Hvað er tónlist?
Tónlistin hefur gegnsýrt mannkynið frá árdögum. Varla finnst sú manneskja á jarðkringlunni sem ekki hefur hlustað á tónlist af einhverju tagi, og fjöldamargir hafa helgað lífi sínu sköpun tónlistar.
Allir tónar hafa heiltölutíðni, þ.e.a.s. tíðni þeirra mæld í hertzum er heil tala. Hver nóta hefur ákveðna tíðni, og sé sú tíðni aukin um helming hækkar nótan um áttund og lækkar um áttund þegar öfugt er gert. Önnur hlutföll eru líka sterk í þessu samhengi, og þar er fimmundin næststerkust á eftir áttundinni.
Það vekur undrun mína og forvitni hvernig taktföst symnetría einfaldra hlutfalla bylgna með ákveðna heiltölutíðni getur hrært jafnkröftuglega í sálardjúpum mannskepnunnar og raun ber vitni, en nákvæm virkni þessa er algerlega óþekkt.
Nú er ég byrjaður að vinna við byggingavinnu, og fyrsta vinnudaginn vann ég við nýja viðbyggingu við spennustöð Mosó. Þar inni voru gríðarstórir spennubreytar, og fann ég kröftuglega fyrir segulsviðinu í líkamanum. En það sem kom mér mest á óvart var að hið háværa suð sem spennubreytarnir gáfu frá sér var hreint g. Mér til mikillar skemmtunar söng ég tvísöng með spennubreytinum er ég færði mörg tonn malar inn í bygginguna. Það er nefnilega afar spes að mynda fimmund við spennubreyti og syngja Krummavísur eða Ísland farsælda Frón, og efast ég ekki um að margir myndu efast um geðheilsu mína ef þeir hefðu séð athöfnina.
Það sýnir ennfremur fram á hversu oft tónar koma fram í umhverfi okkar utan hljóðfæra og söngs að þegar ég var að mála húsvegg í vinnunni heyrði ég nokkuð hreint c koma frá steinsög í nágrenninu. Sami leikur var þar leikinn og við spennubreytinn.
Munið það svo, tónlistarskoffín máladeildar að PÝÞAGÓRAS fann upp tónbilin!
1-0 fyrir stærðfræðinni, latínunerðir.
|