mánudagur, júní 27, 2005

Rondo bjargar deginum

Í dag kom mér óvæntur bjargvættur til hjálpræðis og geðsupplyftingar. Sá heitir Rondo og er útvarpsstöð á vegum RÚV. Stöðin segist spila klassík og djass, en þó heyrði ég varla eitt djasslag allan daginn. Þó kvarta ég ekki, því lagavalið var framúrskarandi fjölbreytt og gott. Sérlega þótti mér fyndið þegar á eftir enn einni klassíkinni kom tilkynningin "Útvarp Rondo- spilar líka djass". Næsta lag var svo gleðilegur píanókonsert sem átti ekki frekari samleið með djassinum en varadekk með hlébarða, þó þeir séu í raun sami hluturinn.

Svo vil ég benda á að tíðni BBC er 94.3, en það vissi ég ekki fyrr en í dag. Rondo er svo 87.7.

Í Kastljósi dagsins komu fram Eiríkur Jónsson og kona frá samtökum blaðamanna að mig minnir, nafni hverrar ég hef því miður gleymt. Af því er ekki meira að segja en að Eiríkur kúkaði sér á bak upp allgróflega. Þessi maður er holdgervingur DV, ég mæli með því að lesendur kíki á kastljós dagsins á Vefsíðu RÚV.
Maðurinn var... ólýsanlegur. Ég læt lesendum eftir að mynda sér skoðun á málinu, en þykir mér um allrýran mannpappír rætt.


Já, börnin góð. Færslunni verður lokið með tilvitnun í hið íðilfagra lag "Eine kleine Frühlingsweise" með Comedian harmonists.

,,Da ertönt ganz leise, leise,
Meine kleine Frühlingsweise,
Bis die gold'ne Sonne strahlend lacht.
Und die Blumen blühen wieder,
Auch die Wolken ziehen wieder,
Und vergessen ist die kalte Nacht.
Freut Euch der Jugend, nutzt jede Stunde,
Wenn euch die Sonne strahlt im Mai.
Sucht die Schönheit im Leben,
Steht nicht daneben
Denn der Frühling geht ja doch so schnell vorbei!"