föstudagur, ágúst 18, 2006

Marmaris

Já, frómu lesendur, nú er komið að hinu óhjákvæmilega. Rétt eins og sérhvert nammistykki sem við snæðum leggur að lokum leið sína gegnum ananus verða frásagnir af stórferðum að lúta sama lögmáli.

Útskriftarferðin okkar var farin til Marmaris, en það er sjávarbær á suðvesturhorni Tyrklands við Marmaraflóa. Ferðin stóð fyllilega og rúmlega fyrir væntingum, enda gerðist margt speisað. Meðal hápunkta ferðarinnar voru ástarævintýri, tógakvöldið, skoðunarforð um hið forna metrópólis Ephesos, þar sem sjá mátti meðal annars stórglæsilegt hóruhús, bókasafn og leikhús. Ekki var heldur alls kostar ónýtt að leigja hraðfley með 115 hestafla útbyrðis-vatnshrærivél og geysast á 90 km hraða um fagran Marmaraflóann með nokkrum kumpánum. Allnokkur ósannsögli fælist í þeirri fullyrðingu að sumblekla hafi verið í ferðinni. Margir frómir piltar gáfust þar Bakkusi á völd og mátti heyra hávært garg óminnishegrans langt fram eftir morgni á hverju kveldi. Smáatriði um svona ferðir eru óáhugaverð nema þau komi frá betri penna en mér, svo ég læt þau vera í bili. En þessi ferð var algert brill, og ég vona að öðrum hafi gefist tækifæri til að njóta hennar eins vel og ég gerði. Við yngribekkinga segi ég hér með: hlakkið til.

Það voru þreytuleg augu og þreytulegar lifrar sem lentu á Keflavíkurflugvelli þann 15. ágúst, en ég held að allir séu nokkuð sáttir með ferðina, og á 5. bekkjarráð megnt hrós skilið fyrir jafnvel heppnaða ferð og þessa.


Skólinn fer að byrja.
Ég hlakka til. Hvað segið þið?