laugardagur, maí 14, 2005

Hvítgylltur fjallstoppur mannsandans

Gullroðnir tilhlökkunarstraumar og yfirgengilegur hressleiki fylla önd mína er ég hugsa til sumarsins. Hvert árið virðist helmingi skemmtilegra en það undanfarna. Með þessu áframhaldi fæ ég hjartaáfall úr óstjórnlegri tilhlökkun! Sumarið byrjar með smelli þegar kórferð til Baunalands fylgir fjórðubekkjarferðinni, sem verður á einum fegursta stað Íslands. Þung byggingarvinna gerir Dodda að brúnum, ljóshærðum massa sem á slatta af pening. Síðan djammið, elskurnar, Djammið! Sumblekla próftarnarinnar hverfur í grátt aldanna skaut, og við tekur íðilfögur miðnætursól sálarinnar. Seinna sumars verða tvær vikulangar hestaferðir um óbyggðir Íslands með Pabba. Bara við tveir á harðastökki um víðar lendur forfeðranna, ekkert samband við umheiminn. Enginn sími, enginn Moggi og engin sturta í heila viku!

Ætli maður verði ekki vel tilbúinn til að byrja aftur í skólanum og hitta valinkunnan skrílinn eftir sumarið?

Vá hvað ég hlakka annars til að hafa tíma til að umgangast vini mína eitthvað að ráði! Sé ykkur eftir prófin, goðmögn.