þriðjudagur, apríl 26, 2005

Sauðkindin- bjargvættur Íslands

Ég hef upp á síðkastið tekið eftir hnignandi lotningu Íslendinga fyrir Kórónu Sköpunarverksins. Téð Kóróna er auðvitað Hin Íslenzka Sauðkind, eins og sérhvert mannsbarn sem ekki telst andlegur próletari ætti að vita.

Gæti svo verið, ég spyr og gerist afar frakkur í ósvífni minni, gæti svo mögulega verið að Íslendingar viti ekki hve yfirskilvitlegur máttur Sauðkindarinnar er? Ég beiðizt forláts ef yður finnst ég með þessarri spurningu vega að vitsmunum ykkar.

Hin Íslenzka Sauðkind er hin mikla Alheimsfrummynd sem Plató gat aldrei kynnst. Höfug og göfug, stillt og tryllt, loðin sem soðin. Erfitt er að koma orðum að magnþjeppni Sauðkindarinnar, svo óhlutlæg og yfirgripsmikil er hún, að hún öðlast einungis merkingu á kosmískum skala.

Vitið það hérmeð, vanþakkmáttugu Íslendingar, að sú náð sem yður er auðsýnd af náttúru og mönnum er úr einni uppsprettu uppsprottin. Sú uppspretta er velþóknun Sauðkindarinnar.

Íslenzka sauðféð nú á dögum er beinn afkomandi dýranna, sem landnámsmenn fluttu með sér til landsins á 9. og 10. öld. Það er komið af evrópsku stuttdindilskyni og m.a. skylt kynjunum Finnsheep, Romanov, Shetland, Spelsau og sænska sveitakyninu. Allar þessar tegundir eru komnar af evrópska stuttdindinlskyninu, sem var ríkjandi í Skandinavíu og á Bretlandseyjum á 8. og 9. öld. Stærstar þessara tegunda eru íslenzka- og romanovkynið, sem eru bæði flokkuð undir meðalstærð.
Fáar tilraunir hafa verið gerðar til að kynbæta íslenzka kynið í aldanna rás Þessar fáu tilraunir, sem voru gerðar, enduðu með ósköpum. Reynslunni ríkari lóguðu ræktendur öllum kynbættum dýrum og þar með var komið í veg fyrir frekari blóðblöndun. Nú er óheimilt að flytja sauðfé til landsins. Bændur hafa síðan beint ræktuninni að innbyrðis kynbótum og orðið vel ágengt. Erfðafræðilega er nútímasauðféð hið sama og það var í upphafi. Líklega er það elzta og hreinræktaðasta sauðfjártegund í heiminum.

Íslenzka ærin er meðalstór og vegur 68-73 kg. Hrúturinn vegur 91-100 kg. Sauðféð er tiltölulega smábeinótt með snöggan haus, fætur og júgur. Bæði kynin eru annaðhvort hyrnd eða kollótt en flest fé er hyrnt. Féð er ekki hátt á herðakamb en breiðvaxið og vel byggt til kjötframleiðslu. Ærnar verða frjóar frá fyrri hluta nóvember til aprílloka. Hrútarnir gefa frá sér sérstaka lykt frá byrjun október, sem hefur hvetjandi áhrif á ærnar, og þeir halda því áfram allan fengitímann. Þessi lykt hefur áhrif á bragð kjötsins, ef þeim er slátrað á fengitímanum. Getnaðartíðnin er 170-180% að meðaltali en hægt er að auka hana með vali. Ær geta orðið kynþrosta ársgamlar og hrútar u.þ.b sjö mánaða. Lífslíkur heilbrigðs fjár eru langar. Ærnar geta fengið til 12-14 ára aldurs. Ullin er í tveimur lögum og náttúrulitir eru margir, þótt hinn hvíti sé algengastur.

Nýlega var frjósemishvetjandi gen uppgötvað í íslenzka sauðfénu. Það er kallað Þoka eftir ærinni Þoku, sem fæddist að Smyrlabjörgum 1950 og talin er hafa komið með það í heiminn. Þessu geni svipar líklega til sambærilegs gens í Booroola Merino-sauðfénu. Vísindamenn hafa greint merkjanlegan mun á egglosi genberanna og áa, sem hafa ekki genið. Að meðaltali var eggjatíðni genlausra áa 1,59-2,2 en genberanna 2,14-3,4, sem er verulegur, tölfræðilegur munur. Algengast er að sjá tvílembdar ær og stundum verða þær þrí- eða fjórlembdar.

Skapgerð og eðli. Íslenzka sauðféð er rólegt og viðráðanlegt. Það er samt fjörugt og spretthart. Flest er það sjálfstætt og skortir hjarðtilfinningu. Það dreifir sér um hagann og nýtir hann því vel. Það étur fjölbreyttan jarðargróður. Ærnar hugsa vel um lömbin og mjólka vel, enda voru þær mjólkaðar í kvíum öldum saman, allt fram undir miðja 20. öldina. Innbyrðis átök eru algeng og sumir einstaklingar taka sér forystuhlutverk. Hegðun íslenzka fjárins er oft líkt við villifé eða fyrstu dýrin, sem maðurinn tók í þjónustu sína. Sumt fé er taugaóstyrkt en er tiltölulega fljótt að aðlagast aðstæðum og hænast að smölum. Stórir og hyrndir forystuhrútar geta verið hættulegir.

Ullarframleiðsla. Íslenzka sauðféð er þekktast fyrir ullargæði sín, þótt verðmæti hennar skipti ekki nema u.þ.b. 15% af heildarverðgildi skrokks. Lagðurinn er í tveimur lögum líkt og meðal frumstæðari tegunda. Hið innra er fínna og kallað þel en hið ytra, tog, er lengra og grófara. Lagðurinn er opinn og tiltölulega fitulítill og vegur 1,9-2,3 kg. Vegna þess hve reyfið er opið, margbreytilegt og oft litríkt, lendir það oft á sérmörkuðum, þar sem það er selt til handiðnaðar. Þelið er dúnmjúkt, gljáandi og fjaðrandi.


Fimmta landvættin, krakkar mínir.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Pie Jesu domine, dona eis requiem.

Þegar þetta blogg var blyggt (sögnin að blogga í þt.) var höfundur nýkominn af vortónleikum MR kórsins. Þangbrandr syngur í kórnum, og er bassi. Voru bæði kórmeðlimir og meðnjótendur hæstánægðir með tónleikana, og voru þeir vel heppnaðr, enn betur heppnaðr en Þangbrandr hafði búizt við fyrirfram.

Það er fá tilfinningin yndislegri en að syngja í kór, sérstaklega vel æfðum og upphituðum. Prýðisgóð leið til að slaufa skólaárinu, ef þér spyrjið mig.

Skjótt hefur veður í lopti skipast síðan síðasta blogg var blyggt. Ekki bara dó Páfinn, heldur var nýr kosinn líka. Joseph "malleus maximus" Ratzinger varð fyrir valinu, og treysti ég honum vel til að formæla samkynhneigðum, vinstrimönnum, vísindamönnum, (svo ekki sé talað um samkynhneigða og vinstrisinnaða vísindamenn) og öðrum rumpulýð hjákátlegra andlegra eftirlegusauða. Varið ykkur trúleysingjar, því HAMARINN KEMUR!

Muhaha... En sé öllu gríni sleppt óttast ég, kristinn maður, að svo íhaldssamur Páfi muni ekki hjálpa kristninni til langs tíma litið...

Sofa. Á morgun er dimissio, sofa núna já.

laugardagur, apríl 09, 2005

Ja, nú dámar mér

Gærdagurinn var afar skemmtilegur. Eftir skóla synti Þangbrandr kílómetr í Kópavogslauginni, hlaupaeinkunn sinni til upplyftingar. Seinna er sólin lagðizt til hvílu í rekkju nætur ók ég á strætó upp í Loftkastala. Þar var mikið um spennu, og seinna gleði. Hiklaust má segja að Þangbrandr hafi skolfið sem hrísla í lakkskónum áður en sigurvegararnir voru tilkynntir. Þó fór allt vel, og stórskemmtilegt teboð var haldið seinna nætr.

Ég vil þakka öllum sem kusu mig kærlega fyrir, því það sem skiptir máli á endanum er að eiga gott fólk að. Ek elska ykkr öll. Megið þið lengi lifa, kæru vinir, og njóta félagslífs næsta árs út í yztu æsar!

Auk þess vil ég óska Kidda til hamingju með MT, Jonna til hamingju með Selsnefnd og Höllu til hamingju með Zéra. Og Fannar, ég vissi að þú gætir þetta!

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Pereat!

Fyrr í dag hélt stór hópr framhaldsskólanema mótmæli á Austrvelli við Alþingishúsið. Voru nemarnir fýldir mjög yfir skeytingarleysi og fasisma yfirvalda, sem skellt höfðu skollaeyrum við mótmælum þeirra gegn styttingu náms til stúdentsprófs. Réttlætisþorsta ungmennanna var ekki svalað af stjórnvöldum. Þorgerði Katrínu var óskað tortímingar af yggldum ungmennum. Þegar fullljóst var talið að enginn samningsvilji væri bakvið bæjardyr Alþingis ákváðu nemar að taka til sinna ráða. Lengi höfðu MRingar spáð komu þessa tíma, og fyrir tæpum hundrað árum gerði hinn leynilegi herarmur Framtíðarinnar, "bronzprétórarnir" þá ráðstöfun að smíða ofgnótt langspjóta að forn-grísk/makedónskum sið, og fela þau gaumgæfilega í leynilegri neðanjarðarhvelfingu undir Íþöku. Sitjandi forseti Framtíðarinnar sótti vígbúnaðinn með fulltingi MRinga. Þeir vígbjuggust og mynduðu falanx að forn-grískum/makedónskum sið, og fylktu liði að Alþingishúsinu. Lögreglu reyndist erfitt að stöðva herinn, enda einungis vopnaðir kylfum, hverjar duga skammt gegn bronzdörrum í breiðfylkingu. Skjótlega höfðu MRingar umkringt Alþingishúsið og kröfðust inngöngu. Alþingismenn vörðust í fyrstu með heitu kaffi út um glugga, því næst sjóðandi vatni, og loks gripu þeir til þeir til þess ráðs að kasta pappírspressum og göturum á herdeildina, en allt fyrir bí. Felmtri slegnir byrgðu Alþingismenn MRingum inngöngu um fordyrið með þungum skrifborðum sínum, en MRingar leituðu ákaft inngönguleiðar. Þeir tóku loks til þess ráðs að byggja landgöngubrú frá þaki Dómkirkjunar að þaki Alþingishússins, hvar nokkrir útvalnir kappar skriðu niður um skorsteininn. Þingmennirnir voru handteknir án ofbeldis og læstir inni á klósetti. Menntaskólinn í Reykjavík tók nú alfarið að sér framkvæmda-, dóms-, og lögggjafavald Íslands. Steindór Grétar Jónsson var skipaður Forseti Íslands og Jón Bjarni Kristjánsson forsætisráðherra. Gunnar Hólmsteinn var skipaður fjármálaráðherra og Fannar Freyr Ívarsson Dómsmálaráðherra. Kristján Hrannar Pálsson var skipaður Menntamálaráðherra, sem og sérlegur píanóleikari Alþingis. Þórarinn Sigurðsson var skipaður klósettræstir hins Íslenzka Lýðveldis við lítinn fögnuð af hans hálfu. Samþykkt voru einróma á fyrsta þingi hinnar nýju ríkisstjórnar eftirfarandi frumvörp: Latína skal kennd í grunnskólum, og skulu kjör kennara miðast við þingmenn. Stjórnmálatengsl við Bandaríkin skulu rofin, og skal varnarliðinu gert að tæma herstöð sína öllum hergögnum og drattast heim til mömmu. Gular Hondur skulu alfarið vera bannaðar. Við löggæzlu tekur Róðrafélag Menntaskólans í Reykjavík, og skal það upphalda lögum og reglu á kostnað auðvaldsins.

Frekari fréttir verða tilkynntar er þær berast fréttastofu. Við minnum á Laugardagskvöld með Gísla Marteini, og þar eru gestirnir ekki af verri endanum. Halldór Ásgrímsson segir brandara og Davíð Oddsson leikur á þerimín.

aaaahhh....
Afsakið lélega færslu, en ég þurfti að koma þessu frá mér.
Misferskt mjöl í morknum poka.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Ljúf endurminning

Er ég las nýjustu færzlu hæstvirtrar Arngunnar Árnadóttur, hvar hún lýsti dásamlegri tónlistarlífsreynslu sem hún upplifði í Norræna húsinu. Þar léku Einar Jóhannesson, eða Einar Dreki eins og ég þekki hann (án gríns) á klarínett, og Philip Jenkins á píanó. Er ég las þetta minntist ég tónleika sem hrærðu í mínum dýpstu sálardjúpum um árið, og mér liggur of mikið á hjarta um téða tónleika til að þjappa máli mínu saman í neðanmálsathugasemd.

Karlakór St. Basilskirkjunnar í Moskvu hélt tónleika í Reykholti í lok ágúst 2004. Eitt er að sjá sjónvarpsupptöku af atburðinum, annað er að fá þessa ótrúlegu tónlist beint í æð. Ekki bara eru allir 13 söngvararnir hámenntaðir og hæfileikaríkir atvinnumenn, heldur syngja þeir með tilfinningu og dýpt sem ég hef aldrei séð hjá neinum Evrópumönnum. Kórinn söng bæði kirkjuleg lög og rússnesk þjóðlög. Þótti mér ótrúleiki tónlistarinnar rísa hvað hæst í "Kvöldklukkunum", gömlu rússnesku þjóðlagi. Þar söng einn tenóranna einsöng og hinir bakraddir. Hin slavenska raddbeiting er um allt frábrugðin hinni ítölsku eða ensku. Hvílík mýkt! Hvílík fegurð! Hvílík tilfinning! Bassarnir stóðu að sjálfsögðu fyrir sínu, silkimjúkir, fallegir og dýpri en undirstöður jarðarinnar. Svo kynngi magnað var andrúmsloftið að margir af tónelskari áheyrendum, og ég þar með talinn, felldu tár. Þegar ég steig út í sumaryl og blíðu eftir tónleikana fannst mér ég fullkomnaður maður.

Heilræði dagsins: sækið tónleika! Maður veit aldrei hvort maður fái í skamma stund snert guðdómleikann.

laugardagur, apríl 02, 2005

19. öldin

Í móðukenndu morgunsári hádegisins sat ég í köflóttum slopp og hlustaði á Ríkisútvarpið, eins og öllum eldriborgurum sæmir. Þar heyrði ég yndislega tónlist eins og endranær bjarmar úr hátölurum útvarpa sem útvarpa RÚV. Frábær karlakvartett, stundum með fulltingi sópransönggkonu, sungu íslensk dægurlög frá nítjándu öld (n.b.: þessi upptaka var líka frá seinni hluta 19. aldar til fyrri hluta 20. aldar). Hvílík heiðríkja hvíldi yfir öndum mannanna á þessum tíma! Ég hvarf á vit fortíðar sem ég hefi aldrei þekkt, öld sakleysis, þar sem ofstopafull neytendamenning hafði ekki kollverpt hinum sönnu lífsgildum! Í bókinni Veröld sem var, hverja afi minn Þórarinn Guðnason þýddi, var sett fram sú kenning að eftir heimsstyrjaldirnar hafi menningu vorri hrakað, og að hún hafi aldrei náð sér síðan. Sjálfur verð ég að viðurkenna að í bjarma þess tíma er nútíminn heldur harður og grár. Þó er ekki öll von úti! Oft hefur undirritaður upplifað rauðgullinn sálaryl frændskapar og lífsgleði, og það ekki síst á Menntaskólaárunum.
Teboð í kvöld. Slík samsæti bjóða ekki upp á fyrrnefdan sálaryl, en þó má skemmta sér á þeim. Kiddi átti afmæli á fimmtudaginn, og því má segja að þetta sé á ákveðinn hátt afmælisdjamm honum til heiðurs. Heill þér, Kiddi! Heill ykkur öllum, kæru vinir!