föstudagur, desember 31, 2004

Elgsfeiti

Það aldin út er sprungið....
já, tónleikar gærdagsins mökuðu mér sannlega spass (dregið af Spas machen á þýsku). Stórmeistararnir Aron og Halli fóru á kostum í einsöng sínum, og kórinn stóð sig vel. Tónleikagestir virtust ánægðir með frammistöðuna, og skv. fyrri málsgrein er ég sammála því mati. Stundum óska ég þess að við æfðum oftar. Þessi kór býr yfir mörgum efnilegum söngvurum og þó hann sé góður núna að mínu mati, gæti hann verið stórkostlegur með meiri æfingu. Þó er allskostar óvisst hvort metnaðargjarnir og latir MRingar nenni eða geti yfirhöfuð að æfa meira en tvisvar í viku. Hlakka til að sjá himnana lýsast af ljósadýrð marglitra flugsprengna, auk djamméringu sem ég vonast til að verði. Í tilefni dagsins hef ég samið vísu um ofdrykkju. Vísan heitir því geypifrumlega nafni Ofdrykkjuvísa, og ríma öll orð í henni við orð tveim línum neðar. Þó komst ég ekki hjá smá ofstuðlun í þriðju línu. Ég biðst forlátssemi og þyrmslu, ó mikli Guð skáldskaparins.

Happi hleypir fokið lok
hressir, bætir, kætir,
Kappi keitir morkið kok
klessir, ætir, grætir.

fimmtudagur, desember 30, 2004

Götterfunken

Vithiti! Fannfergi! Söngur! Ég elska daga hávetrar. Sólin skín á heiðskírum himni, gyllir mjallhvítar fjallshlíðarnar og göfgar mannsandann. Orrahríð alfreðsins hvessir og skerpir vitundina og glæðir lífsþrána. Gærdagurinn var einn þessarra daga, og sýnist mér þessi dagur stefna í líka vindátt. Við æfðum lagið fyrir söngvakeppnina framundan. Ýldi forsöngvari vor af innlifun og ótvíræðri snilli, enda er hann Bragi okkar fullfær um að fylla fótskó Friðreks Kviksilfurs (freddie mercury). Við tók kóræfing strax eftir téð jóðlsamsæti og stóð hún fyrir sínu líkt og ávallt. Seinna er degi hallaði, og spörfuglinn hvíldi vært í hreiðri, fór ég í teiti að boði Braga og hitti þar fyrir mér Braga og Kidda, auk fríðs föruneytis Leikfélagslæpna. Seinna að náttu hélt ég í heimátt og skreið í sekkinn. Í kveld eru svo jólatónleikar MR kórsins, og hvet ég alla til að mæta. Prúgrammet er frækilegt með meiru, ef ég segi svo sjálfur. Auk þess hvet ég alla sanna karlmenn til kórsöngvar!
Svona að lokum hef ég ákveðið að birta litla drápu um Þossa snilling.

Béus yfir bókum bograr
Beygir ablativus,
Hrella Þorstein hrollsinns lograr,
hrottans hræðist sínus.

Kækur myndar, fúþark kuklar
kutum grimmir sveifla,
Sveittur, spenntur, æstur þuklar
fram brýst blóð og geifla.

þriðjudagur, desember 28, 2004

Félagakveðskapur

Kæru gestir. Eins og hótað var í síðustu grein mun ég nú birta Kveðskap um nokkra félaga mína. Þeir pelar sem ekki hafa enn fengið kviðling um sig saminn skulu ekki örvænta. Allir fá, skv. hest-fornri áætlun vorri sér a.m.k. einn ferskeyttan kviðlingsígildispúka sér til yndisauka.

Fornyrtastar eru Aríelsvísur, og sést það á of- og rangstuðlun.
Þeir er Aríel kenna (þekkja, á eðjótamáli) vita að hann hefur æ notið aðdáunar kvenþjóðarinnar, og ekki hefur hún misst skriðþungann í Garðaríki, en þangað fór hann sem víxllærir (skiptinemi). Flagari er hann enginn, enda prýðismaður með öllu. Hér skal þó sagt frá kvenhylli hans í Hólmgarði, en þar býr hann nú.

Kvæði vil ek kveða um
karlpung, frjóan, fræni,
síþéttan á kantinum,
kátan kvenna-hæni.


Til Garðaríkis geystist skjótt
Greðni jarlinn herti,
Rússafljóðin fyrir fljótt
Féllu Frænis sterti.

Fyrir þá sem vita ekki þegar þýðir Frænir íslendingur (Frónbúi>frænir).

Næsta mýðri (múðurkenndur hlutur, hk.) er kvæði sem ég orti í gær á MSN um snilling sem kallast Darri Edvardsson. Sökum ungs aldurs mýðrisins er það hvorki rang- né ofstuðlað. Darri E. er Mosfellingur, og hugumprúður á allar hliðar.

Darri drengur góður er,
dilkir ei að finnast
Huginn, hraustur, traustur, ger,
hans ber vel að minnast.

Ég geri ráð fyrir kynngi ykkar á lýsingarorðinu ger, en það þýðir gerðarlegur.

Frekari birting rím-spöðunar fer fram síðar.

mánudagur, desember 27, 2004

Fæðing

Ég hef ákveðið að spreyta mig á vefdagbókfellsgerð, sem kallast á máli Plebeia "blogg". Hér mun ófleygur kveðskapur baða út misheppnuðum, götóttum vængjum áður en hann hrapar í hyldýpi gleymsku og smánar. Hér munu hugfettur þær er í rykugum hugskotum höfuðs míns fletta ofan af lífsþrá og brjálsemi höfundar! Og já... gleðileg jól og farsælt komandi ár.