Einar Finnsson
Í kvöld uppgötvaði ég hlut sem hryggir mig gífurlega, er ég las bloggsíðu vinar míns. Ég hef misst samband við besta vin minn, og það sökkar. Til útskýringar máls míns skal ég segja frá Einari, miklum heiðursmanni.
Ég kynntist Einari í fyrsta bekk í grunnskóla, og það mætti með sönnu segja að við hefðum verið eins og samlokur allan grunnskólann. Á hverjum degi fórum við saman heim og lékum okkur, spiluðum tölvuleiki og töluðum um allt milli himins og jarðar. Þó svo við værum um margt fáránlega ólíkir voru vináttubönd okkar þau traustustu sem ég man, og líklegast þekkir enginn maður mig betur en hann, sem og öfugt.
Það sem á milli kom var breyting í mér, já, ég tek sökina alfarið á mig. Þegar líða tók á tíunda bekk óx innan með mér þörfin fyrir að kynnast fólki, sökkva mér ofan í tónlist og vera í félagslífinu. Þegar við fórum svo saman í MR komu fram jafnvel meiri öfgar í þessu. Við Einar, Kolli og ég vorum einu strákarnir úr Austó sem fórum í MR. Einar og Kolli höfðu takmarkaðan áhuga á félagslífinu, sem er fullkomlega réttmæt afstaða í sjálfu sér, en ég ekki. Mig langaði að þekkja og þekkjast fólki í þessum skóla, fólki sem heillaði mig frá upphafi.
Ekki þarf lengi að segja frá því, að ég sökkti mér af fullum ofsa í félagslífið, kynntist þeim sem ég vildi kynnast og varð sáttari með líf mitt því meira sem ég stundaði það. Við Einar áttum nokkra sameiginlega vini, þar af tvo höfðingja, þá Darra og Þossa, en þeir höfðu verið með okkur í 3. G, en þó urðu vinahópar okkar óhjákvæmilega mjög ólíkir. Að sjálfsögðu þroskaðist Einar í eigin áttir, eins og allir menn gera. Mér til sorgmæðu uppgötvaði ég að hann þarfnaðist félagsskapar míns ekki lengur. Þó höfum við haldið vinskapnum eins og hægt er, en eitthvað hefur breyst á mikilvægan máta, og er því verr.
Mér finnst eins og ég hafi misst besta vin minn. Vittu það Einar, að ég elska þig sem bróðir, og mun alltaf. Ég vona bara að þú sért sammála mér.
Ég sé ekki eftir þeirri leið sem ég hef valið mér í lífinu, en ég sé eftir þér, kæri vinur.
|