miðvikudagur, apríl 06, 2005

Ljúf endurminning

Er ég las nýjustu færzlu hæstvirtrar Arngunnar Árnadóttur, hvar hún lýsti dásamlegri tónlistarlífsreynslu sem hún upplifði í Norræna húsinu. Þar léku Einar Jóhannesson, eða Einar Dreki eins og ég þekki hann (án gríns) á klarínett, og Philip Jenkins á píanó. Er ég las þetta minntist ég tónleika sem hrærðu í mínum dýpstu sálardjúpum um árið, og mér liggur of mikið á hjarta um téða tónleika til að þjappa máli mínu saman í neðanmálsathugasemd.

Karlakór St. Basilskirkjunnar í Moskvu hélt tónleika í Reykholti í lok ágúst 2004. Eitt er að sjá sjónvarpsupptöku af atburðinum, annað er að fá þessa ótrúlegu tónlist beint í æð. Ekki bara eru allir 13 söngvararnir hámenntaðir og hæfileikaríkir atvinnumenn, heldur syngja þeir með tilfinningu og dýpt sem ég hef aldrei séð hjá neinum Evrópumönnum. Kórinn söng bæði kirkjuleg lög og rússnesk þjóðlög. Þótti mér ótrúleiki tónlistarinnar rísa hvað hæst í "Kvöldklukkunum", gömlu rússnesku þjóðlagi. Þar söng einn tenóranna einsöng og hinir bakraddir. Hin slavenska raddbeiting er um allt frábrugðin hinni ítölsku eða ensku. Hvílík mýkt! Hvílík fegurð! Hvílík tilfinning! Bassarnir stóðu að sjálfsögðu fyrir sínu, silkimjúkir, fallegir og dýpri en undirstöður jarðarinnar. Svo kynngi magnað var andrúmsloftið að margir af tónelskari áheyrendum, og ég þar með talinn, felldu tár. Þegar ég steig út í sumaryl og blíðu eftir tónleikana fannst mér ég fullkomnaður maður.

Heilræði dagsins: sækið tónleika! Maður veit aldrei hvort maður fái í skamma stund snert guðdómleikann.