mánudagur, október 03, 2005

Varðandi klukk

Þossi klukkaði mig. Því er ég skyldur til að segja frá fimm hlutum sem fáir vita um mig.

1. Ég fæddist rauðhærður með krullur. Sömuleiðis pabbi, hann var líka ljóshærður á unglingsárum og er núna alveg dökkhærður.

2. Á hnakka mínum er einskonar dúnn, og hefur þar verið síðan ég var örlítið mannakorn. Dúnninn líkist hári, en er þó ærið ljósari og mýkri.

3. Ég bjó eitt sinn í Bandaríkjunum í eitt ár. Það var afar gott ár, góður skóli. Samt, ótrúlega furðulegt samfélag. Þar lærði ég ensku af Spædermann í sjónvarpinu á 3 vikum. Neyðin kennir mállausum dreng að tala, segi ég.

4. Í móðurætt minni voru við fæðingu mína tveir Þórarnar fyrir. Því var ákveðið að ég skyldi ekki vera kallaður Tóti II. hinn yngri, heldur Doddi. Það nafn hefur algerlega grætt sig við mig. Margir hágæðabrandarar hafa sprottið út frá nafni mínu, svo sem Doddi koddi= Þórarinn svæfill, Doddi, doddi á rauða-gula bílnum glaður fer (haha! hann heitir nefnilega líka Doddi ,hahaha!).

5. Frá barnsaldri hef ég lifað og hrærst í ævintýraheim hugskota minna. Ein afleiðing þessa er sú að ég var afar afkastamikill teiknimyndasöguhöfundur á efri árum grunnskólagöngu minnar. Margar teiknimyndasagnanna uppskáru miklar vinsældir meðal árgangsfélaga minna, og helst þeirra var Goðsögn Kindarmannsins. Eftir útgáfu hennar, auk framkomu í búningi bóndans Vall-Sturlu á grímuballi, var ég nefndur Doddi kind. Þetta viðurnefni hefur svo haldið sér til dagsins í dag.

Næstur í klukkunarröðinni er Kári! Og Kristján! Haha! Ég veit að það er bannað að klukka tvo í einu, en ég er villtur.