miðvikudagur, september 28, 2005

Júterpa

Stundum verður maður einfaldlega að fallast á kné fyrir Júterpu, músu tónlistarinnar. Fátt, ef eitthvað, veitir mér jafnmikla gleði og tónlist. Ekki margir deila gnægðri ánægju minni af söng, en þó eru fjöldamargir mun betri söngvarar en ég. Lengi hef ég gælt við þann draum að setja á fót söngkvartett, en vinir mínir hafa annaðhvort ekki áhuga eða tíma til þess. Líklegast áhuga. En ég læt það sem vind um eyrun þjóta! Lúðraþyturinn skal þraminn úr lungum sönghæfra smásálna! Vá hvað ég elska annars sögnina "að þremja" (eins og kenningin í vísu Egils Skalló: þundr þremja-vandar, sem þýðir þá drunur stríðs-vandar).

Já, með sanni má segja að ég sé mikill lífshedónisti á alla hugsanlega kanta. Mér er óheilbrigð ánægja af afar mörgu. Þó ekki af öllu.

Rústaði stærðfræðiprófi í dag, mikil gleði.
Ars longa, vita brevis. Hefur sjaldan átt eins mikið við og núna, enginn tími til neins!

Tónskáld dagsins er Rachmaninov, sérlega eru píanóprelúdíur hans leiknar af Ashkenazy í spilun.

laugardagur, september 24, 2005

Gott er að skemmta sér.

Já, krakkar mínir, það er svo sannarlega geðheilsunni til framdráttar að sletta úr klaufunum, svona einu sinni og endranær. Hér sit ég undinn en sáttur eftir ræðukeppni, rabb, skankaskak, tebó, meira skankaskak, og bæjartölt með valinkunnum andans mönnum.
En vá, þessi ræðukeppni.

Þetta var nú soldið trist, er þaggi?
Ræðulið MR mætti á svæðið í fullum herklæðum, vopnað eggvopnum brýndum á hverfisteini mælskunnar og þungum gaddakylfum rökfestunnar. Þau komu tilbúin fyrir orrustu.

En það eina sem mætti þeim þegar á staðinn kom voru hálfkveðnar bögur og slyttingsleg rök.. ef MH-ingarnir komu þá með nokkur rök í einhverri ræðu þeirra.

Þetta er nú soldið trist. Jafnvel móðgandi, að þeir skuli ekki einu sinni hafa sent almennilegt ræðulið á móti okkur.

Annars verð ég að óska ræðuliði MR hjartanlega til hamingju með geðveika frammistöðu. Auk þess skal þakka þjálfaranum, auk Gunna og Darra.

Í keppninni voru gefin sirka 2100 stig. Þar af fékk MR 900 stigum meira en MH. Ekki gott, meine Sterneliebchen, ekki gott.

Annars gott að frétta. Gaman gaman. Gaman að hitta vini sína aftur! Maður vill gleyma því í amstri skóladaganna.

Peace.

miðvikudagur, september 21, 2005

Argur

Urg. Stundum finnst mér lífið snúast í höndum mér, líkt og feitiborinn áll. Að minnsta kosti á ákveðnu sviði. Mikilvægu sviði.

Nóg sagt.

Hér kemur annars smá leirburður:

Skenk mjer Jesúm, sálarhvíl
skotinn er með kúpiðs píl,
Steyt ei upp í botn minn stíl,
syndara í hugarvíl.

Hjálp þú oss að forðast hjóm
helgri raust og glöðum hljóm
Fyll þú oss með kurt og fróm
fjálgur Jónas Krísóstóm.

sunnudagur, september 18, 2005

Busaferðin

Já, hér sit ég úldinn og úrundinn, en afar sáttur. Busaferðin 2005 stóð yfir um helgina, og vá hvað hún var hressó. Í raun voru þetta tvær ferðir í röð, bekkir A-E á föstudag-laugardag, F-I á laugardag-sunnudag. Flenniskemmtilegur árgangur, það verður seint tekið frá þeim.

Klikkað stuð, sungið og leikið á gítar frá komu til sex um morguninn. Margt rætt og margt hlegið. Óskeggvaxta busalingar trítluðu um gólfin og léku sér við fiðrildi meðan við suðum pelsur þeim til saðningar, seinna kepptu svo bekkirnir sín á milli í ýmsum leikjum (þið munið eftir þessu). Síðan fór mikill tími í að kynnast fólki og að spila og syngja. Fullyrða má, með nokkurri vissu, að Haukur Homm hafi farið á kostum í ferðinni, eins og honum einum er lagið. Eins og áður hefur sagt verið var sungið og spilað fram á rauða nótt, skriðið upp á dýnu um hálfsjöleytið. En hvað svo? Næsta dag endurtók sagan sig! Þvílíkt rugl. En vægast sagt gaman.

Það kvöldið var leikinn leikur, sem hin eðla stjórn Herranætur kunngjörvði okkur. Klara, þú veist hvaða. Svo er alltaf fyndið að kitla Svanhvíti. Sama uppi á teningnum það kveldið: sofnaði á leikfimidýnu um hálfsjöleytið undir værðarvoði mínu grænhyrnda eftir langt spjall og synglisöngl.

Ég gæti fjasað endalust um þessa ferð, en ég mun hlífa ykkur þeirri lönguvitleysu af einskærri samúð.

Lifið heil, dúllurnar mínar.

laugardagur, september 10, 2005

Síðustu tveir dagar í hnotskurn dróttkvæðis.

Sóttumst sumbl að náttu
sálar heitt brann bálið,
skönkum ört em skenkti,
skreið þá Ás um Breiðvang.
Reis úr röðull austri
rammt var geð svefnskammt,
huga skal hag þremja
hegrans söng tegra.

föstudagur, september 02, 2005

Vafstur

Mikið vafstur er á höfundi þessa dagana, en góðvafið þó. Sólarhringurinn skiptist í: 1. sofa frá 12-7:40, 2. skóli frá 8:10-14:30, 3. skólafélagsvinna frá 14:30-17/18, 4. lærdómur til miðnættis með matarívafi.

Mikil gleði, mikið grín. Fjölþjóðleg heimadæmi og lútuglymur einkenna daginn í dag, þar sem Tæland sendi fulltrúa sinn í dæmasafn helgarinnar. Vinna! Vinna! Vinna!

En eins og Hippókrates kunngjörvði forðum: "All work and no play make Jack a dull boy". Sannleikskorn, nei, baðströnd sannleikskorna felst í þessu Axíomi Hippókratesar. Því skal trallað allhvað í nátt, og ekla verður eigi á limaskaki. Staðreynd!

Busarnir, já. Busar, busar. Busar.... Busar hafa flætt inn í höfuga og lakkaða ganga Skólans eins og hægðalosandi búðingur. En það eru að sjálfsögðu þeir sem munu skíta á sig á fimmtudaginn, sumir vegna hræðslu. Aðrir hafa ekki verið vandir af bleiunni, en það tollerast allt af þeim.

Hlakka til að slappa aðeins af... en það verður líklega ekki fyrr en ég legst til hinstu hvílu.
Lifið heil, elskurnar.