fimmtudagur, september 25, 2008

Tölfræði

Tölfræði er skemmtileg. Hún getur líka verið algert rugl. Hinn eiturhressi Nassim Nicholas Taleb tekur sér jafnan til skrifmatar oftraust manna á forspárgildi tölfræðinnar.

Ég las bók eftir hann fyrir tveim árum, „Fooled by randomness“. Mjög skemmtileg og mjög uppljómandi.

Taleb setur hér fram sprenghlægilega samlíkingu, en hún inniheldur líka skuggalega mikilvægt sannleikskorn í samhengi fjármálakrísunnar.



Myndin sýnir lífslíkur kalkúns. Hann er vel alinn, og því álykta vísindamenn með síaukinni tölfræðilegri vissu að eiganda hans sé annt um hann, enda fitnar hann og vex og verður sællegri með hverjum deginum... þangað til daginn fyrir aðfangadagskvöld, en þá eru lífslíkur hans öllu neikvæðari.

Á hinn bóginn sýnir þetta graf árlegar nettótekjur IndyMac, eins af stóru fjármálafyrirtækjunum vestanhafs:



Sérfræðingar ályktuðu, með sívaxandi tölfræðilegri vissu, að þetta fyrirtæki væri á góðri leið... þangað til það var ekki á góðri leið.

Að því sögðu er ég á líkinda-og-tölfræðilínu í stærðfræðinni. Á þessum síðustu og verstu tímum gæti maður réttilega efast um heppileika þess vals, en ég hef samt sem áður trú á að tölfræði sé magnað verkfæri ef menn passa sig bara að trúa ekki um of á líkönin sín.

Í stuttu máli mætti segja að bankamennirnir hafi gert ráð fyrir að fólk hagaði sér skynsamlega, að kerfi háð dyntum órökrétts, tilfinningakennds vilja mannskepnunar leituðu að tölfræðilegu jafnvægi eins og næstum öll náttúruleg kerfi gera. Við erum bara ekki svona klár - já, bankasnillingarnir taka bara mjög fáránlegar og hættulegar ákvarðanir! Slæmar fyrir okkur, slæmar fyrir heildina.

Ég nenni ekki að koma allri pælingunni minni á blað, en við pabbi ræddum þetta heillengi í hádeginu í gær... mjög áhugavert. Ef þessi kreppa sýnir eitthvað, þá er það að fjármálakerfið eins og það er í dag leitar sífellt að ójafnvægi, þangað til krísa kemur upp. Þessi lykkja endurtekur sig í sífellu... Maður spyr sig hver lausnin á þessu öllu saman er, ef hún er yfir höfuð til?

Í ljósi ofanskrifaðs leyfi ég mér að efast að hún verði sett fram í stærðfræðilegri jöfnu ef hún finnst.