þriðjudagur, mars 08, 2005

Zork

Jájá. Nú er maður kominn með miða á Iron Maiden, fyrir tilstilli góða mannsins, hver heitir Darri og er mér vel kunnugur. Hann skundaði af föðurlandsást í Kringluna, hvar hann keypti miða af kostgæfni. Þykir mér mjög miður að hafa ekki getað þráð þorrann með Darra "Góðrarvonarkrulla" Kristmundssyni, en ég ber mér það til skammarminnkunar að á sama tíma stóð yfir kórpartí heima hjá mér. Þar var svo sannarlega ekkert hrafnaþing, heldur var dans, gleði og kórsöngur viðhafður af pjertíglöðum kórmeðlimum.

Stærðfræðipróf á morgun. Líst bara nokkuð vel á þetta, farinn að lesa stærðfræði eins og hún væri mogginn. Samt endaði ég á því að spila Bach á gvítórinn í ómælda stund. Ótrúlegur snillingur hann Bach, yndislegt hvernig hann raddar áreynslulaust bassann og háu nóturnar saman.

Illur bifur plagar mig. Sá heitir Zork og er allstór, þakinn grænu hreistri. Nagdýrsgúll hans hvæsir rámum rómi illum fréttum til mín. Hann segir mér að Marteinn "Eyja-sultur" Hunger Friðriksson, hinn heittelskaði kórstjóri MR kórsins hætti eptir næsta skólaár! Ég stari í glákukennda og bláa augnhnetti skrýmslsbifursins og spyr hvort hann sé að plata mig, en hann gefur aðeins frá sér skrækan og illkvitnislegan hlátur og hverfur samstundis gegnum slímuga sprungu í jörðinni sem lokast með hvelli á eftir honum.

Óþreyjufullur spyr ég Martein hvort þetta sé satt, og hann staðfestir grun minn. Úff! Nú er bara að vona að við fáum annann góðan kórstjóra á eftir Marteini! Það er ekki auðvelt að finna mann af hans kalíberi sem er tilbúinn að taka að sér þvíumlíkan kór og MR kórinn...

Ó mikli Guð tónlistarinnar! Haltu hlífisskildi þínum yfir kórnum okkar!