þriðjudagur, desember 20, 2005

Í fréttum

Ég las fyrirsögn á Fréttablaðinu sem hlægði mig svo um munaði.

"Dr. Sýkill er frjáls ferða sinna"

Ég nennti nú ekki að lesa fréttina, en ég get frá fyrirsögninni giskað á innihald hennar.

"Dr. Sýkill er frjáls ferða sinna.

Hinn illræmdi snillingur og David Bowie-aðdáandi Dr. Sýkill flúði úr prísund sinni á Svalbarða á baki tamda rostungsins Viggó síðdegis í gær. Aðspurður taldi Uffe Bjeff, sérfræðingur í alþjóðlegum hryðjuverkum og rostungum, að Dr. Sýkill gæti nú þegar verið kominn í leynipýramída sinn í Aserbaijan. Hann sagði líklegt að Dr. Sýkill mundi nú á ný sameina krafta sína Þríhyrningsmanninum og Mannlega Sæbjúganu. Dr. Sýkill hefur áður spreytt sig á sviði heimsyfirráðatilrauna. Hinn vestræni heimur var á barmi tortímingar síðastliðið haust þegar Dr. Sýkill jók gífurlega framboð á frosnum jarðaberjum, en þá voru áætlanir hans stöðvaðar af Undra-Höfrunginum og aðstoðarmanni hans, Bill Clinton. Óvíst er hver mun bjarga málunum í þetta sinnið, þar sem Undra-Höfrungurinn rekur nú útibú Saab í Argentínu, og Bill Clinton hefur ekki tekist að kenna öðrum höfrungi að fljúga, né að spýja orkugeislum.

Reuters AP"

Heimur versnandi fer.