Shahckmar Húmbúkk, hinn kambódíski körfuvefarameistari / bardagasnillingur
Eins og athugulir lesendur gætu hafa tekið eftir í kommentum síðustu færslu þekki ég prýðismann er heitir Snorri Helgason. Krapkarlinn sá, hver er karl í krapinu, var samverkamaður minn á bóndabænum Högnastöðum II. Fyrir utan að vera allsherjarsnillingur á alla bóga er drengurinn svo yfirgengilega fyndinn að litlu munaði að Þangbrandur kafnaði í eigin lungnasmjeri sökum ofhláturs megnið af tímanum í sveitinni. Snorri Helgason lifir tvöföldu lífi, annarsvegar er hann hinn spaki bóndasonur Snorri, glettinn og góður í fótbolta, en hinsvegar Shahckmar Húmbúkk, hinn víðrómaði kambódíski apamaður/ bardagasnillingur / körfufléttunarmeistari. Snemma á ævi sinni vakti Shahckmar athygli skólafélaga sinna og kennara sökum ómanneskjulegs liðugleika og geðveiki. Eftir að hafa rifið heilann úr saklausum mjólkurburðarmanni með berum höndum var hann rekinn úr skóla, og flúði inn í frumskóga Kambódíu, heimalands síns. Þar giltu aðeins lögmál frumskógarins: vefaðu körfur eða deyðu. Í skóginum fann hann sálarró sem hann hafði aldrei þekkt fyrr, og fyrir tilstilli hennar lagði hann stund á bardagalistir og körfuvefun. Rauðu Khmerarnir lærðu að óttast Shahckmar, eða "blóðþyrsta djöfla-apann" eins og þeir kölluðu hann. Á endanum varð Pol Pot, leiðtogi Rauðu Khmeranna leiður á því að láta rífa heilana úr hermönnum sínum, og lét ausa úr trogi napalmheiftar yfir frumskóg Shahckmars. Hann átti sér engra kosta völ nema að flýja til Gotlands. Eftir þrjá mánuði af hlaupum á fjórum fótum, yfir fjöll, engi og freðmýrar Kína og Sovétríkjanna sálugu komst hann loksins á áfangastað. Hin Gotlenska leyni-ofurhetja, Gústav Gústavsberg tók hann undir verndarvæng sinn, og börðust þeir, ásamt aðstoðarmanni sínum Dr. Flepp, gegn hinum illa Barón Von Herzligkeit og her hans af stökkbreyttu sesarsalati og öðru lífrænt ræktuðu grænmeti.
Svona fer sveitin með mann, kæri lesandi. Óteljandi frásagnir, sumar talsvert speisaðri en þessi ultu úr skoltum vorum á þessum tímum, en ykkur til sáluhjálpar skal þeim haldið leyndum.
Farið er að glytta í ljósið á enda gangnanna myrku, gangna vorprófanna. Bara smávegis. Hlakka til að fara í 4. bekkjarferðina, vonast til að sjá sem flest árgangssystkini mín þar.
Ég óska svo öllum hjartanlega góðs gengis í stærðfræðini á morgun og hinn.
|