fimmtudagur, september 04, 2008

Kórar, fiðla og skrýmsli

Í síðustu viku þreytti ég inntökupróf í Mótettukórinn. Ég hef ennþá ekkert heyrt í kórstjóranum og er, satt best að segja, ekkert sérstaklega vongóður um inngöngu. Það kemur auðvitað allt í ljós á næstu dögum (ég er mjög spenntur að vita hvort þumallinn snýr upp eða niður), en það væri svo sem engin heimsendir að komast ekki inn - þá held ég bara áfram í Háskólakórnum og syng Messías eftir Händel í nóvember.

Ef ég á hinn bóginn kemst inn munu drunur fögnuðar míns skekja hásæti goðanna.

--

Ég er nýkominn heim af Sinfóníutónleikum. Fór heim í hlénu, þar sem ég fór gagngert til að hlusta á fyrri hlutann. Verk kvöldsins var fiðlukonsert Tsjaíkoffskýs (og forleikur þar á undan) - mikið uppáhaldsverk þar á ferðinni. Mér er sagt að einleikarinn sem spilaði þyki besti fiðuleikari heims um þessar mundir.

Hann var vissulega mikill snillingur. Ég á verkið með Berlínarfílharmóníunni og Vengeroff. Þar er líklega hljóðversútgáfa á ferðinni. Vengeroff sletti sér meira (á góðan hátt), en þessi var fágaðri. Á hinn bóginn var þessi (man ekki hvað hann heitir) nokkuð oft óhreinn, og mér fannst hann stundum ekki ráða alveg við þann hraða sem hann valdi sér. Á heildina litið stóð hann sig alveg frábærlega, þetta voru bestu tónleikar sem ég hef farið á lengi (enda verkið líka geðveikt).

--

Ég las áðan grein Hafsteins Gunnars Haukssonar á deiglunni.com, þar sem hann lýsir Sambandi íslenskra framhaldsskólanema.

Skrýmsli eru merkileg fyrirbæri. Sauron hinn mikli hóf feril sinn í leit að völdum til að koma góðu til leiðar. Hann sóttist sífellt eftir meiri völdum og áhrifum, og fljótlega fóru upprunalegu hugsjónirnar að víkja fyrir nýjum, spilltum metnaði - hann var orðinn að skrýmsli.

Samband íslenskra framhaldsskólanema eru merkilegt fyrirbæri. SÍF hóf feril sinn í leit að völdum til að koma góðu til leiðar. Það sóttist sífellt eftir meiri völdum og áhrifum, og fljótlega fóru upprunalegu hugsjónirnar að víkja fyrir nýjum, spilltum metnaði - það var orðið að skrýmsli.

Ég tók svolítinn þátt í sköpun þessa skrýmslis. Upprunalega hugmyndin var að skapa framhaldsskólanemum öflugt verkfæri til að bregðast við pólítískum ásóknum á framhaldsskólakerfið, eins og okkur MR-ingum þótti t.d. frumvarp menntamálaráðherra um styttingu náms til stúdentsprófs vera. Þetta nýja sverð í höndum okkar átti að vernda ástkærar menntastofnanir okkar fyrir inngripi skilningslausra möppudýra Menntamálaráðuneytisins.

Eins og sjá má á greininni er SÍF alls ekki sverð í höndum framhaldsskólanema, heldur hefur það nú öðlast sjálfstæðan vilja og beitir sér sem pólítískt þrýstiafl á vinstri vængnum fyrir hönd allra famhaldsskólanema - svolítið eins og Röskva gerir í HÍ.

Sagan endurtekur sig. Fyrir nokkru hrundi hið fánýta, útblásna og kostnaðarsama bákn FF (Félag framhaldsskólanema) til heljar. Ekki liðu nema nokkur ár þangað til við höfðum skapað nýtt skrýmsli til að fylla í skarðið.

Sorrí, krakkar!