fimmtudagur, júní 30, 2005

Stórmerki

Í Zimbabwe ríkir ófremdarástand. Robert Mugabe, forseti landsins, drýgir hverja heljarskyssuna á fætur annarri og lætur dólgslega. Hungursneyð ríkir sökum óstjórnar kempunnar, sem hefur á örskömmum tíma eyðilagt framleiðslugetu Zimbabwe á landbúnaðarafurðum.

Þó eru ekki allir íbúar Zimbabwe eins ólukkulegir. Samangoapar Bvumbasvæðisins voru í gleðilegu uppnámi í fyrrimorgun. Umsjónarmenn svæðisins voru furðu lostnir er þeir sáu apana dansa æsingslega auk þess að slefa óhóflega á meðan þeir fóru hamförum (ss. fóru stórfellt úr hárum) er þeir rykktust um jörðina í spasmakenndum tryllingi. Umsjónarmennirnir merktu einnig að sumir apanna slógu taktfast á bringu sér og orguðu af mikilli innlifun. En mest kom þeim þó á óvart þegar bumbuslátturinn / gargið auk dansins hætti skyndilega, og stór, gamall, forystuapi tók upp grasbítslærlegg, í hvern voru skorin göt af lystugleik, og blés kröftuglega í. Þar næst lyfti hann flautunni til himins og gargaði allhressilega í norð-norðvestur. Einungis einn sjónarvotanna, Sir Wimble Fitzgarfunkel, hafði skilning á athöfninni. Þrumu lostinn fleygði hann safarí-hatt sínum í loft upp og grenjaði svo undir tók í einglyrninu: "Ariel has returned from his year of being a foreign exchange student in the city of Nishny Novgorod, also known as Hólmgarður in the ancient tounge of Iceland, in Russia, whence he has flown by the means of an airplane whose owner's plane it is! So sayeth the monkey shaman."

mánudagur, júní 27, 2005

Rondo bjargar deginum

Í dag kom mér óvæntur bjargvættur til hjálpræðis og geðsupplyftingar. Sá heitir Rondo og er útvarpsstöð á vegum RÚV. Stöðin segist spila klassík og djass, en þó heyrði ég varla eitt djasslag allan daginn. Þó kvarta ég ekki, því lagavalið var framúrskarandi fjölbreytt og gott. Sérlega þótti mér fyndið þegar á eftir enn einni klassíkinni kom tilkynningin "Útvarp Rondo- spilar líka djass". Næsta lag var svo gleðilegur píanókonsert sem átti ekki frekari samleið með djassinum en varadekk með hlébarða, þó þeir séu í raun sami hluturinn.

Svo vil ég benda á að tíðni BBC er 94.3, en það vissi ég ekki fyrr en í dag. Rondo er svo 87.7.

Í Kastljósi dagsins komu fram Eiríkur Jónsson og kona frá samtökum blaðamanna að mig minnir, nafni hverrar ég hef því miður gleymt. Af því er ekki meira að segja en að Eiríkur kúkaði sér á bak upp allgróflega. Þessi maður er holdgervingur DV, ég mæli með því að lesendur kíki á kastljós dagsins á Vefsíðu RÚV.
Maðurinn var... ólýsanlegur. Ég læt lesendum eftir að mynda sér skoðun á málinu, en þykir mér um allrýran mannpappír rætt.


Já, börnin góð. Færslunni verður lokið með tilvitnun í hið íðilfagra lag "Eine kleine Frühlingsweise" með Comedian harmonists.

,,Da ertönt ganz leise, leise,
Meine kleine Frühlingsweise,
Bis die gold'ne Sonne strahlend lacht.
Und die Blumen blühen wieder,
Auch die Wolken ziehen wieder,
Und vergessen ist die kalte Nacht.
Freut Euch der Jugend, nutzt jede Stunde,
Wenn euch die Sonne strahlt im Mai.
Sucht die Schönheit im Leben,
Steht nicht daneben
Denn der Frühling geht ja doch so schnell vorbei!"

þriðjudagur, júní 21, 2005

Hyrj?

Í dag var ég að vinna kringum Hyrjarhöfða 8. Mér var spurn: hvaða orð í ef. er Hyrjar?
Orðið er ekki fleirtöluorð, því þá væri það Hyrjahöfði. Því giska ég á hyrj. Nákvæmlega hvað orðið hyrj þýðir skal látið liggja milli hluta, en viti einhvurjir málspekúlántar svarið er þeim guðvelkomið að uppljóma mig.

Tilvitnun dagsins:
„Það sem þú ert að segja mér hér er að í danskri fenj hafi fundist klyfj sem er minj um menj af trefj?“
-Radíusbræður

þriðjudagur, júní 14, 2005

Stakanov-Doddi

Mikið er yndislegt að vera vinnandi maður. Frá klukkan átta á morgnana til sex að kveldi hamast ég við byggingavinnu, land og þjóð til ómælds og óeftirtækilegs gagns. Þreyttur og galsafullur kemur maður heim og rennir sér í sloppinn, hlustar á valsa eftir Chopin og lætur hugann geysast um himinblámann. Reyndar efast ég um að Stakanov heitinn hafi getað hlustað á Mahler, en hvað um það.

mánudagur, júní 13, 2005

Yfirlýsing

Hér með lýsi ég því yfir að klassísk tónlist sé æðst og göfgust allrar tónlistar.

Þau smábörn sem ekki eru sammála mér mega halda áfram að jórtra snuðin.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Hvað er tónlist?

Tónlistin hefur gegnsýrt mannkynið frá árdögum. Varla finnst sú manneskja á jarðkringlunni sem ekki hefur hlustað á tónlist af einhverju tagi, og fjöldamargir hafa helgað lífi sínu sköpun tónlistar.

Allir tónar hafa heiltölutíðni, þ.e.a.s. tíðni þeirra mæld í hertzum er heil tala. Hver nóta hefur ákveðna tíðni, og sé sú tíðni aukin um helming hækkar nótan um áttund og lækkar um áttund þegar öfugt er gert. Önnur hlutföll eru líka sterk í þessu samhengi, og þar er fimmundin næststerkust á eftir áttundinni.

Það vekur undrun mína og forvitni hvernig taktföst symnetría einfaldra hlutfalla bylgna með ákveðna heiltölutíðni getur hrært jafnkröftuglega í sálardjúpum mannskepnunnar og raun ber vitni, en nákvæm virkni þessa er algerlega óþekkt.

Nú er ég byrjaður að vinna við byggingavinnu, og fyrsta vinnudaginn vann ég við nýja viðbyggingu við spennustöð Mosó. Þar inni voru gríðarstórir spennubreytar, og fann ég kröftuglega fyrir segulsviðinu í líkamanum. En það sem kom mér mest á óvart var að hið háværa suð sem spennubreytarnir gáfu frá sér var hreint g. Mér til mikillar skemmtunar söng ég tvísöng með spennubreytinum er ég færði mörg tonn malar inn í bygginguna. Það er nefnilega afar spes að mynda fimmund við spennubreyti og syngja Krummavísur eða Ísland farsælda Frón, og efast ég ekki um að margir myndu efast um geðheilsu mína ef þeir hefðu séð athöfnina.

Það sýnir ennfremur fram á hversu oft tónar koma fram í umhverfi okkar utan hljóðfæra og söngs að þegar ég var að mála húsvegg í vinnunni heyrði ég nokkuð hreint c koma frá steinsög í nágrenninu. Sami leikur var þar leikinn og við spennubreytinn.

Munið það svo, tónlistarskoffín máladeildar að PÝÞAGÓRAS fann upp tónbilin!
1-0 fyrir stærðfræðinni, latínunerðir.