Yule in Thule
Nú nálgast Jólin. Í jólaprófunum hefur leikni mín við smákökubakstur, og þá sérstaklega við bruggun heits súkkulaðis, aukist um gríðarleg stökk, þar sem hún var ekki upp á marga fiska áður. Gerð heits súkkulaðis er ekki eldamennska fyrir mér, nei, hún er viðkvæm list og nákvæm vísindi. Mörg leynihráefni eru notuð, þ.á.m. nokkrir dropar af koníaki, örlítið chili-duft, tár engilsins og lungnasmjör drekahvolpsins. Allir sem hafa lesið Harry Potter ættu að kannast við aðferðafræðina úr seyðisbruggunartímunum hjá Snape, enda hef ég numið hjá Skarphéðni efnafræðikennara, sem er í rauninni sami maðurinn. Súkkulaðið er farið að verða ansi gott hjá karlinum, og þeir sem vilja það kneyfa skulu bara biðja mig um það. Ef þeir búa í skynsamlegri fjarlægð frá miðbænum / laugardalnum skal ég koma til þeirra og laga kakó (að því gefnu að þeir eigi suðusúkkulaði og mjólk). Slíkur bolli kostar þó að sjálfsögðu eina sálu, útlim eða klapp á bakið.
Ég vil hvetja MR-inga til að hittast óspart í jólafríinu og herða vinskaparjárnin í eldi góðs kveðskapar og bakkelsissukks, enda eru engin Jól Jól án aukakílóa.
Mig vantar góða fantasíubók til að drekka í jólafríinu. Vitið þið um eina slíka? Ef svo, látið mig vita!
Vááá hvað ég hlakka til Jólaballsins, og kórtónleikanna! Þetta verður skeggjað. Nú hefur maður ekki komist á kóræfingu í... ég veit ekki hvað marga daga. Fráhvarfseinkennin eru orðin harkaleg, þau byrjuðu með smávægilegum höfuðverkjum og niðurgangi, en hafa nú þróast út í beinverki, prófþreytu og geðsýki. Auk þess klæjar mig í nefið. Ekki nóg með það, MH-og Hamrahlíðarkórinn fær að syngja Mozart Requiem með Sinfó eftir jól! Guð minn góður, hvað ég myndi ekki gefa fyrir það. Helvítis MH-ingar, með sinn góða kór, og sínar tíðu æfingar, og sín sífelldu partí, og sitt létta nám... djö.
Þetta er farið að leysast upp raup, svo ég óska ykkur bara gleðilegra prófloka í bili.
|