þriðjudagur, apríl 03, 2007

Álverið fellt

Ég var í mat hjá Pabba hið örlagaríka kvöld sem úrslitin úr íbúakosningunum voru kunngjörð, en hann býr einmitt í Hafnarfirði. Húskarlar og búandlið þess bæjar kaus gegn stækkun álversins. Ekki munaði nema 0,6% á fylkingum sem verður að teljast mjög lítið.

Skiptar skoðanir eru um ákvörðun bæjarstjórnar að halda íbúakosningu í málinu. Vissulega er þetta þægileg, pópúlísk leið fram hjá erfiðri ákvörðun sem setur aukritis lýðræðisástarstimpil á meirihlutann í Hafnarfirði.

Beint lýðræði er mjög sjaldgæft á Íslandi, enda vandmeðfarið skrýmsl á marga lund. Áróðursherferðir hagsmunaaðila kappkosta við að færa vanþekkingu skrílsins sér í nyt. Þá getur kennt aflsmuna (fjármuna) keppenda í millum, en sá sem prentar flottari bleðla á þykkari glanspappír fær kúlistastig umfram hinn.

Ef skríllinn gerist hins vegar vel upplýstur almenningur horfir þetta öðruvísi og mun betur við.

Ég skal ekki fullyrða hvað er rétt og rangt í þessu einstaka máli, en lífleg umræða og geysimikil þáttaka (meiri en í bæjarstjórnarkosningunum!) einkenndu málaferlin. Heldur skal ekki fullyrt að allar kappræður og deilur hafi verið háðar á þeim forsendum að koma óbjöguðum upplýsingum til almennings.

En er þetta ekki mjög töff? Jón Sigurðsson, ráðherra vor ástkær og frómur, vill meina að bæjarstjórnin sé ekki bundin af kosningunni frekar en hún vilji. En hver gengur gegn úrskurði íbúakosningu? Það yrði alla vegana ekki vinsælasta hugdetta ársins, svo mikið er víst.

Hvað segja spekúlantar? Er þetta byrjun á uppgangi beins lýðræðis hér á landi? Eða einungis hlálegt dæmi um fáfræði lýðsins og vald áróðursmeistara yfir þönkum hans?