af námsefninu. Frekar hefði ég kosið að fá viku í upplestrarfrí.

    Eftir Prófin taka die Herrlichkeiten við. Fjórðubekkjarferð, kórferð til Baunalands, byggingarvinna, stjórnarstarf og viku hestaferð með familíunni um óbyggðir Íslands munu vonandi gera þetta sumar eftirminnilegt.

    Varðandi kórferðina verð ég að vonast til að okkur verði leyft að vera úti lengur en til ellefu að kveldi. Unsere Burschenherrlichkeit braucht zeit und lebensraum, liebe Freunde! Wir möchten viel lachen und Spaß machen!
    Hugsið ykkur! Rölt um öngstræti Kaupmannahafnar með kórfélögum, söngur fyrir örlagaprólétára götunnar og hylling hins göfga æskuloga!

    Ef þú ert að lesa þetta áður en þú ferð í dönskuprófið, farðu þá snarast að sofa. Svefn er forsenda einbeitingar, rustikus!

    þriðjudagur, apríl 26, 2005

    Sauðkindin- bjargvættur Íslands

    Ég hef upp á síðkastið tekið eftir hnignandi lotningu Íslendinga fyrir Kórónu Sköpunarverksins. Téð Kóróna er auðvitað Hin Íslenzka Sauðkind, eins og sérhvert mannsbarn sem ekki telst andlegur próletari ætti að vita.

    Gæti svo verið, ég spyr og gerist afar frakkur í ósvífni minni, gæti svo mögulega verið að Íslendingar viti ekki hve yfirskilvitlegur máttur Sauðkindarinnar er? Ég beiðizt forláts ef yður finnst ég með þessarri spurningu vega að vitsmunum ykkar.

    Hin Íslenzka Sauðkind er hin mikla Alheimsfrummynd sem Plató gat aldrei kynnst. Höfug og göfug, stillt og tryllt, loðin sem soðin. Erfitt er að koma orðum að magnþjeppni Sauðkindarinnar, svo óhlutlæg og yfirgripsmikil er hún, að hún öðlast einungis merkingu á kosmískum skala.

    Vitið það hérmeð, vanþakkmáttugu Íslendingar, að sú náð sem yður er auðsýnd af náttúru og mönnum er úr einni uppsprettu uppsprottin. Sú uppspretta er velþóknun Sauðkindarinnar.

    Íslenzka sauðféð nú á dögum er beinn afkomandi dýranna, sem landnámsmenn fluttu með sér til landsins á 9. og 10. öld. Það er komið af evrópsku stuttdindilskyni og m.a. skylt kynjunum Finnsheep, Romanov, Shetland, Spelsau og sænska sveitakyninu. Allar þessar tegundir eru komnar af evrópska stuttdindinlskyninu, sem var ríkjandi í Skandinavíu og á Bretlandseyjum á 8. og 9. öld. Stærstar þessara tegunda eru íslenzka- og romanovkynið, sem eru bæði flokkuð undir meðalstærð.
    Fáar tilraunir hafa verið gerðar til að kynbæta íslenzka kynið í aldanna rás Þessar fáu tilraunir, sem voru gerðar, enduðu með ósköpum. Reynslunni ríkari lóguðu ræktendur öllum kynbættum dýrum og þar með var komið í veg fyrir frekari blóðblöndun. Nú er óheimilt að flytja sauðfé til landsins. Bændur hafa síðan beint ræktuninni að innbyrðis kynbótum og orðið vel ágengt. Erfðafræðilega er nútímasauðféð hið sama og það var í upphafi. Líklega er það elzta og hreinræktaðasta sauðfjártegund í heiminum.

    Íslenzka ærin er meðalstór og vegur 68-73 kg. Hrúturinn vegur 91-100 kg. Sauðféð er tiltölulega smábeinótt með snöggan haus, fætur og júgur. Bæði kynin eru annaðhvort hyrnd eða kollótt en flest fé er hyrnt. Féð er ekki hátt á herðakamb en breiðvaxið og vel byggt til kjötframleiðslu. Ærnar verða frjóar frá fyrri hluta nóvember til aprílloka. Hrútarnir gefa frá sér sérstaka lykt frá byrjun október, sem hefur hvetjandi áhrif á ærnar, og þeir halda því áfram allan fengitímann. Þessi lykt hefur áhrif á bragð kjötsins, ef þeim er slátrað á fengitímanum. Getnaðartíðnin er 170-180% að meðaltali en hægt er að auka hana með vali. Ær geta orðið kynþrosta ársgamlar og hrútar u.þ.b sjö mánaða. Lífslíkur heilbrigðs fjár eru langar. Ærnar geta fengið til 12-14 ára aldurs. Ullin er í tveimur lögum og náttúrulitir eru margir, þótt hinn hvíti sé algengastur.

    Nýlega var frjósemishvetjandi gen uppgötvað í íslenzka sauðfénu. Það er kallað Þoka eftir ærinni Þoku, sem fæddist að Smyrlabjörgum 1950 og talin er hafa komið með það í heiminn. Þessu geni svipar líklega til sambærilegs gens í Booroola Merino-sauðfénu. Vísindamenn hafa greint merkjanlegan mun á egglosi genberanna og áa, sem hafa ekki genið. Að meðaltali var eggjatíðni genlausra áa 1,59-2,2 en genberanna 2,14-3,4, sem er verulegur, tölfræðilegur munur. Algengast er að sjá tvílembdar ær og stundum verða þær þrí- eða fjórlembdar.

    Skapgerð og eðli. Íslenzka sauðféð er rólegt og viðráðanlegt. Það er samt fjörugt og spretthart. Flest er það sjálfstætt og skortir hjarðtilfinningu. Það dreifir sér um hagann og nýtir hann því vel. Það étur fjölbreyttan jarðargróður. Ærnar hugsa vel um lömbin og mjólka vel, enda voru þær mjólkaðar í kvíum öldum saman, allt fram undir miðja 20. öldina. Innbyrðis átök eru algeng og sumir einstaklingar taka sér forystuhlutverk. Hegðun íslenzka fjárins er oft líkt við villifé eða fyrstu dýrin, sem maðurinn tók í þjónustu sína. Sumt fé er taugaóstyrkt en er tiltölulega fljótt að aðlagast aðstæðum og hænast að smölum. Stórir og hyrndir forystuhrútar geta verið hættulegir.

    Ullarframleiðsla. Íslenzka sauðféð er þekktast fyrir ullargæði sín, þótt verðmæti hennar skipti ekki nema u.þ.b. 15% af heildarverðgildi skrokks. Lagðurinn er í tveimur lögum líkt og meðal frumstæðari tegunda. Hið innra er fínna og kallað þel en hið ytra, tog, er lengra og grófara. Lagðurinn er opinn og tiltölulega fitulítill og vegur 1,9-2,3 kg. Vegna þess hve reyfið er opið, margbreytilegt og oft litríkt, lendir það oft á sérmörkuðum, þar sem það er selt til handiðnaðar. Þelið er dúnmjúkt, gljáandi og fjaðrandi.


    Fimmta landvættin, krakkar mínir.

    þriðjudagur, apríl 19, 2005

    Pie Jesu domine, dona eis requiem.

    Þegar þetta blogg var blyggt (sögnin að blogga í þt.) var höfundur nýkominn af vortónleikum MR kórsins. Þangbrandr syngur í kórnum, og er bassi. Voru bæði kórmeðlimir og meðnjótendur hæstánægðir með tónleikana, og voru þeir vel heppnaðr, enn betur heppnaðr en Þangbrandr hafði búizt við fyrirfram.

    Það er fá tilfinningin yndislegri en að syngja í kór, sérstaklega vel æfðum og upphituðum. Prýðisgóð leið til að slaufa skólaárinu, ef þér spyrjið mig.

    Skjótt hefur veður í lopti skipast síðan síðasta blogg var blyggt. Ekki bara dó Páfinn, heldur var nýr kosinn líka. Joseph "malleus maximus" Ratzinger varð fyrir valinu, og treysti ég honum vel til að formæla samkynhneigðum, vinstrimönnum, vísindamönnum, (svo ekki sé talað um samkynhneigða og vinstrisinnaða vísindamenn) og öðrum rumpulýð hjákátlegra andlegra eftirlegusauða. Varið ykkur trúleysingjar, því HAMARINN KEMUR!

    Muhaha... En sé öllu gríni sleppt óttast ég, kristinn maður, að svo íhaldssamur Páfi muni ekki hjálpa kristninni til langs tíma litið...

    Sofa. Á morgun er dimissio, sofa núna já.

    laugardagur, apríl 09, 2005

    Ja, nú dámar mér

    Gærdagurinn var afar skemmtilegur. Eftir skóla synti Þangbrandr kílómetr í Kópavogslauginni, hlaupaeinkunn sinni til upplyftingar. Seinna er sólin lagðizt til hvílu í rekkju nætur ók ég á strætó upp í Loftkastala. Þar var mikið um spennu, og seinna gleði. Hiklaust má segja að Þangbrandr hafi skolfið sem hrísla í lakkskónum áður en sigurvegararnir voru tilkynntir. Þó fór allt vel, og stórskemmtilegt teboð var haldið seinna nætr.

    Ég vil þakka öllum sem kusu mig kærlega fyrir, því það sem skiptir máli á endanum er að eiga gott fólk að. Ek elska ykkr öll. Megið þið lengi lifa, kæru vinir, og njóta félagslífs næsta árs út í yztu æsar!

    Auk þess vil ég óska Kidda til hamingju með MT, Jonna til hamingju með Selsnefnd og Höllu til hamingju með Zéra. Og Fannar, ég vissi að þú gætir þetta!

    fimmtudagur, apríl 07, 2005

    Pereat!

    Fyrr í dag hélt stór hópr framhaldsskólanema mótmæli á Austrvelli við Alþingishúsið. Voru nemarnir fýldir mjög yfir skeytingarleysi og fasisma yfirvalda, sem skellt höfðu skollaeyrum við mótmælum þeirra gegn styttingu náms til stúdentsprófs. Réttlætisþorsta ungmennanna var ekki svalað af stjórnvöldum. Þorgerði Katrínu var óskað tortímingar af yggldum ungmennum. Þegar fullljóst var talið að enginn samningsvilji væri bakvið bæjardyr Alþingis ákváðu nemar að taka til sinna ráða. Lengi höfðu MRingar spáð komu þessa tíma, og fyrir tæpum hundrað árum gerði hinn leynilegi herarmur Framtíðarinnar, "bronzprétórarnir" þá ráðstöfun að smíða ofgnótt langspjóta að forn-grísk/makedónskum sið, og fela þau gaumgæfilega í leynilegri neðanjarðarhvelfingu undir Íþöku. Sitjandi forseti Framtíðarinnar sótti vígbúnaðinn með fulltingi MRinga. Þeir vígbjuggust og mynduðu falanx að forn-grískum/makedónskum sið, og fylktu liði að Alþingishúsinu. Lögreglu reyndist erfitt að stöðva herinn, enda einungis vopnaðir kylfum, hverjar duga skammt gegn bronzdörrum í breiðfylkingu. Skjótlega höfðu MRingar umkringt Alþingishúsið og kröfðust inngöngu. Alþingismenn vörðust í fyrstu með heitu kaffi út um glugga, því næst sjóðandi vatni, og loks gripu þeir til þeir til þess ráðs að kasta pappírspressum og göturum á herdeildina, en allt fyrir bí. Felmtri slegnir byrgðu Alþingismenn MRingum inngöngu um fordyrið með þungum skrifborðum sínum, en MRingar leituðu ákaft inngönguleiðar. Þeir tóku loks til þess ráðs að byggja landgöngubrú frá þaki Dómkirkjunar að þaki Alþingishússins, hvar nokkrir útvalnir kappar skriðu niður um skorsteininn. Þingmennirnir voru handteknir án ofbeldis og læstir inni á klósetti. Menntaskólinn í Reykjavík tók nú alfarið að sér framkvæmda-, dóms-, og lögggjafavald Íslands. Steindór Grétar Jónsson var skipaður Forseti Íslands og Jón Bjarni Kristjánsson forsætisráðherra. Gunnar Hólmsteinn var skipaður fjármálaráðherra og Fannar Freyr Ívarsson Dómsmálaráðherra. Kristján Hrannar Pálsson var skipaður Menntamálaráðherra, sem og sérlegur píanóleikari Alþingis. Þórarinn Sigurðsson var skipaður klósettræstir hins Íslenzka Lýðveldis við lítinn fögnuð af hans hálfu. Samþykkt voru einróma á fyrsta þingi hinnar nýju ríkisstjórnar eftirfarandi frumvörp: Latína skal kennd í grunnskólum, og skulu kjör kennara miðast við þingmenn. Stjórnmálatengsl við Bandaríkin skulu rofin, og skal varnarliðinu gert að tæma herstöð sína öllum hergögnum og drattast heim til mömmu. Gular Hondur skulu alfarið vera bannaðar. Við löggæzlu tekur Róðrafélag Menntaskólans í Reykjavík, og skal það upphalda lögum og reglu á kostnað auðvaldsins.

    Frekari fréttir verða tilkynntar er þær berast fréttastofu. Við minnum á Laugardagskvöld með Gísla Marteini, og þar eru gestirnir ekki af verri endanum. Halldór Ásgrímsson segir brandara og Davíð Oddsson leikur á þerimín.

    aaaahhh....
    Afsakið lélega færslu, en ég þurfti að koma þessu frá mér.
    Misferskt mjöl í morknum poka.

    miðvikudagur, apríl 06, 2005

    Ljúf endurminning

    Er ég las nýjustu færzlu hæstvirtrar Arngunnar Árnadóttur, hvar hún lýsti dásamlegri tónlistarlífsreynslu sem hún upplifði í Norræna húsinu. Þar léku Einar Jóhannesson, eða Einar Dreki eins og ég þekki hann (án gríns) á klarínett, og Philip Jenkins á píanó. Er ég las þetta minntist ég tónleika sem hrærðu í mínum dýpstu sálardjúpum um árið, og mér liggur of mikið á hjarta um téða tónleika til að þjappa máli mínu saman í neðanmálsathugasemd.

    Karlakór St. Basilskirkjunnar í Moskvu hélt tónleika í Reykholti í lok ágúst 2004. Eitt er að sjá sjónvarpsupptöku af atburðinum, annað er að fá þessa ótrúlegu tónlist beint í æð. Ekki bara eru allir 13 söngvararnir hámenntaðir og hæfileikaríkir atvinnumenn, heldur syngja þeir með tilfinningu og dýpt sem ég hef aldrei séð hjá neinum Evrópumönnum. Kórinn söng bæði kirkjuleg lög og rússnesk þjóðlög. Þótti mér ótrúleiki tónlistarinnar rísa hvað hæst í "Kvöldklukkunum", gömlu rússnesku þjóðlagi. Þar söng einn tenóranna einsöng og hinir bakraddir. Hin slavenska raddbeiting er um allt frábrugðin hinni ítölsku eða ensku. Hvílík mýkt! Hvílík fegurð! Hvílík tilfinning! Bassarnir stóðu að sjálfsögðu fyrir sínu, silkimjúkir, fallegir og dýpri en undirstöður jarðarinnar. Svo kynngi magnað var andrúmsloftið að margir af tónelskari áheyrendum, og ég þar með talinn, felldu tár. Þegar ég steig út í sumaryl og blíðu eftir tónleikana fannst mér ég fullkomnaður maður.

    Heilræði dagsins: sækið tónleika! Maður veit aldrei hvort maður fái í skamma stund snert guðdómleikann.

    laugardagur, apríl 02, 2005

    19. öldin

    Í móðukenndu morgunsári hádegisins sat ég í köflóttum slopp og hlustaði á Ríkisútvarpið, eins og öllum eldriborgurum sæmir. Þar heyrði ég yndislega tónlist eins og endranær bjarmar úr hátölurum útvarpa sem útvarpa RÚV. Frábær karlakvartett, stundum með fulltingi sópransönggkonu, sungu íslensk dægurlög frá nítjándu öld (n.b.: þessi upptaka var líka frá seinni hluta 19. aldar til fyrri hluta 20. aldar). Hvílík heiðríkja hvíldi yfir öndum mannanna á þessum tíma! Ég hvarf á vit fortíðar sem ég hefi aldrei þekkt, öld sakleysis, þar sem ofstopafull neytendamenning hafði ekki kollverpt hinum sönnu lífsgildum! Í bókinni Veröld sem var, hverja afi minn Þórarinn Guðnason þýddi, var sett fram sú kenning að eftir heimsstyrjaldirnar hafi menningu vorri hrakað, og að hún hafi aldrei náð sér síðan. Sjálfur verð ég að viðurkenna að í bjarma þess tíma er nútíminn heldur harður og grár. Þó er ekki öll von úti! Oft hefur undirritaður upplifað rauðgullinn sálaryl frændskapar og lífsgleði, og það ekki síst á Menntaskólaárunum.
    Teboð í kvöld. Slík samsæti bjóða ekki upp á fyrrnefdan sálaryl, en þó má skemmta sér á þeim. Kiddi átti afmæli á fimmtudaginn, og því má segja að þetta sé á ákveðinn hátt afmælisdjamm honum til heiðurs. Heill þér, Kiddi! Heill ykkur öllum, kæru vinir!

    miðvikudagur, mars 30, 2005

    Doddi í framboði

    Athugazt skal að III. þáttur Þjóðbrélningasögu þótti mér úr hófi lélegur, og því ákvað ég að útmá hann úr rúmtímanum með delete takkanum. Frekara framhald á sorpfriti þessu verður frestað ótímabundið, ykkur og mér til sáluhjálpar.

    Páskafríinu lauk á aðfaranótt ritunardags, og þykir mér gott að koma aptr í skólann. Ég óttast að lengra frí hefði ollið karlagningu og endanlegri niðursöltun skilningarvita og hugfettni höfundar. Næsta sunnudag verður geipilegur atburður í íslensku þjóðlífi! MR kórinn syngr í útvarpsmessu, svo skafið slepju páskaletinnar úr eyrum og hlýðið á! Innan skólans skipast veður í lofti. Kosningavikan er í nánd, og fjölmargir MRingar hugsa sér gott til glóðar, því af nógu er að taka. Sagt er að 15% allra MRinga séu embættismenn innan skólafélaganna. Ég ætla að bjóða mig fram sem gjaldkera skólafélagsins (dramatískir fiðluhljómar með pákuundirleik hljóma. Létt klarínettstef fylgir).






    Nú hafið þið fengið tíma til að melta og hrista sjokkið af ykkur. Ég vonast svo sannarega til að lesendur treysti mér fyrir embættinu, og ég mun leggja mig allan fram í að bregðast ekki væntingum kjósenda sé ég kjörinn. Nú þarf ég hinsvegar að drífa mig á kóræfingu. Hittmzt heil.

    föstudagur, mars 18, 2005

    Þjóðbrélninga saga- II. hluti

    Svo var sagt meðl manna at Dómþefr sagþi bræðr sínum frá draumsýn sinni. Réðu þeir ráðm sínm óráðvillt en hugtryllt mjök. Eptir langr vangaveltr ákváðu bræðr at sækja ráð til Héðreyks, hver kappi var mikll og fjölfarnn. Ferð bræðrnn leiddi þá ok yfr snævi þakta tinda Bjönfnismarkr ok víða dali Húrglódslands. Er þeir nálguðist bústað Héðreyks á hinum mikla fjallstindi Skýgnæfni fundu þeir hann ok eigi. Á miða er ok á borði þar stóð "Fluttur til Tróglódíu", en þat var ok heimaland bræðranna. Skunduðu bræðr þá ap kostgæfni til föðrlandsins, frá hverju þeir höfðu upprunalega farið og hittu Héðreyk í hliðarskúma hlöðu, í hverri þeir höfðu gist náttina sem Dómþefr ok dreymdi draum sinn. Héðreykr heilsaði þeim vel og hélt þeim veislu. Góð var sú veisla.
    Er kapparnir ok horfð á dvergaat ráðlagði Héðreykr Dómþefi at leita spjóts Dúndr-Tjakks, Hvell-Spengls hjá hinum þrítigarma ofurskrýmslsdjöfli Bangkok-Bubba, hver bjó í hellinum "Gleðihús Tomma" í landinu Taí, hver var illræmdur mjög. Var þat mál manna at hellirinn væri illræmdr. Dómþefr kinkaði koll sínm er hann ok tuggð marinérað dvergs-læri. Konungr Astró-Dvergnna sat í postulínshásæti sín ok skipþi herjum sínm at vígbúast. Vígbést her hans ok var vígalegr í vígbúnaþ sínm.

    Nú magnast spennan! (aftur)! Astró-dvergrnr eru tilbúnir í slaginn! Ná bræðurnir að bjarga heiminum frá tortímingu? Missið ekki af viðureigninni við Bangkok-Bubba, hverri var frestað fram á næsta blogg. Hún verður geipileg!

    sunnudagur, mars 13, 2005

    Þjóðbrélninga saga- I. þáttur

    Í tíð fyrndri gengu bræður þrír um lendur víðar í víðum lendaskýlum. Elstur þeirra var Dómþefr hinn spaki, fjölkynnigr maðr ok spakr. Honum yngri en þó yngsta bróður eldri var Mélhrímnr hinn öri, er allra bogmanna beztr var. Yngstur bræðra var Kóðgrér hinn megni, megnastr allra ok leikinn með ax ok alls kyns handknúin höggvitæki. Voru þeir bræðr synr Þjóðbrélnis hins vitra. Ein tíð er þeir bræðr voru komnr úr sínu síðasta ævintýri, hvar þeir höfðu yfirbugað Tróþkrómni hinn hrylliglega, dreka mikinn, ok her kafloðinna flug-rostunga, sóttist að Dómþefi draumsýn er hann ok svaf. Þar sá hann dverg, hver var svo loðinn að ei sást annað en loðhrúga alsherjr væri. Dvergurinn sagði Dómþefi sögu sína. Kvaðst dvergurinn heita Tumbaldrir, sonur Dúndr-Tjakks hins mikla. Nafn Dúndr-Tjakks var þekkt um víða veröld sökum mikilla hetjudáða er hann ok drýgði, ok sökum bleiks plasthatts, hvern hann gekk ávalt með á höfði sér. Dúndr-Tjakkur hafði átt mikið spjót er Hvell-spengll hét, ok var það spjót mikið. Mikið var það spjót. Spjót þetta var eina spjót heims er Þver-víddræna, illa astró-dverga vegið gat. Sagði Tumbaldrir Dómþefi að Handfeitill, konungr astró-dverganna, undirbyggi árás á mannheima. Til að bjarga heiminum frá vísri glötun yrðu bræðurnr þrír að finna Hvell-spengl ok sigr með honum her illra, þver-víddrænna astró-dverga. Dómþefr vaknaði við sólris ok dustaði hálminn af brynju sinni. Bræður hans voru þegar vakandi ok steiktu villidverg á teini. Dómþefr sagði þeim draum sinn ok voru þeir íbyggnr á svipu.

    Nú magnast spennan! Fylgist grannt með framgangi sögunnar á næstu dögum.
    Í næsta þætti hitta bræðurnir gríðarstóran, þrítigarman djöful, hver eldi spýr ok þrumum gnýr!
    Missið ekki af suddalega illa skrifuðu ævintýri, og þeirri lágkúrulegu skemmtun sem aflestur þess veitr!

    fimmtudagur, mars 10, 2005

    Kiddavísur

    Jæja, Kiddi minn. Mér leist svo vel á vísurnar sem þú ortir handa mér að ég settist niður og spreytti þessum erindum útúrmér. Ég er ekki alveg viss á reglum bragarháttarins, þú leiðréttir ef einhverju mætti betur fara. Njóttu.

    Fimir, æfðir fljúga fingur nótnaborðið yfir
    höfgir guðdómstónar óma
    er hann leikur opna hljóma.

    Kristján óður kletzmerskala klakklaust áfram spinnur
    ávallt keyrir stuð úr hófi
    ærslast skríll í svitakófi.

    miðvikudagur, mars 09, 2005

    dómþefjun

    Humm... eftir mikið maus tókst mér að koma linkum inn á síðuna. Njótið vel. Á mér ríður mál áríðandi. Nú þarf Þangbrandr hin dómþefjandi að ákveða hvort hann fer á Náttúrufræði 1 eða Eðlisfræði 1. Báðar brautirnar kynda bál námsfrygðar við minnsta umhygsi, svo valið er tregablandið.

    Líklegri tel ek þó Náttúrufræðina, þar sem ég hygg(kí, fyrir þá sem kunna hljóðritun)st nema læknisfræði eptir nám í Latínuskólanum. En oss langar í stærðfræði.. Stærðfræði! Ó hve samhverf og forkunnafríð er eðlasta fræðigrein mannkynssögunnar! Hve hreinlynd og tyrfð eru rök þín! Sár verður söknuður minn, en ég mun aldrei gleyma þrotlausum stundum bograndi yfir hinum hrímhvítu dýrðarferningum uppljómunar, lögðum hinum fegurstu formum heimspekilegs vísdóms, bundnum saman af himneskum spíral fílabeinslits plasts og varðir fagurgrænum brynskjöldum pólýetenplasts, á hverjum stendur "Stærðfræði fyrir 4. bekk stærðfræðibrautar".

    En Þangbrandr horfir til sjóndeildarhrings.

    Hvað vill hann starfa við? Reikna aukastafi á pí?
    Þegar hann íhyggst hygst honum læknisstarfið vænlegt.
    Hjálpa fólki!
    Læra læknisfræði!
    Borða ost á vakt!
    Hvers frekar gæti nokkur maður óskað sér? Mér er spurn.

    þriðjudagur, mars 08, 2005

    Zork

    Jájá. Nú er maður kominn með miða á Iron Maiden, fyrir tilstilli góða mannsins, hver heitir Darri og er mér vel kunnugur. Hann skundaði af föðurlandsást í Kringluna, hvar hann keypti miða af kostgæfni. Þykir mér mjög miður að hafa ekki getað þráð þorrann með Darra "Góðrarvonarkrulla" Kristmundssyni, en ég ber mér það til skammarminnkunar að á sama tíma stóð yfir kórpartí heima hjá mér. Þar var svo sannarlega ekkert hrafnaþing, heldur var dans, gleði og kórsöngur viðhafður af pjertíglöðum kórmeðlimum.

    Stærðfræðipróf á morgun. Líst bara nokkuð vel á þetta, farinn að lesa stærðfræði eins og hún væri mogginn. Samt endaði ég á því að spila Bach á gvítórinn í ómælda stund. Ótrúlegur snillingur hann Bach, yndislegt hvernig hann raddar áreynslulaust bassann og háu nóturnar saman.

    Illur bifur plagar mig. Sá heitir Zork og er allstór, þakinn grænu hreistri. Nagdýrsgúll hans hvæsir rámum rómi illum fréttum til mín. Hann segir mér að Marteinn "Eyja-sultur" Hunger Friðriksson, hinn heittelskaði kórstjóri MR kórsins hætti eptir næsta skólaár! Ég stari í glákukennda og bláa augnhnetti skrýmslsbifursins og spyr hvort hann sé að plata mig, en hann gefur aðeins frá sér skrækan og illkvitnislegan hlátur og hverfur samstundis gegnum slímuga sprungu í jörðinni sem lokast með hvelli á eftir honum.

    Óþreyjufullur spyr ég Martein hvort þetta sé satt, og hann staðfestir grun minn. Úff! Nú er bara að vona að við fáum annann góðan kórstjóra á eftir Marteini! Það er ekki auðvelt að finna mann af hans kalíberi sem er tilbúinn að taka að sér þvíumlíkan kór og MR kórinn...

    Ó mikli Guð tónlistarinnar! Haltu hlífisskildi þínum yfir kórnum okkar!

    sunnudagur, febrúar 13, 2005

    Há-árstíðin

    Djeng.
    Lýsir árshátíðinni fullkomlega í einu hnitmiðuðu atkvæði.
    Eftir amstur miðvikudags tók við dans-ham(st)ur... næsta dags.
    Téður næsti dagur var nefnilega Árshátíðardagur Framtíðarinnar. Teikn sáust á lofti í aðdraganda hennar. Óðagotsskotin ungmenni þeystust um bæinn, og fóru geyst í keypsku sinni á þrúgum Bakkusar. Munkar Fílabeinsapans spáðu heimsendi.

    Síðan gerðist það.

    Glóeygð fljóð og spengilegir drengir söfnuðust saman í ýmis fyrirpartí. Eitt slíkt hélt ég, og var það geypihresst, aðallega vegna partíeiginleika íbúðarinnar.

    Orrahríð klaufaúrslettinga tók nú snart að harðna þegar ungmennin, líkt og óstöðvandi hjörð af villtum bavíönum, geystust í Gullhamra.

    Erfitt er að ná nokkurri átt á uppsprettu taumlauss skemmtanagildis þess að fara á gott ball. Áhyggjuleysið og gleðin ná algleymingi og útlimir fyllast þörf á taktbundnum og ofsafengnum hreyfingum. Hefur áfengi ekkert með þetta að gera, þar sem ég var fullkomlega etrúr (ég tel að orðið edrú eigi uppruna sinn í orðinu etrúri).

    Hár styrkleiki. Það lýsir MR best. Ótrúlega öflugt og mikið félagslíf, ótrúlega öflugt og mikið nám. Djöfull er ég ánægður með lífið.
    Nóg af fjasi í bili.

    föstudagur, janúar 21, 2005

    Gaupna saga glápu

    Þá er söngvakeppnin liðin í faldanna skaut, en góðar minningarnar munu lifa um ómældar þúsaldir. Áhorfendur voru að sögn heillaðir af atriði okkar, en þó tókst okkur ekki að seiða dómarana, með þeim afleiðingum að við komumst ekki í eitt þriggja efstu sæta. Ég er ekki viss um orsakir téðrar mis-seiðingar, og læt ég hugfettur um þær kyrrar liggja, þar sem ég er ekki í neinni aðstöðu til að meta málið hlutlaust. Hrund stóð sig frábærlega, sömuleiðis Móa auk Arons og hans über-sextetts (mig minnir að þeir hafi verið sex). Það sem stendur eftir er það að hafa kynnst og unnið með þessu frábæra fólki í atriðinu. Krakkar, þið eruð æði. Slega góð. Bragi og Kiddi, þið eruð algerir æðis-sleðar. Ég kem senn með drápur um ykkur, en nú sameinast smáþarmar, garnir, þarmar, magi og já, jafnvel lifrin mín, eða Herdís eins og ég kýs að kalla hana, um að hrína eftir sveeeeittum sænskum kjötbollum! Herðið þér fress og verðið hress.

    sunnudagur, janúar 02, 2005

    Nýærið

    "Nú árið er liðið í aldanna skaut, og aldrei það kemur til baka" orti skáldið forðum. Árið 2004 hefur verið ótrúlega skemmtilegt, og ég fyllist tilhlökkun en ekki fortíðarþrá á nýju ári. Gamlárskveld var í senn hátíðlegt og hamingjuríkt. Ég óska öllum lesendum og ólesendum hjartanlega gleðiríks og sálarglæðandi árs! Áramótagleðin var ekki af verri endanum í ár, og söng ég mig hásan margsinnis sem og blóðgaði ég hægri vísifingur af gítarleik. Ódóið komst heim um hálf-níu leytið, ánægt með gáskafulla klaufaúrslettingu kveldsins. Í þessu partíi voru mestmegnis MRingar og þeir minntu mig á hvað MRingar eru frábært fólk, hlakka virkilega til að sjá ykkur MRingana aftur á nýju ári, sem og alla grellnu grillsnillana í MH!

    Roðar eldur rökkvan geim,
    remmist bróðurhugur,
    Máni silfrar mannaheim,
    magnast forn hans dugur.