Sálarhvíl eftir hugarvíl
Það er fátt, ef nokkuð, til betra að setja á fóninn en Django & band hans þegar steikir kálfasnitselið og flippar pönnsunum. Jú, rólyndi er kjörorð helgarinnar. Lærdómur hefur verið hófnógur, og tímabilið frá síðustu færslu einkennst af "feel doth it good, and the sun shineth, and mine arse swing'th as the arse of the swing God himselfe doth swing", svo ég vitni í sjálfan mig.
Prófkvíði, segðu frekar 1/prófkvíða. Prófléttir. Síðasta vikan í skólanum fór í óþreyjufulla bið eftir upplestrarfríi, kannist þið ekki við þetta, eðlu lesendur?
Fór á tvo geðveika tónleika um helgina. Útgáfutónleikar Garðars Thors Cortes, (plögg í boði Einars Bárðarsonar) voru í gær. Lagavalið var kannske ekki með klassískasta móti, en váááááá hvað maðurinn syngur! Jahve sé prísaður, og allar hans geitur! Karlinn fékk að sjáfsögðu standandi klapp eftir flutninginn, og á eftir hverju lagi sprakk út gífurleg klappflóðbylgja að síðasta tóni nýslepptum. Glæsilegt, svo ég segi ekki meira. Mútter spilaði í bandinu svo ég fékk að heilsa upp á kempuna baksviðs, og ekki var að taka eftir neinu egói í meistaranum. Það þykir mér ótrúlega aðdáunarvert, enda skilar það sér í flutningnum. Til að tónlistarmaður flytji frábærlega vel þarf hann ekki aðeins að vera góður á hljóðfæri sitt, heldur verður hann að vera laus við egó. Það er alltént mín skoðun. En nóg af því.
Hinir tónleikarnir voru ekki svo gríðarlegir, en þó frábærir. Þar söng Áskirkjukórinn í aðventuprógrammi í Áskirkju í kvöld (í.). Svakalega flottur kór þar á ferðinni. Þó átti ég erfitt með að halda niðri í mér hlátri undir lok flutningsins, þar sem nokkrir eldri menn supu hveljur djúpt ofan í kok með markvissu millibili. Það minnti nefnilega óheyrilega á rýt villigaltar. En það er jú eitt fyndnasta hljóð sem fyrirfinnst á jörðu, sérstaklega í þessu helga samhengi, maður varð bara að vera þarna.
Megi prófin brosa við ykkur, höfuðskepnur góðar.
|