föstudagur, ágúst 18, 2006

Marmaris

Já, frómu lesendur, nú er komið að hinu óhjákvæmilega. Rétt eins og sérhvert nammistykki sem við snæðum leggur að lokum leið sína gegnum ananus verða frásagnir af stórferðum að lúta sama lögmáli.

Útskriftarferðin okkar var farin til Marmaris, en það er sjávarbær á suðvesturhorni Tyrklands við Marmaraflóa. Ferðin stóð fyllilega og rúmlega fyrir væntingum, enda gerðist margt speisað. Meðal hápunkta ferðarinnar voru ástarævintýri, tógakvöldið, skoðunarforð um hið forna metrópólis Ephesos, þar sem sjá mátti meðal annars stórglæsilegt hóruhús, bókasafn og leikhús. Ekki var heldur alls kostar ónýtt að leigja hraðfley með 115 hestafla útbyrðis-vatnshrærivél og geysast á 90 km hraða um fagran Marmaraflóann með nokkrum kumpánum. Allnokkur ósannsögli fælist í þeirri fullyrðingu að sumblekla hafi verið í ferðinni. Margir frómir piltar gáfust þar Bakkusi á völd og mátti heyra hávært garg óminnishegrans langt fram eftir morgni á hverju kveldi. Smáatriði um svona ferðir eru óáhugaverð nema þau komi frá betri penna en mér, svo ég læt þau vera í bili. En þessi ferð var algert brill, og ég vona að öðrum hafi gefist tækifæri til að njóta hennar eins vel og ég gerði. Við yngribekkinga segi ég hér með: hlakkið til.

Það voru þreytuleg augu og þreytulegar lifrar sem lentu á Keflavíkurflugvelli þann 15. ágúst, en ég held að allir séu nokkuð sáttir með ferðina, og á 5. bekkjarráð megnt hrós skilið fyrir jafnvel heppnaða ferð og þessa.


Skólinn fer að byrja.
Ég hlakka til. Hvað segið þið?

laugardagur, júlí 29, 2006

Reciprocate!

Ég er með tillögu til allra bloggara.

Skoðið síður vina ykkar reglulega og skiljið eftir komment. Það mun leiða til þess að þeir kommenta hjá ykkur, og þar af leiðandi munuð bæði þið og þeir blogga oftar, og jafnvel leggja meiri orku í hvern póst. Bloggið er maturt sem þrífst að miklu leyti á athygli annara maturtaræktenda.

So sayeth the wise Alamando.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Og þannig spék Zóróthastres

Síðastliðnar tvær vikur hafa liðið í svitamóki á hinni Balörsku ey Mallorku. Engin loftræsting og þröng af sólbrenndum breskum og þýskum kjötskrokkum vafrandi um göturnar með yfirvaraskegg og heimaeldaða nýrnaböku blöstu við við viðkomu á hótelinu. Það kom þó ekki að sök, því ströndin var æði. Svo fékk ég líka eins mikið af kóki og oreo-kexi og ég vildi. Þann mann kalla ég armt flak sem ekki getur verið sáttur í sykurnautn oreo/kók-blöndunnar. Þegar ég kem á strönd sleppi ég því þykistuyfirskini að ég sé fágaður ungur maður sem hugsar vitrænt og hagar sér skikkanlega. Ég hleyp flissandi út í sjóinn í kút með öllum krökkunum og flissa í ölduganginum og saltinu þangað til ég er algerlega dauður úr þreytu. Þá legst ég á bakið og leyfi saltskorpunni að þorna utan á mér áður en ég held heim á leið. Þá fer ég í sturtu og les. Ég las tvær og hálfa bók í þessu fríi: Draumalandið eftir Andra Snæ, Flugdrekahlauparann eftir Hosseini og hálfa "Also sprach Zarathustra" Nietzsches á ensku. Ég er mjög hrifinn af þessari bók, og ríf hana í mig á ógnarhraða. Næst á dagskrá eru Karamazoff-bræðurnir. Þeir verða lesnir á sundlaugarkantinum á Marmaris.

Síðan gerir maður alltaf eitthvað sem ómögulegt er að segja frá í prenti eða orði, eins og eins-manns djammið mitt með Credence á sundlaugarbakkanum klukkan 3 að næturlagi á fimmtudaginn, eða líflegar umræðurnar sem við áttum um Sveppakenninguna í stjórnsýslu.


Marmaris! Marmaris! Þetta verður geggjaðra en skeggjaður kvenkyns dvergur með ullarkollhúfu og þúfnabana milli þjóhnappanna, og þá hygg ég nokkuð sagt. Ég vona bara að ferðin standi fyrir sínu, en þær gera það oftast, þessar ferðir.

laugardagur, júlí 01, 2006

Hér sit ég og blasta Kvöldsöngvum sankti-Jóhannesar Krísóstóms (gullkjafts) eftir góðan skammt af sjálfskapaðri freðmjólk, þekkt leikmönnum sem ís. Því miður virðast allir kunningjar mínir annaðhvort vera fjarstaddir Reykjavík eða undirþramdir Belefgor, erkidjöfli letinnar og óvini sumblfýsnar og gleðihalds. Ég hef af þeim sökum eytt kvöldinu í spjall við Armenskan fasteignasala og gyðinglegan píanóleikara frá Long Island, að glöggva mig á sértæku afstæðiskenningunni og Hindúisma.

Vá, ég er strax farinn að hlakka til að fara aftur í Skólann! Ég hlakka til að hittta vinina aftur, þetta yndislega fólk sem alltaf tekst að lýsa upp fyrir manni daginn. En þó er ekki örvæntingar þörf, því ég er að fara til tveggja sólríkra og, takandi tillit til miðbaugslægni, funheitra landa áður en hausta tekur.

Skólafélaginu gengur eins og vel smurðum Skota að ferðast gegnum loftræstikerfi: mjög vel. Samningar eru flestir í höfn, hjólin snúast og kotbændur sækja diskótek, við mikinn fögnuð.

Ég átti annars afmæli í gær. Hver er til í partí?

mánudagur, júní 19, 2006

Mosasköfubyltingin

Eftir innblásin bloggpistil Þorsteins "Stakanoff" Ö. Vilhjálmssonar hafa starfsmenn hinnar siðspilltu Gatnamálastofnunar og hins viðurstyggilega mannhatarafélags Vinnuskólans tekið verkfærum saman og ráðist gegn valdboðurum sínum. Fjöldamargir golfbílar í eigu borgarinnar hafa sætt miskunnarlausum árásum úrillra ungmenna, og íbúar þeirra átt fótum fjör að launa. Óstaðfestar fregnir herma að hin svokallaða Mosasköfuherdeild hafi tekið höndum saman við Apaguðsherdeildina, en hún er róttækur armur Hindúavinafélags Reykjavíkur. Þessi flokkur reiðra ungmenna hefur nú um nokkurt skeið látið ófriðlega fyrir utan skrifstofur vinnuskólans. George W. Bush bandaríkjaforseti hefur neitað að tjá sig um málið, en lét þó hafa eftirfarandi eftir sér: "We do not negotiate with terrorists".

Þorsteinn, hvað hefurðu gert?

laugardagur, maí 13, 2006

Af óvonandi varmadauða alheimsins og mannætu-fólínsýrunni Kláusi.

Jessör, það er fátt meira hressandi en að sökkva sér í stjarneðlisfræði og íhuga óhjákvæmilegt komandi örkuml alheimsins fyrir atbeina varmadauðans. Fokking varmadauði! Þú, sárgagl, sem attir Bolzmann til sjálfsvígs! Megir þú vera tjargaður og fiðraður, og látinn geisast út á salti stráðar auðnir á vísundsbaki! Pussi.

Úr hæstu turnum geta skarpeygðir eygt lok prófanna á sjóndeildarhringnum. Þeir sjá þá vaða upp fjarlægar strandir hið mikla færanlega partí sem er próflokagleðin. Dansandi sekkjapípuleikarar og belgtrommarar skoppa í gleði sinni og fjöldi dverga sýnir kúnstir sínar á baki dýrum savannans. Partíið er þó ekki enn komið í bæinn, því enn eru fjegur próf eftir hjá mér, örmum. Munnleg stærðfræði er næst á dagskrá. Ég vonast eftir að fá meðalgildisregluna, enda er hún glæsilegasta sönnun sem ég hef séð á ævinni... hvílík stjarna.

Hvað varðar mannætu-fólínsýruna Kláus, þá ætla ég ekki að eyða meira púðri í hann. Ef menn vilja fræðast frekar um fólínsýru bendi ég á vandlega umfjöllun um hin skynsamari ættmenni Kláusar.

þriðjudagur, maí 09, 2006

Í tilfefni íslenska stílsins

Nú hefur Þorsteinn , betur þekktur sem Khazgharoth, skrifað eip-stíl á ensku til að viðhafa skefjalaust orðagjálfur. Nú mun ég gera ið sama, nema á íslensku, og yrkja dróttkvæðið Bjall-þvengil.

Bjall-þvengill

Loftfleygum gall lúðurs
loðnum þvengils boðni,
hrímbeygt skáru hrúðboð
hróðþrömum Bjallis móðum.
Yggbræði gall eggjar
umþvall yggv og humall.



tak þetta og et, Þorsteinn!

Ég tók síðan prófið sem er svo vinsælt um þessar mundir á hinum ýmsu bloggsíðum.


You scored as Mathematics.
You should be a Math major!
Like Pythagoras, you are analytical,
rational, and when are always ready
to tackle the problem head-on!

Engineering


100%

Biology


100%

Mathematics


100%

Philosophy


100%

Sociology


83%

Chemistry


83%

Linguistics


83%

Psychology


83%

Anthropology


83%

Dance


75%

Journalism


75%

Theater


75%

English


58%

Art


33%



ég hef greinilega of mikinn áhuga á of mörgu, hvort sem það er gott eða vont.

Allahu ackbar!

fimmtudagur, maí 04, 2006

Gamli góði prófafílingurinn

Ó já, hann er svo sannarlega farinn að segja til sín, gamli letifílingurinn sem vífur að í kringum prófin. Síðasta próf sem ég fór í var munnleg enska í gær. Áður en ég skrifaði þessa setningu fannst mér sem þrír dagar hefðu liðið síðan. Ó, við Jób, svo sannarlega er gjörvilleikur allur og atgervi Föðurs Tíma drýldnari og silalegri en nokkurndeilis annarstíðis. Ég fer ekki í próf fyrr en á mánudaginn! Vissulega er þetta gott svigrúm og allt það, en af öllu góðu er ofgnægð þó kæfandi segi ég! O, hvað ég vildi vera á drekabaki með leiserspjót, í eltingarleik við illilegt fljúgandi loðskrýmsl eða þvíumlíkt. Því miður eru tækifæri nútímamannsins til drekareiða fá.

Nú eru allir fornmælingar og náttúrufróðir að fara í málvísindi/grísku/lífræna efnafæð á morgun.

Ég mun sofa út á morgun.

Síðan dúlla ég mér niður á Laugaveg, kaupi stílabók, heimsæki ömmu og rabba við hana um landsins hvert ógagn og benjar. Amma mín er nefnilega mikill spaði, meiri en nokkur sem ég hef kynnst á ævinni. Hennar krú innihélt m.a. Tómas Guðmundsson, Jóhannes úr Kötlum og Dóra Laxness. Svo gerir hún náttúrulega fáránlega góðan hrísgrjónagraut.

En já, klukkan er orðin tíu og fréttirnar kalla.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Bryngása þáttur, kapitulus primus

Forðum tíð, þá er Freyþvengur fjallanefsgoði réði ríkjum í Belgíu, sótti draumsýnir miklar og hamfærandi yfir gagl nokkurt er Hrímþrellir hét. Í draumsýninni fékk Hrímþrellir þá hugfettu alsnjalla að brynklæða gásir allmargar og halda til landtöku. Svá bauð Hrímþrellir, gagl Bjöngfnis, gásum sínum: "Garg! Aarg! Gagg gaggg. Gagg. Garg!" (þýð.: Eðlu gásir! Lengi mjög og of höfumk vér í lendum vorum þröngvum og dvalist við rýran stí orðs. Látumk oss nú bryngvast, og taka upp eggvopn hvöss og æsileg, og þremja til hernaðar!). Var það um og mál gása þeirra, er þar voru, að Hrímþrellir mælti lög, og því smiðu gásir allar sér brynjur allsvakalegar og eggvopn æsileg til stríðsæsinga, og gerðust gögl öll og gásir ger til stríðsæsinga og landvinninga. Við dögurð sjetta mánuðar var Gásahersið ferðbúið, eigi færra liðs en bakaratylft þúsunda, og þrammaði járnum hlaðið frá dalverpi sínu í Belgíu, vígreift með hefnda að efna gegn öðrum tvífætlingum jarðar.


Ah... það er gott fyrir geðheilsuna að hólfa af geðveikina og andleysið á prenti einu sinni og endranær...

En eins og vitur maður sagði, og það er lenska að hlýta vitrum mönnum,:

Early to bed, early to rise
the kitty doth crawl as the albatross flies.

laugardagur, mars 25, 2006

Ja-há.

Það hefir nú gerst, sem ég hefði aldrei fyrir mitt auma líf talið mögulegt, að ég hefi verið kjörinn Inspó. Ég sit hér brjósthýr að sumbllokum og íhuga þetta gríðarlega kvöld, og þessa gríðarlegu viku. Dagar þessarar viku hafa skriðið hjá sem hægt sem vikur, og ég var orðinn fulllúinn á þessum endalausu spekúléringum og vangaveltum um framboðsmál. Nú er kálið sopið og fasaninn matreiddur, engar frekari bollaleggingar í bili heldur vel þegið hlé frá þessum mikla atgangi sem framboðsmál eru. Þetta minnti um margt á tilfinninguna sem fylgdi því að vera kjörinn í quaestor, nema margfalt, margfalt magnaðri. Ég hefi ekki ennþá fullkomlega náð kringum hvað gerst hefir, en það kemur líklegast með tímanum. Stressið var svakalegt, og ekki munaði miklu að magasýrur mínar og lungnasmjer færu í lystisiglingu um andrúmsloftið, sessunautum mínum til lítillar huglyftingar, þegar sem mest lét.

Á morgun skal þó Júterpa dýrkuð á ný, og haldið í kórferð. Kórferðir eru með því skemmtilegasta sem maður kemur sér í, og því efni til mikillar tilhlökkunar... Nú eftir spennufallið finn ég til mikillar uppsafnaðrar þreytu eftir framboðsplöggsmálin. Ég mun nú gefast Nótt drottningu á vald og hvíla glaðar taugar höfgum lúr. Ég þakka þeim sem studdu mig í þessarri baráttu kærlega, sem og mótframbjóðendum mínum sem eru hinir mestu heiðursmenn...

Sæll, Morfeus.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Gettu betur

Þetta mun aðeins vera sagt einu sinni, og þá verður þetta málefni afgreitt af minni hálfu. Enda er best að vera bitur í sem stystan tíma:

Ó þú, dómaraafglapi! Megi Jób, Jab og Jeb siga hungruðum geitahjörðum sínum á þig.


Ég hefi mælt.
Að því sögðu eiga strákarnir í liðinu hrós skilið fyrir vasklega frammistöðu. En ég vil sjá fokking hljóðnemann heim á næsta ári, annars geri ég eitthvað kreisí.

Þá er næsta mál á dagskrá að rústa MorfÍs á morgun.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Ragnars Hallfreðssonar þáttur hrímskeggja

Hallfreður hét maður, bur Skinnfálknis hins fleyga og Freðdísar Alfreðsdóttur frostajarls. Gat hann bur með kvinnu sinni, Þrúðhéli hinni tindilfættu, og hét sá Ragnar. Snemma aldurs þótti Ragnar kappi mikill, og óx honum snemma skegg mikið. Þau bjuggu á Svalbarða hinum nyrðri, þar er oftast kallað er Norðurpóllinn. Ragnar stundaði það snemma aldurs að glíma við rostunga, ísbirni og stöku búrhveli sér til skemmtunar og aflsauka, en er hann var og tvítugvetra orðinn kvað hann til föður síns:

"Hyggv ég nú að höggva,
hálan ís, björn brjálan,
unnar faðmi að inna
æ skal hræ skapa
öldrum um aldur stytta
verða munk jarlinn herða."

Að því loknu greip hann ax sitt, hvalskinn og ísbjarnarlúffur, og vatt sér í bát nokkurn er nærri lá. Ragnar sigldi í vikur nokkrar áður en hann land nam við Reykjavíkurhöfn. Varhuga skimaði hann um með ax sitt gríðarstórt á lofti og hnusaði. Fennt hafði um nokkurra daga skeið, og blindhríð var á götum úti. Er Ragnar hafði gengið stuttan spöl kom aðvífandi skrýmsl gríðarstórt og gult, sem úr járni gjörvt, og rann það á hjólum fernum. Svá virtist Ragnari einnig að skrýmsl þetta hefði allnokkur ungmenni gleypt í belg sér, og ákvað því að sýna hetjulund. Ragnar brá axi sínu af heift og leikni, og tók járnskrýmslið í sundur við miðju. Eldur mikill kviknaði úr innviðum andlits skrýmslisins, og hljóp þá Ragnar á brautu, skelfdur nokk við þennan mannætujárndreka. Móður og másandi rann hann að myndarlegu húsi á hól, það er honum sýndist hvað næst vera rökréttu í þessu brjálsama umhverfi. Gekk hann þegar inn, en vissi ekki hvað beið hans þar...

Ragnar var kominn í Menntaskólann í Reykjavík. Hvernig tekst Ragnari að koma fótunum fyrir sig í Skólanum? Lærir hann að diffra? Lærir hann latneskar sagnbeygingar? Fylgist með.
(n.b. ef þetta er eins mikið rusl og mér sýnist það vera mun ég tafarlaust hætta þessu eipi og skrifa eitthvað að viti.)

mánudagur, febrúar 06, 2006

Orto bai souzoushii desu.

Já, eins og segir í fyrirsögninni eru bifhjól oft hávaðasöm. En dregur síst úr ágæti hinnar nýútgefnu myndar undan verndarvæng Stevens Spielbergs, Memoirs of a Geisha. Téður er nýkominn af henni og er vel heillaður, vafalaust besta mynd sem ég hef séð í ár. Japan er ótrúlega heillandi land, og hefur sú löngun gerjast og ágerst í mér um nokkurt skeið að ferðast þangað eða læra þar sitthvað nýtilegt einn daginn. Þó munu vindar örlaganna ákveða hvurt þeir blása mér, og skal ekki tíðrætt um þess lags vindbelging hér. Vindar örlaganna eru ágætlega þefjandi um þessar mundir, ekki það að ég sé manna fróðastur um það, verandi lyktarskynslaus með öllu. Gaman í skólanum sem og í Skólafélaginu, og nú þegar þjónustuári mínu fer að ljúka hugsar maður hlýjum hug til allra þeirra óteljandi klukkustunda sem fóru í starfið. Margt rugl var framið, margt biskupsefnið barið með kúskaranum og mikið að gamni gjörvt, en þannig er það líklega með allar almennilegar stjórnir. Mæli með þessu fyrir áhugasama.

Ég ætla ekki að pynta lesendur með frekara þvargi í bili, en mun líklega þremja eina geðveila smásögu bráðum, eins og mér einum er tamt.

Zou o kaozeru, sumimasen.
(Mér þykir það leitt, en færni minni við fílatalningu er ábatavant.)
Svona er japanskan stuttorð og skemmtileg, nicht war?

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Benjar

Era þremjar
þramar Braga
auðlifaðar,
illa kröm
of hrör sækja
viðris að lúðum
vingulstalli.

Segir allt sem segja þarf um áþján námsmannsins.

mánudagur, janúar 23, 2006

Strengjafræði

Strengjafræði er afskaplega merkileg pæling þegar kafað er í merkingu hennar. Það skal ég hinsvegar ekki gera hér, þar sem sumir lesendur gætu orðið hvumsa af umræðum um 26-víð rúm sem bósónustrengir sveiflast í, eða fegurð þess hvernig strengjakenningin gæti loks tengt saman óreiðukenndan heim skammtafræðinnar og yfirvegaðan heim almennu afstæðiskenningarinnar. Í kvöld horfði ég nefnilega á mjög skemmtilega heimildarmynd með nokkrum samnörðum mínum í 6.X auk eins eðlisfræðikennara. Myndin var að sjálfsögðu hönnuð fyrir bandarískan áhorfendahóp, og því horfðum við oft lengi í einu á þáttinn á tvöföldum hraða (með fast-forward, án gríns). Sérstaklega var fyndið þegar háfleygum pælingum um 5-vítt rúm rafsegulsveiflna var breytt í brauðhleif, sem og þegar þyngdaraflinu var líkt við kanilsykur og sterka kjarnakraftinum líkt við sultu.

Ef menn eru alger bavíön skulu þeir endilega missa af fyrirlestri Lárusar Thorlaciusar í hátíðarsalnum á morgun kl. 8. Ef menn telja sig ekki vera bavíön skulu þeir ekki missa af þessu frábæra framtaki Vísindafélagsins og vera á staðnum. Ég vil líka benda áhugasömum á, að góð hugmynd væri að lesa sér til um efnið áður en þeir mæta á staðinn, svo við forðumst hjákátlegar spurningar um vensl latneskra sagnmynda við alheimssálina (feis).

Be there or be square.

Tilvitnun dagsins:
"If we can't be free, at least we can be cheap"
-Frank Zappa

mánudagur, janúar 09, 2006

Um vetrar miðja nótt

Helgin hefur verið frábær, fór á tvenna magnaða tónleika. Þeir fyrri voru mótmælatónleikar náttúruverndarsinna í Höllinni, þeir seinni voru með Tallis scholars í Langholtskirkju í kvöld. Ég nenni ekki að tala um tónleikana í Höllinni. Ég set það fargan á þig, Þorsteinn, þar sem við fórum saman á þá. En já, ensku söngspírurnar spíruðu af áfergju í rafmögnuðu andrúmslofti. Þessi tónlist er nokkuð frábrugðin því sem maður á að venjast; margar raddir (stundum sjö) syngja yfir og undir og framhjá hvorri annarri í mikilli og tærri hljómkviðu. Það er alltaf gaman að heyra svona góða söngvara, enda eru enskir sönghópar víst þekktir fyrir að syngja hreint. Athygli vakti textinn við sumt af tónlistinni. Þar var ekki skafið utan af því með málalengingum né úrdrætti. Þetta fór eitthvað á þessa leið:

Ó, þú dýrðsamlegi dróttinn í upphæðum
aumkv þér yfir hjákátlegu sköpunarverki þínu
megið þér þvá af mér saurigar syndir mínar
með löngum bursta og klút fyrir nefið.
Ó, þú guðs lamb kristur, þú sem skekur ax þitt,
þér falla hvorki brennifórnir né alfórnir,
þér sem sullið heilahrati hinna heiðnu gregárslega
og krýnið lífið allt með miskunn þinni,
...

"O, lord in heaven. Thou who art so big, so absolutely huge. Well, I can tell you, we're all pretty impressed down here."

Með þessum fleygu orðum Johns Cleese bið ég góða nótt með frómum róm.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Yule in Thule II

Frábær jól. Fjölskyldan hélt upp á aðfangadagskveld í hjalli mínum á Laugarásnum, og það uppáhald gekk vonum framar. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið beztu jól í mörg ár hjá oss. Nú skorti mig á jóladag bók til aflestrar, þar sem mér leist ekki á krimmann sem ég fékk frá ömmu. Ég fylli ekki næturgagnið svo gjörla yfir krimmum, svo mikið er víst. Þá datt mér sú öldungishugmynd í hug að lesa "The Da Vinci Code", þar sem mér hefur einum manna á Íslandi tekist að lesa hana ekki hingað til. En svá bregðast krosstré sem önnur tré. Er reyndar ekki kominn langt í henni, en hún lofar góðu. Á morgun er svo.... nöh! Jób sé oss næstur. Klukkan er orðin margt, og svefnfrygðin ágerist. Meira síðar!

þriðjudagur, desember 20, 2005

Í fréttum

Ég las fyrirsögn á Fréttablaðinu sem hlægði mig svo um munaði.

"Dr. Sýkill er frjáls ferða sinna"

Ég nennti nú ekki að lesa fréttina, en ég get frá fyrirsögninni giskað á innihald hennar.

"Dr. Sýkill er frjáls ferða sinna.

Hinn illræmdi snillingur og David Bowie-aðdáandi Dr. Sýkill flúði úr prísund sinni á Svalbarða á baki tamda rostungsins Viggó síðdegis í gær. Aðspurður taldi Uffe Bjeff, sérfræðingur í alþjóðlegum hryðjuverkum og rostungum, að Dr. Sýkill gæti nú þegar verið kominn í leynipýramída sinn í Aserbaijan. Hann sagði líklegt að Dr. Sýkill mundi nú á ný sameina krafta sína Þríhyrningsmanninum og Mannlega Sæbjúganu. Dr. Sýkill hefur áður spreytt sig á sviði heimsyfirráðatilrauna. Hinn vestræni heimur var á barmi tortímingar síðastliðið haust þegar Dr. Sýkill jók gífurlega framboð á frosnum jarðaberjum, en þá voru áætlanir hans stöðvaðar af Undra-Höfrunginum og aðstoðarmanni hans, Bill Clinton. Óvíst er hver mun bjarga málunum í þetta sinnið, þar sem Undra-Höfrungurinn rekur nú útibú Saab í Argentínu, og Bill Clinton hefur ekki tekist að kenna öðrum höfrungi að fljúga, né að spýja orkugeislum.

Reuters AP"

Heimur versnandi fer.