mánudagur, október 31, 2005

Speyti-Mbotos þáttur blámanns hinn síðari

Svá var það, að einni náttu eftir átveislu þá gríðarlegu er viðhöfð var úr búk Eggbélnis, að árla morguns, þó fyrir dögurð, en þó eftir sólrisu, en þó ekki svá mjög löngu fyrir dögurð, að gríðarleg hjörð Gór-Trylla þundraði í átt að þorpi Speyti-Mbotos. Merkti Mboto það snöggvt, og stökk á bak Fagra-Grá með spjöt allmörg í farteskinu. Þá gaurg Speyti-Mboto til Fagra-Grás: "Búbblíbíírdídí-úkk. Aíí!" (innskot þýðanda: á Kawamba-buhd-buhd-powalöbsku þýðir þetta: "Nú er lag, frómi vin! Nú skal spjótsgeirinn í spalir ok skarpt speyta! Ríðum, ríðum og rekum yfir sandinn!")
Það var sem við Fílinn mælt að hann stökk sem mús á fjórfættu stökki því, er aðeins færustu fílsknapar fá náð. Upphófst þá þröm mikil, og féllu Gór-Tryllin í hrönnum fyrir speytingum Mbotos, sem ýmist lagði til þeirra eða skaut. Tók eitt Gór-Tryllið upp grettistak allsvakalegt og orp því að Mboto af nákvæmni og afli. Mboto merkti það og lét Fagra-Grá stökkva þrefalda hæð sína í loft upp, svo bjargið hneit fyrir bringuspalir Gór-Tryllis eins er þar fyrir aftan stóð svo sundur tók búkinn. Svá stefndi Mboto fíl sínum í loftinu þannig að hann lenti á höfði Gór-Tryllis þess er bjarginu varpað hefði (hafa skal í huga að Gór-Tryllið er sjö sinnum stærra en fíllinn). Lagði hann spjóti í höfuð óargadýrsins svo út tók um kjálkann. Hratt þar út blóð allmikið og lést dýrið samstundis. Stökk þá fíllinn af skrýmslinu, og var Mboto ófeigur. Stundum tveim síðar hafði hann vegið sex tygi Gór-Trylla einn síns liðs með kókoshnetum, brenndum akasíuspjótum og Orrustufíl. Uppskar hann og mikið lof fyrir þetta, og át mikið, og varð sæll, og ölvaður nokkuð er hann svalg lifrarmjöð Gór-Tryllisins, en hann þykir hið mesta lostdrykki meðal vínsmakkara.

Þó er hetjudáðum Speyti-Mbotos á engan veg fullýs hér, kannske verður sagt frá viðureign hans við Sebrakrókódrekann ógurlega, eða hetjudáðum hans gegnt brynvörðum sænskum Flug-Elgjum.

Nóg í bili, meira kemur eftir eftispurn. Sem er líklega engin, þegar út í það er farið.

fimmtudagur, október 27, 2005

Speyti-Mbotos þáttur blámanns

Kwamba hét maðr. Hann var bur Siwale hins digra og hét móðir hans Kwa'bahawatb hin fríða, faðir hennar var Mannáts-Bahawatbib, sá er hafði öðlast frægð og mikinn drengskap, og mikið lof, og allmikla vömb, þar er hann át Khtbathb-ættbálkinn í heilu lagi á sokkabandsárum sínum.

Kwamba kvæntist Sigfríði Hilmarsdóttur hölds, en varði sambúð þeirra eigi lengur en vetur einn. Fór þá Kwamba utan frá Hrútafirði til heimanlands síns, á sléttum Kawamba-buhd-buhd-powalabab, þar er nú nefnist Zwaziland, með bur sinn. Bur hans var nefndur Mboto, og þótti hann strax í æsku sinni fremstur manna í öllu atgervi. Var hann sundmaður góður, sprettharður, hlaupari góður og léttfættur þá er hann hratt þurfti yfir að fara. Var það og mál manna að Mboto væri hlaupari allgóður. En sú var list Mbotos megnst að hann gat spjóti varpað þúsund faðma án áreynslu, og var því nefndur Speyti-Mboto. Nýttist þetta ættbálki Mbotos vel.

Dag einn, er Speyti-Mboto gekk til fílaveiða, sóttist að honum mannýg tröll-górilla. Var óvætturinn þrír tygir faðma á hæð. Slík voru ferlíki til í þá tíð, er váru afsprengi górilluapa og trölls. Einnig fundust þar afsprengi simpansa og trölla, en þóttu þau eigi svá ógnvænleg. Lét skrýmsl þetta illum látum flestum, ef ekki öllum, og gaurg (garga í þt., forn mynd) að Mboto: "...Auurgh! Ug!!... Öhh!". Speyti-Mboto skildi tryllsku, svá og Górill-Tryllskar mállýskur allar, og skildi því mál skrýmslsins: "Ungi maður! Hafið þér eigi numið hina eðlu list kurteisinnar? Hvers skulumk vér gjalta, að vér þolum þér ósvífurni yðvarra á lendum vórum? Mér er það skapi næst, að ég eti þig nú!"

Eigi hafði skrýmslið sleppt gargi sínu er það lagði til Mbotos loppu allmikilli, rúman faðm í þvermál. Mboto vék sér undan og speytti skrýmslið með spjóti sínu, og hneit það í kok því ofan, svo í gegn tók botninn. Féll skrýmslið samstundis.

Er Speyti-Mboto, fyrir tilstilli góða fílsins, hvern hann þekkti ágætlega, og var honum vel kunnugur, og Fagri-grár hét, dró hræ Gór-tryllunnar að bæjardyrum höfðingja þorps síns af kostgæfni og föðurlandsást, uppskar hann og mikinn fagnað.

Þó var Yggwa hinn djúpspaki, andalæknir þorpsins, hvumsa á svip og allskelkaður. Hváði hann nauðsyn þess, að fella dýrið. Sagði hann Gór-tryllið heita Eggbélni hinn fláráða, mikils metið og vinsælt Gór-trylli í Gór-trylla hópi. Óttaðist hann, að frændur Eggbélnis myndu hefndum fram ná vilja innan skamms...

Framhald síðar!

sunnudagur, október 23, 2005

Engrish

Ah.. fátt er fyndnara en þegar Japanir sem eru lélegir í ensku spreyta sig á næstástkærasta, næstylhýrasta málinu. Fjöldamörg dæmi eru um þetta..



Hahaha!

Hohoho!



Úff! Þetta er bara of fyndið, segi ég. En núna krefst stærðfræðigyðjan ástar minnar. Góða nótt.

föstudagur, október 21, 2005

Einar Finnsson

Í kvöld uppgötvaði ég hlut sem hryggir mig gífurlega, er ég las bloggsíðu vinar míns. Ég hef misst samband við besta vin minn, og það sökkar. Til útskýringar máls míns skal ég segja frá Einari, miklum heiðursmanni.

Ég kynntist Einari í fyrsta bekk í grunnskóla, og það mætti með sönnu segja að við hefðum verið eins og samlokur allan grunnskólann. Á hverjum degi fórum við saman heim og lékum okkur, spiluðum tölvuleiki og töluðum um allt milli himins og jarðar. Þó svo við værum um margt fáránlega ólíkir voru vináttubönd okkar þau traustustu sem ég man, og líklegast þekkir enginn maður mig betur en hann, sem og öfugt.

Það sem á milli kom var breyting í mér, já, ég tek sökina alfarið á mig. Þegar líða tók á tíunda bekk óx innan með mér þörfin fyrir að kynnast fólki, sökkva mér ofan í tónlist og vera í félagslífinu. Þegar við fórum svo saman í MR komu fram jafnvel meiri öfgar í þessu. Við Einar, Kolli og ég vorum einu strákarnir úr Austó sem fórum í MR. Einar og Kolli höfðu takmarkaðan áhuga á félagslífinu, sem er fullkomlega réttmæt afstaða í sjálfu sér, en ég ekki. Mig langaði að þekkja og þekkjast fólki í þessum skóla, fólki sem heillaði mig frá upphafi.

Ekki þarf lengi að segja frá því, að ég sökkti mér af fullum ofsa í félagslífið, kynntist þeim sem ég vildi kynnast og varð sáttari með líf mitt því meira sem ég stundaði það. Við Einar áttum nokkra sameiginlega vini, þar af tvo höfðingja, þá Darra og Þossa, en þeir höfðu verið með okkur í 3. G, en þó urðu vinahópar okkar óhjákvæmilega mjög ólíkir. Að sjálfsögðu þroskaðist Einar í eigin áttir, eins og allir menn gera. Mér til sorgmæðu uppgötvaði ég að hann þarfnaðist félagsskapar míns ekki lengur. Þó höfum við haldið vinskapnum eins og hægt er, en eitthvað hefur breyst á mikilvægan máta, og er því verr.
Mér finnst eins og ég hafi misst besta vin minn. Vittu það Einar, að ég elska þig sem bróðir, og mun alltaf. Ég vona bara að þú sért sammála mér.

Ég sé ekki eftir þeirri leið sem ég hef valið mér í lífinu, en ég sé eftir þér, kæri vinur.

laugardagur, október 15, 2005

Vits er þörf, þeim er víða ratar.

  1. Sá einn veit
    er víða ratar
    og hefir fjöld um farið
    hverju geði
    stýrir gumna hver,
    sá er vitandi er vits.
Verður maður ekki að bukka sig fyrir fornri visku? Jú, það verður maður nefnilega að gera, því ekki mun vera vitnað í Dr. Phil eftir níu hundruð ár. Sönn en óþægilega hreinskilin skilaboð Hávamála eru eitthvað sem allir kjarngóðir Íslendingar ættu að taka til sín.

Gaman nýlega, mikið sofið. Hvíldar var þörf, þeim er hvatki út fleppaði. Gott skemmterí í kvöld, hélt frábært partí sem þurfti reyndar að rýma fullsnemma sökum args nágranna. Já, Guðný, far þú í fúlan pytt! Í fúlan pytt segi ég. En þó lést mér bugur öngvur af því, sem endranær, og sótti ég sumbl (áfengisfrítt hjá mér, að vana) með valinkunnum heiðurstöppum niðri í bæ. Sem verður oft súrt epli, en ekki í þetta skiptið, onei.

Jæja, nú rís sólin bráðum. Ástralir koma heim úr vinnunni.

Nú hefur síðasta ófleyga setning þessa pistils baðað út vængjum sínum, stýfðum af klénheitum og slyddulegum talmálsstíl. En hlutir sem baða út stýfðum vængjum í von um flug eiga það einmitt til að hrapa og verða að blóðugri klessu fiðurs og líffæra á sléttum gleymskunnar. Sem er vonandi.

Góða nótt.

fimmtudagur, október 13, 2005

Lognið á eftir storminum

Úff! Úff. Úff!

Vá hvað ég hef haft allt of mikið að gera síðustu tvær vikur! Ég er ekki búinn að hafa tíma fyrir kristilegan nætursvefn í fleiri daga, og er í náttgalsa ævi minnar.

Á síðustu dögum hef ég:

-Borðað gráðaost í beinni
-Handfjatlað um tvær milljónir reiðufjár
-Sofið.. nei, reyndar frekar lítið af því
-Vegið dreka allmarga, sama og venjulega
-Drukkið tylftir lítra af gosi
-Ekki farið í sturtu mjög lengi
-Ekki haft tíma til að umgangast vini mína, en römm er sú taug og seint mun slitna
-Reitt skegg mitt í stressi og álagi. Ágálgi!

Nú lít ég til langþráðs svefns með löngunaraugum... smá svefn í haus er nauðsynlegur til að halda geðheilsunni, sem var jú af skornum skammti til að byrja með.

Menn vikunnar eru:

Aríel, fyrir að lána okkur tölvuna sína og selja miða með okkur af einskærri göfgi
Haukur Homm, fyrir að vera ótrúlega frábær gaur, og að róa mig niður í mesta stressinu
Restin af stjórninni, þau eru æðigæði.
Frimmi og Bjöggi, þyngdar sinnar virði í rauðagulli! Topppelar þar á ferðinni.
Og allir hinir.

Þetta var ein hefðbundnasta færsla hér í langan tíma. En örvæntið ei! Fleppstuðull mun verða í réttu hlutfalli við hressleika.

Góða nótt, og vá, ég hef aldrei meinað það eins mikið og nú. Góða nótt.

föstudagur, október 07, 2005

Hann-Mann

He-Man er yndislegur ljósdepill í menningarsögunni. Ég hef ákveðið að skrifa sögu um þennan vanmetna snilling.

Adam hét maður, bur Randvers og Márlindu. Þá er Adam þramdi bölverk Beinmunds á bak aftur var afl hans svá mikið, að enginn maður gangandi né skríðandi, né sitjandi í stól eða á steini, eða standandi, hvorki á steini né á öðrum fleti, var honum jafneflingur. Svá mikill var máttur Adams, að hann var nefndur Hann-Mann. Einn dag gekk Hann-Mann til hellisdyngju sinnar til sváfu. Þá merkti Hann-Mann grís nokkurn, er mælti til hans. Svá var þessauki gáfa Hans-Manns að skilja mæli villtra dýra, sem og alidýra, sem og annarra dýra sem hvorki teljast villt né alin. Grísinn mælti: "heill þér, Hann-Mann. Glundræði er í heimanbæ mínum! Kónar Beinmundar hafa hneppt grísi mína í þrældóm. Næst þykir mér, að þú skulir til hólms arka."
Ekki hafði grísinn fyrr orði sínu sleppt þegar Hann-Mann greip um hjöltu sverðs síns, er Gráskalli hét. Þá lyfti hann sverði sínu til himins og gargaði allgífurlega: VIÐ MÁTT GRÁSKALLA! MINN ER MÁTTURINN! Kattlingur Hans-Manns, hver hafði hvílst á steini nokkrum varð grænn á hörund og trölljókst í stærð, auk þess þaktist hann brynplötum allsvakalegum, sem og gat hann varpað leisergeislum um augntóftir sínar. Mælti þá Hann-Mann: "kom þú, Þrumu-Kisi. Látum oss þremja Beinmundi alla þröm þá, er ek þramið fæ." Hann-Mann sté á bak Þrumu-Kisa, og geystust þeir út í sólsetrið á slíkum hraða, að hross hefðu ekki við þeim, þó fimm tygir hlypu saman.

meira síðar, sofa núna.

mánudagur, október 03, 2005

Varðandi klukk

Þossi klukkaði mig. Því er ég skyldur til að segja frá fimm hlutum sem fáir vita um mig.

1. Ég fæddist rauðhærður með krullur. Sömuleiðis pabbi, hann var líka ljóshærður á unglingsárum og er núna alveg dökkhærður.

2. Á hnakka mínum er einskonar dúnn, og hefur þar verið síðan ég var örlítið mannakorn. Dúnninn líkist hári, en er þó ærið ljósari og mýkri.

3. Ég bjó eitt sinn í Bandaríkjunum í eitt ár. Það var afar gott ár, góður skóli. Samt, ótrúlega furðulegt samfélag. Þar lærði ég ensku af Spædermann í sjónvarpinu á 3 vikum. Neyðin kennir mállausum dreng að tala, segi ég.

4. Í móðurætt minni voru við fæðingu mína tveir Þórarnar fyrir. Því var ákveðið að ég skyldi ekki vera kallaður Tóti II. hinn yngri, heldur Doddi. Það nafn hefur algerlega grætt sig við mig. Margir hágæðabrandarar hafa sprottið út frá nafni mínu, svo sem Doddi koddi= Þórarinn svæfill, Doddi, doddi á rauða-gula bílnum glaður fer (haha! hann heitir nefnilega líka Doddi ,hahaha!).

5. Frá barnsaldri hef ég lifað og hrærst í ævintýraheim hugskota minna. Ein afleiðing þessa er sú að ég var afar afkastamikill teiknimyndasöguhöfundur á efri árum grunnskólagöngu minnar. Margar teiknimyndasagnanna uppskáru miklar vinsældir meðal árgangsfélaga minna, og helst þeirra var Goðsögn Kindarmannsins. Eftir útgáfu hennar, auk framkomu í búningi bóndans Vall-Sturlu á grímuballi, var ég nefndur Doddi kind. Þetta viðurnefni hefur svo haldið sér til dagsins í dag.

Næstur í klukkunarröðinni er Kári! Og Kristján! Haha! Ég veit að það er bannað að klukka tvo í einu, en ég er villtur.

sunnudagur, október 02, 2005

Comedian Harmonists: sendir að ofan!

Ég vil vekja athygli lesenda á hinni vægast sagt ótrúlegu sönggrúppu Comedian Harmonists. Um er að ræða þýzkan sextett, þ.e.a.s. einn píanista sem útsetur líka, og fimm söngvara, tvo tenóra (annan hærri), tvo barítóna og einn bassa. Sveitin var upp á sitt besta á 3. og 4. áratug 20. aldarinnar, og var ferill þeirra nær gullinn frá byrjun. Þeim sem vilja fræðast meira um þá bendi ég á

  • þetta.


  • Þeir eru alveg yndislegir, þessir pelar. Ef þú ert einhver sem ég þekki máttu endilega fá tvo feita safndiska með þeim lánaða hjá mér hvenær sem er. Breiðum út boðskapinn!

    Það var líklegast ekki fyrr en ég hlustaði á þá að ég fattaði hve undurfagurt tungumál þýzkan er...

    Annars gott að frétta. Sit hér um miðja nótt eftir góða spretti í afmæli Steindórs Grétars. Á morgun skal þó gjalda fyrir leti dagsins í dag. Fyrir hverja synd bíður hegning! Stærðfræði! Njála! Beittar spýtur! Ég skelf nú þegar.

    Check thineself before thou wreckest thyself, dude.