þriðjudagur, apríl 26, 2005

Sauðkindin- bjargvættur Íslands

Ég hef upp á síðkastið tekið eftir hnignandi lotningu Íslendinga fyrir Kórónu Sköpunarverksins. Téð Kóróna er auðvitað Hin Íslenzka Sauðkind, eins og sérhvert mannsbarn sem ekki telst andlegur próletari ætti að vita.

Gæti svo verið, ég spyr og gerist afar frakkur í ósvífni minni, gæti svo mögulega verið að Íslendingar viti ekki hve yfirskilvitlegur máttur Sauðkindarinnar er? Ég beiðizt forláts ef yður finnst ég með þessarri spurningu vega að vitsmunum ykkar.

Hin Íslenzka Sauðkind er hin mikla Alheimsfrummynd sem Plató gat aldrei kynnst. Höfug og göfug, stillt og tryllt, loðin sem soðin. Erfitt er að koma orðum að magnþjeppni Sauðkindarinnar, svo óhlutlæg og yfirgripsmikil er hún, að hún öðlast einungis merkingu á kosmískum skala.

Vitið það hérmeð, vanþakkmáttugu Íslendingar, að sú náð sem yður er auðsýnd af náttúru og mönnum er úr einni uppsprettu uppsprottin. Sú uppspretta er velþóknun Sauðkindarinnar.

Íslenzka sauðféð nú á dögum er beinn afkomandi dýranna, sem landnámsmenn fluttu með sér til landsins á 9. og 10. öld. Það er komið af evrópsku stuttdindilskyni og m.a. skylt kynjunum Finnsheep, Romanov, Shetland, Spelsau og sænska sveitakyninu. Allar þessar tegundir eru komnar af evrópska stuttdindinlskyninu, sem var ríkjandi í Skandinavíu og á Bretlandseyjum á 8. og 9. öld. Stærstar þessara tegunda eru íslenzka- og romanovkynið, sem eru bæði flokkuð undir meðalstærð.
Fáar tilraunir hafa verið gerðar til að kynbæta íslenzka kynið í aldanna rás Þessar fáu tilraunir, sem voru gerðar, enduðu með ósköpum. Reynslunni ríkari lóguðu ræktendur öllum kynbættum dýrum og þar með var komið í veg fyrir frekari blóðblöndun. Nú er óheimilt að flytja sauðfé til landsins. Bændur hafa síðan beint ræktuninni að innbyrðis kynbótum og orðið vel ágengt. Erfðafræðilega er nútímasauðféð hið sama og það var í upphafi. Líklega er það elzta og hreinræktaðasta sauðfjártegund í heiminum.

Íslenzka ærin er meðalstór og vegur 68-73 kg. Hrúturinn vegur 91-100 kg. Sauðféð er tiltölulega smábeinótt með snöggan haus, fætur og júgur. Bæði kynin eru annaðhvort hyrnd eða kollótt en flest fé er hyrnt. Féð er ekki hátt á herðakamb en breiðvaxið og vel byggt til kjötframleiðslu. Ærnar verða frjóar frá fyrri hluta nóvember til aprílloka. Hrútarnir gefa frá sér sérstaka lykt frá byrjun október, sem hefur hvetjandi áhrif á ærnar, og þeir halda því áfram allan fengitímann. Þessi lykt hefur áhrif á bragð kjötsins, ef þeim er slátrað á fengitímanum. Getnaðartíðnin er 170-180% að meðaltali en hægt er að auka hana með vali. Ær geta orðið kynþrosta ársgamlar og hrútar u.þ.b sjö mánaða. Lífslíkur heilbrigðs fjár eru langar. Ærnar geta fengið til 12-14 ára aldurs. Ullin er í tveimur lögum og náttúrulitir eru margir, þótt hinn hvíti sé algengastur.

Nýlega var frjósemishvetjandi gen uppgötvað í íslenzka sauðfénu. Það er kallað Þoka eftir ærinni Þoku, sem fæddist að Smyrlabjörgum 1950 og talin er hafa komið með það í heiminn. Þessu geni svipar líklega til sambærilegs gens í Booroola Merino-sauðfénu. Vísindamenn hafa greint merkjanlegan mun á egglosi genberanna og áa, sem hafa ekki genið. Að meðaltali var eggjatíðni genlausra áa 1,59-2,2 en genberanna 2,14-3,4, sem er verulegur, tölfræðilegur munur. Algengast er að sjá tvílembdar ær og stundum verða þær þrí- eða fjórlembdar.

Skapgerð og eðli. Íslenzka sauðféð er rólegt og viðráðanlegt. Það er samt fjörugt og spretthart. Flest er það sjálfstætt og skortir hjarðtilfinningu. Það dreifir sér um hagann og nýtir hann því vel. Það étur fjölbreyttan jarðargróður. Ærnar hugsa vel um lömbin og mjólka vel, enda voru þær mjólkaðar í kvíum öldum saman, allt fram undir miðja 20. öldina. Innbyrðis átök eru algeng og sumir einstaklingar taka sér forystuhlutverk. Hegðun íslenzka fjárins er oft líkt við villifé eða fyrstu dýrin, sem maðurinn tók í þjónustu sína. Sumt fé er taugaóstyrkt en er tiltölulega fljótt að aðlagast aðstæðum og hænast að smölum. Stórir og hyrndir forystuhrútar geta verið hættulegir.

Ullarframleiðsla. Íslenzka sauðféð er þekktast fyrir ullargæði sín, þótt verðmæti hennar skipti ekki nema u.þ.b. 15% af heildarverðgildi skrokks. Lagðurinn er í tveimur lögum líkt og meðal frumstæðari tegunda. Hið innra er fínna og kallað þel en hið ytra, tog, er lengra og grófara. Lagðurinn er opinn og tiltölulega fitulítill og vegur 1,9-2,3 kg. Vegna þess hve reyfið er opið, margbreytilegt og oft litríkt, lendir það oft á sérmörkuðum, þar sem það er selt til handiðnaðar. Þelið er dúnmjúkt, gljáandi og fjaðrandi.


Fimmta landvættin, krakkar mínir.