laugardagur, maí 28, 2005

Benedikt Kristjánsson

Af gefnu tilefni vil ég herma ykkur frásögu af Benna vini mínum, sem stundar nám við MH og söngskólann.

Benni var með mér í bekk allt frá sjöunda bekk til loka tíuna bekkjar. Áhugi drengjarins á rokktónlist var vægast sagt gríðarlegur, og varð hann skjótt góður vinur Leibba og Gumma holu. Af grunnskólaárunum er kannske lítið að segja, því ég kynntist Benna ekki fyrr en seint í 10. bekk og eftir grunnskólann. Þó ber að minnast á að hann lék á rafgítar og söng í ýmsum hljómsveitum á hinum ýmsu atburðum í félagslífinu.

Leiðir skildust eftir grunnskólann, og fór Benni harðákveðinn í MH. Þar gekk hann fljótlega í MH-kórinn margfræga og blómstraði. Fyrst um sinn er ég þekkti engann í MR sótti ég djamm með gömlum vinum í MH, og voru Benni og Gummi Hola þar framarlega í flokki, þar sem Benni hefur æ verið stuðbolti.

Því er verr að samskiptin dvínuðu um mjög eftir því sem ég kynntist fleirum innan MR, sótti klaufaúrslettingar þar og rak frá gamla hópnum sem ég átti máske aldrei almennilega heima í, þrátt fyrir að Benni, Gummi og Leifur hafi verið góðir vinir og gullmenni mestu.

Benni fann köllun sína í hinni eðlu list söngsins, og kom fljótt í ljós að hann hafði fyrir sér þónokkra hæfileika á því sviði. Meðal afreka hans þar eru að lenda í öðru sæti í Söngkeppni MH, syngja sóló með MH-kórnum við fjöldamörg tilefni og kröftug þáttaka í Músíktilraunum með hljómsveitinni Maníu.

Ég viðurkenni að ég var nokkuð stoltur af karlinum þegar hann dúxaði í grunnstigsprófi í söngskólanum með 96 stig af 100, og var þá jafnhár hæstvirtun Aroni Axeli MR-Kórtés (sem telst seint blávatn í söngnum, það skal ég segja þér.)

Svona vill gerast þegar menn fara í mismunandi skóla; menn gleyma að hittast. Hinsvegar höfum við haldið allgóðu sambandi gegnum MSN, og er það vel.

Nú verð ég að skunda á kóræfingu. Danmöööörk!!

föstudagur, maí 27, 2005

Tristrans kvæði tóbaksvarnarfrömuðar

Tristran háði bardagann
við heiðinn hund,
Reyklaus er og vel hann kann
að iðka sund.

Lagði Tristran lensu sinni langt í svart það lunga
rumdi hávært múslimsk gunga
vó þar gerpið máttug stunga.

Akbað sárt bað argan Tristran aumu lífi vægja
bauð þá poka sesamfræja
og uxa til að akra plægja.

Tristran trúði réttvíst trauðla körgu eymdarkvaki
öflugt hjó til Tristran spaki
sundur tók við miðju baki.

Þetta er hugmynd mín að nýrri herferð gegn reykingum. Við nýtum okkur þjóðþekkta þjóðsagnapersónu, Tristran úr hinni frægu riddarasögu um Tristran og Ísönd. Tristran ferðast til Arabalands og höggvir sér leið gegnum hjarðir heiðinna arabískra reykingamanna til að drepa Kamel-dýr. Tristran trúir að sígarettur séu gjörðar úr Kamel-dýrum, rétt eins og maður sér á pökkunum, og ef hann dræpi öll slík dýr, sem eru að sjálfsögðu í Arabalandi, myndi reykingum vera útrýmt.

Jahá, gaman að lifa. Eins og bóndinn hann Binni okkar orti í vísnabálk sínum Binnavísum tek ég til orðs:

Gott er að eiga góðar gleðistundir
leika sér um lífsins grundir
og láta börnin koma undir.

Prófin voru hörmung samkvæmt mínum stöðlum. Þó fékk ég níu í ólesinni stærðfræði, sem kyndir upp í hinum forn-útkulnaða loga stærðfræðistolts míns, hver dó í MR. Ojæja, þarna dó hann aftur.

Sumarið verður sjúkt mjúkt, fokking dúlla. Helvítis krútt, maður. Stjórnarvinnan er búin að vera á fullu alla vikuna, og er mun skemmtilegri en ég hefði búist við. Þrátt fyrir fjöldamarga hluti í sumar sem jafnast á við dróttkvæða gnýstuðla í skemmtanagildi er ég strax farinn að hlakka til að fara aftur í skólann eftir fríið. Eðlisfræði 1, namminamm.

Skorsteinn Pönnuson, minn frómi vin, hefur staðið undir væntingum mínum. Honum tókst, eins og ég hafði spáð, að fá djeng í latínu. Með því dúxaði hann, og óska ég honum hjartanlega til hamingju. En á næsta ári dúxa ég stærðfræði, vittu til, sataníska bölverpið mitt.

Komið nóg í bili, þarf að sofa. Úrg!
Namaríë.

mánudagur, maí 23, 2005

Star Wars

Ah... Star Wars er nú alger snilld, kæri lesandi. Þessi mynd sullaði hressilegu magni eldflaugaeldsneytis á eld hins gamla Star-Wars narðar í mér.

Pæling: hvernig væri að Skólafélagið skipulegði hópferð/ir fyrir MRinga á tónleika Sinfóníunnar og á aðra klassíska tónlistarviðburði? Mér hefur fundist sem alldrjúgur hluti þeirra MRinga sem ég hef talað við hafi mætur á slíkri tónlist, og er alls ekki úr vegi að slíkar ferðir væru skipulagðar ef viljinn væri fyrir hendi. Ef til vill efldi þetta áhuga MRinga á klassískri tónlist, eða væri tækifæri til að sýna nýliðum fram á töfra fágaðri geisla tónrófsins?

Svona er heimskulegt að fara á of góða bíómynd þegar maður þarf að vakna daginn eftir. Ég er allt of innblásinn til að sofa!

Til gamans má rifja upp uppruna orðatiltækisins "All your base are belong to us."
Fáfræðingar, fallnir í forardý rænuleysisins, gætu haldið að téð lína sé ekkert nema torskiljanlegur brandari hjá óþekktum alnetsnerði.
Svo er ekki.
Setningin er tilvitnun í opnunarsenu leikjarins Zero Wing, hver gefinn var út fyrir Sega Mega á sínum tíma. Þýðing leikjarins frá japönsku yfir á ensku var skemmtilega hláleg, og mun ég hér sýna atriðið eins og það leggur sig:

,,In A.D. 2101.
War was beginning [sprenging og leisergeislar sjást í bakgrunni].
Captain: What happen?
Mechanic: Someone set up us the bomb!
Operator: We get signal.[í æsingi]
Captain: What!
Operator: Main screen turn on.

[skuggalegur áni birtist á skjá með hálf-vélrænt höfuð]

Captain: It's you!
Cats: How are you gentlemen.
Cats: All your base are belong to us. You are on the way to destruction.
Captain: What you say?
Cats: You have no chance of survive, make your time.
Cats: Ha ha ha ha!!
[slítur sambandi]

Captain: Take off every Zig! Move Zig!
Captain: For great justice.''

Jæja, dagsskammtur minn af geðveilu er uppurinn. Góða nótt.

föstudagur, maí 20, 2005

Tokonatsunokuni! Hikaru watakushigi!

Prófanna helsi er nú lyft af blóðrisnum öxlum MRinga, og við tekur sumarið. Þó var ekki allt með sælunni gert daginn eftir prófið, þar sem vér Einar Óskarsson lentum í talsverðum örðugleikum varðandi fjórðubekkjarferðina margumtöluðu. Við vorum í gullnum fíling með Jagúar á Djammófóninum í landbúnaðartæki Einars á leiðinni til Þingvalla til að bétála og staðfesta ferðina þegar bomban kom. Þrátt fyrir að við hefðum fengið afar jákvætt svar og tekið tjaldstæðið frá seint í apríl fengum við flata neitun frá konunni í símanum. Þannig var mál með vexti að þeirri konu sem tók við símtali okkar í maí tókst með ótrúlegum hætti að a)skrá okkur ekki á tjaldstæðið b)fara í frí akkúrat þegar hún sagði okkur að hafa samband við sig. Furðu lostnir trøstespésum við (sögnin at trøstespise í þátíð) nammi í næstu sjoppu og íhuguðum stöðuna. Til að gera langa sögu stutta hringdum við Einar út um allt, og fengum bæði neikvæð svör, auk eins jákvæðs sem var seinna svikið. Að lokum tókst mér, eftir að hafa hringt í helming íbúa uppsveita Árnessýslu, að fá tjaldstæði hjá bónda. Allt síðan óminnishegrinn göfgaði háloftin með vængjaþyt sínum hafa íslenzkir bændur verið innblásnir og bættir, hresstir, kættir af nærveru sauðkindarinnar, eins og hvert mannsbarn gáfaðra en hjólbarði ætti að vita. Því kom það ekki á óvart að bóndanum var slétt sama hve mikið væri djammað, svo lengi sem við tækjum til eftir okkur, auk þess sem hann reddar grillum, fótboltamörkum og býr yfir klósettaðstöðu (ég kalla engann þann sem ei hefur þveitt bossafeiti í gvöðsnáttúru lands vors og skeint sér með víðigrein Íslending, og hananú!). Svo vonast maður bara eftir að sleppa undan gæsamömmuhlutverkinu, ég vil líka skemmta mér!! Ég eyddi nú öllum deginum til þess að þessi ferð gæti átt sér stað, krefst þess að fá a.m.k. eitt stig fyrir það.

Máladeildarskoffínin mín, ykkur óska ég háfleygrar skemmtunar við grandskoðun forn-grískra leirkerja, þerimínleik eða hvað sem þið gerið þegar þið hættið að drukkna úr slefi yfir beygingarkerfum fornmála.

Gleðilegt sumar!

laugardagur, maí 14, 2005

Hvítgylltur fjallstoppur mannsandans

Gullroðnir tilhlökkunarstraumar og yfirgengilegur hressleiki fylla önd mína er ég hugsa til sumarsins. Hvert árið virðist helmingi skemmtilegra en það undanfarna. Með þessu áframhaldi fæ ég hjartaáfall úr óstjórnlegri tilhlökkun! Sumarið byrjar með smelli þegar kórferð til Baunalands fylgir fjórðubekkjarferðinni, sem verður á einum fegursta stað Íslands. Þung byggingarvinna gerir Dodda að brúnum, ljóshærðum massa sem á slatta af pening. Síðan djammið, elskurnar, Djammið! Sumblekla próftarnarinnar hverfur í grátt aldanna skaut, og við tekur íðilfögur miðnætursól sálarinnar. Seinna sumars verða tvær vikulangar hestaferðir um óbyggðir Íslands með Pabba. Bara við tveir á harðastökki um víðar lendur forfeðranna, ekkert samband við umheiminn. Enginn sími, enginn Moggi og engin sturta í heila viku!

Ætli maður verði ekki vel tilbúinn til að byrja aftur í skólanum og hitta valinkunnan skrílinn eftir sumarið?

Vá hvað ég hlakka annars til að hafa tíma til að umgangast vini mína eitthvað að ráði! Sé ykkur eftir prófin, goðmögn.

Bethlezabsbók

Nýlega fundu fornleifafræðingar fyrrum óþekkta ritningu úr Gamla Testamentinu í neðanjarðarhvelfingu undir dýflissum Oxford. Sú hét Bethlezabsbók, og hefur ekki enn verið þýdd úr ensku, en mun hér stuttur kafli sýndur, ykkur til sáluhjálpar og guðhræðslu.

"So readeth the sixthe booke of Bethlezab, verse XIV.

And so it was foretolde that the Parthans did faste as had been foreseene by the prophet Typhaieb, and there was much rejoicing. Thus spake God unto Bertheilad, scion of Razhghazbaal, he who led the flock of God's chosen Ostriches through the valley of Lethbezdel, whose lorde payed not his tithe and was thenceforth smitten by much fire and thunderous death by the hand of God, that he might gather many wreaths of goat-wool to the holy mountain-shrine of Negzebleb. So shore Bertheilad many goats and wrothe wreaths thereof, and verily did he faithfully bestride to the mountain-shrine of Negzebleb astride a great wilderbeast, which he had wrothen in many wreaths of goat-wool. Verily did Bertheilad step the holy ritual dance upon the goat-wool wreaths, and wailed he loudly and flailed his limbse, and so did he smear himselfe with the juice of the autumn-dades, and God was pleased, for he saw that it was good. Thusly spake god unto the people, that they might heed his wisdom, that they shoulde fashion masks of the heads of the goats, and bemask the famisciles of the children, that they might see the light. Ulgrothelbezdel the brutish barbarian nomad however spake against the Word Of God, and believed he nay the need for the mutilation of all the tribe's goats, who were fair-bred children of Kaanan. It was bespaken amongste the people that a great beam of death-fire did scream from the heavens, and Ulgrothelbezdel was turned to duste, and his spirit was sent to eternal damnation and torture in the burning pits of Hell. So fashioned they masks of the goat's heads and placed they the goat-masks upon the heads of the children, and there was much rejoicing..."

Ah... afsakið lélega færslu, ég þurfti bara svo feitast að fá útrás fyrir flepp.

þriðjudagur, maí 10, 2005

...og eftir prófið

jess!

Bæn litla mannsins

Klukkan er tólf, kvöldið fyrir ólesið stærðfræðipróf.

Ó, stærðfræðigyðja! Veit mér skýra hugsun og sveittan skrifhraða! Veit mér innblástur þegar ég er útblásinn! Og í guðanna bænum, ekki yfirgefa mig á milli eitt og hálfþrjú á morgun. Q.E.D.

Nú tekur svefninn við.

mánudagur, maí 09, 2005

Andskotans helvítis fokk!

Arg! Þvílíkur er sprengikraftur reiði minnar að vetnissprengja virðist sem eldspýta í samanburði. Með herkjum einbeiti ég mér nóg til að mynda setningar á lyklaborðinu. AAAAAARRRRRRRGGGGGGGGHHHHHHH!!!!!!!!!!!!

Fokk!

Urr!!! Dauði!! Hölle, Tod und Teufel, und seine Großmutter! Mein Herz liegt in dem Pfuhl des Verdammungs!

AAAAAAARRRRRRRRGGGGG!!!!!

Lesna stærðfræðiprófið í morgun gekk hörmulega, svo ekki sé meira sagt. Allt gekk vel þangað til að síðustu tveim dæmunum var komið; þessu var einfaldega stolið úr mér. Dæmin giltu aðeins 15 prósent, en það nægir til að halda mér frá góðri einkunn. Ég sem hélt ég sæti sem grískt goð á tindi stærðfræðilegrar snilldar og hefði málin í lófa mér, en svo virðist ekki.

Ekkert annað fag en stærðfræði espar upp skapstærð mína, og þá af mikilli heift. Ég á að fara í ólesið stærðfræðipróf á morgun, en ég get ekki einbeitt mér betur en geðfatlaður hjólbarði sökum brennandi haturs á sjálfum mér.
Urg....

Garg!!! [Froðufellir og gerist blóðrauður í framan].

Hví? Hví?? HVÍ ER MÉR MEINAÐ AÐ GANGA VEL Í STÆRÐFRÆÐI!?!? Ó, STÆRÐFRÆÐI, ÉG ELSKA ÞIG! EN ÞÚ ElSKAR MIG EKKI TIL BAKA!!!!!!!!!!!!

Ehemm... jájá, þetta var nú spes. Hlakka til að sjá ykkur þegar geðheilsa mín kemur til baka úr útlegð.

sunnudagur, maí 08, 2005

Shahckmar Húmbúkk, hinn kambódíski körfuvefarameistari / bardagasnillingur

Eins og athugulir lesendur gætu hafa tekið eftir í kommentum síðustu færslu þekki ég prýðismann er heitir Snorri Helgason. Krapkarlinn sá, hver er karl í krapinu, var samverkamaður minn á bóndabænum Högnastöðum II. Fyrir utan að vera allsherjarsnillingur á alla bóga er drengurinn svo yfirgengilega fyndinn að litlu munaði að Þangbrandur kafnaði í eigin lungnasmjeri sökum ofhláturs megnið af tímanum í sveitinni. Snorri Helgason lifir tvöföldu lífi, annarsvegar er hann hinn spaki bóndasonur Snorri, glettinn og góður í fótbolta, en hinsvegar Shahckmar Húmbúkk, hinn víðrómaði kambódíski apamaður/ bardagasnillingur / körfufléttunarmeistari. Snemma á ævi sinni vakti Shahckmar athygli skólafélaga sinna og kennara sökum ómanneskjulegs liðugleika og geðveiki. Eftir að hafa rifið heilann úr saklausum mjólkurburðarmanni með berum höndum var hann rekinn úr skóla, og flúði inn í frumskóga Kambódíu, heimalands síns. Þar giltu aðeins lögmál frumskógarins: vefaðu körfur eða deyðu. Í skóginum fann hann sálarró sem hann hafði aldrei þekkt fyrr, og fyrir tilstilli hennar lagði hann stund á bardagalistir og körfuvefun. Rauðu Khmerarnir lærðu að óttast Shahckmar, eða "blóðþyrsta djöfla-apann" eins og þeir kölluðu hann. Á endanum varð Pol Pot, leiðtogi Rauðu Khmeranna leiður á því að láta rífa heilana úr hermönnum sínum, og lét ausa úr trogi napalmheiftar yfir frumskóg Shahckmars. Hann átti sér engra kosta völ nema að flýja til Gotlands. Eftir þrjá mánuði af hlaupum á fjórum fótum, yfir fjöll, engi og freðmýrar Kína og Sovétríkjanna sálugu komst hann loksins á áfangastað. Hin Gotlenska leyni-ofurhetja, Gústav Gústavsberg tók hann undir verndarvæng sinn, og börðust þeir, ásamt aðstoðarmanni sínum Dr. Flepp, gegn hinum illa Barón Von Herzligkeit og her hans af stökkbreyttu sesarsalati og öðru lífrænt ræktuðu grænmeti.

Svona fer sveitin með mann, kæri lesandi. Óteljandi frásagnir, sumar talsvert speisaðri en þessi ultu úr skoltum vorum á þessum tímum, en ykkur til sáluhjálpar skal þeim haldið leyndum.

Farið er að glytta í ljósið á enda gangnanna myrku, gangna vorprófanna. Bara smávegis. Hlakka til að fara í 4. bekkjarferðina, vonast til að sjá sem flest árgangssystkini mín þar.

Ég óska svo öllum hjartanlega góðs gengis í stærðfræðini á morgun og hinn.

fimmtudagur, maí 05, 2005

Fjallkonungurinn

Uppstigningardagurinn sem átti að fara í samfelldan lestur fór í langa Esjugöngu með tveim vinkonum. Hversu lengi getur ein Esjuganga varað? Greinilega rúmlega fimm tíma! Ástæða þessa er líklegast hversu mikið við eipuðum á leiðinni. Að lokum komumst við upp fjallið eftir mikla vitleysu, og fann ég prýðisgott hásæti á tindi Esjunnar. Þar settist Fjallkonungurinn og góndi yfir víðfeðmar lendur sínar og á Atlantshafið. Fjallkonungurinn hafði hlaupið upp Esjuna berfættur, eins og sönnum íslenskum karlmanni sæmir, og sofnaði höfgum svefni í Tindastólnum eftir að hafa sporðrennt kjötlögðum brauðsneiðum auk einhvers bölvænlegs heilsunammis sem stúlkurnar potuðu að honum. Nokkru síðar rumskaði hann og með þrísöng skeiðuðum við niður kletta, skriður, snjó og gras þar til við loksins komum að bílastæðinu um fimmleytið.

Þá þarf bara að lesa Kein Schnaps für Tamara fyrir Þýskuprófið á morgun. Þetta yndislega þjóðlag var sungið þónokkrum sinnum á leiðinni. Learn the Frón or be a flón!

Ísland, farsælda frón,
og hagsælda hrímhvíta móðir,
hvar er þín fornaldar frægð,
frelsið og manndáðin best?

Landið var fagurt og frítt
og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár,
hafið var skínandi bjart.

Gangi svo öllum vel í Þýzku / Frönsku / Spænsku á morgun.

þriðjudagur, maí 03, 2005

1/4

Með munnlega dönskuprófið afstaðið hef ég lokið minni opinberu dönskumenntun. Prófið gekk ágætlega, þó fleytti ég beykisteypuna ekki eins ljúflega og í þýzkunni. Eftir að hafa komið mér í danskasta fíling ævinnar gekk ég inn í stofuna, þar sem tvær kennslukonur sátu og buðu gu'dag. Segja má með sanni að þær myndi einskonar ying-yang-samstæðu, Þyrí sem hinn biksvarti bölverpishelþvengur og Ebba sem sólbjört dönsk vaffla með rjóma og kirsuberjum.

Þangbrandur var með pottþétta áætlun um að beita yfirskilvitlegum skilvitum sínum til að finna miðann, á hvern var ritað af kostgæfi eitthvað annað en "Lotte s. 28". Svo virðist sem Mátturinn hafi yfirgefið mig á ögurstundu, og dró ég téðan miða af mikilli sannfæringu.

Þyrí reyndi að myrða mig með ósýnilegum augn-leiser, en tókst ekki.
Á staðnum matreiddi ég háleita sálfræðigreiningu á hinum fólskulega mjaðskenkli Martin sem skildi eftir aðdáunarsvip á Ebbu, en sama djöfullega morðæðissvipinn á Þyrí. Eftir það var ég spurður út í sumarið, og leiddi ég hugann hjá fnæsi Þyríar.

Í gærkveld fórum Jonni og ég út í garð, vopnaðir axi, ryðgaðri sög og beltisreipi dóminíkanamunksins Renfelds Von Haettenschweiler. Fjögur tré féllu fyrir heiftúðlegri árás okkar og reipisins. Við vorum hætt að sjá skóginn fyrir trjánum.

Tölvufræðipróf á morgun. Vinsamlegast sendið hlýja tvíundarstrauma til mín um hádegisleytið.

sunnudagur, maí 01, 2005

Chamottermǿrtel

Min farfar drikker sǿdmælk
ja sǿdmælk drikker han
og drikker han ikke sǿdmælk
så spiser han ærter med flæsk.

Já, kæru lesendur. Grandvarir aðgrandendur vita að á morgun, mánudaginn 2. maí er stúdentspróf í dǿnsku. Því kvíðir Þangbrandur engan veginn, heldur flaumeys (sögn sem þýðir að gera einhvern flaumósa, ensk. to flummox) próflesara með fjálggreyptum stíl og braghentum rauðagullsklausum.

Satt best að segja, vinir góðir, er Þangbrandur feginn að vera kominn í próf. Kennslustundir síðustu skólavikunnar voru rýrar og upptrekkjandi, enda allt nýjabrum horfið af námsefninu. Frekar hefði ég kosið að fá viku í upplestrarfrí.

Eftir Prófin taka die Herrlichkeiten við. Fjórðubekkjarferð, kórferð til Baunalands, byggingarvinna, stjórnarstarf og viku hestaferð með familíunni um óbyggðir Íslands munu vonandi gera þetta sumar eftirminnilegt.

Varðandi kórferðina verð ég að vonast til að okkur verði leyft að vera úti lengur en til ellefu að kveldi. Unsere Burschenherrlichkeit braucht zeit und lebensraum, liebe Freunde! Wir möchten viel lachen und Spaß machen!
Hugsið ykkur! Rölt um öngstræti Kaupmannahafnar með kórfélögum, söngur fyrir örlagaprólétára götunnar og hylling hins göfga æskuloga!

Ef þú ert að lesa þetta áður en þú ferð í dönskuprófið, farðu þá snarast að sofa. Svefn er forsenda einbeitingar, rustikus!