þriðjudagur, desember 27, 2005

Yule in Thule II

Frábær jól. Fjölskyldan hélt upp á aðfangadagskveld í hjalli mínum á Laugarásnum, og það uppáhald gekk vonum framar. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið beztu jól í mörg ár hjá oss. Nú skorti mig á jóladag bók til aflestrar, þar sem mér leist ekki á krimmann sem ég fékk frá ömmu. Ég fylli ekki næturgagnið svo gjörla yfir krimmum, svo mikið er víst. Þá datt mér sú öldungishugmynd í hug að lesa "The Da Vinci Code", þar sem mér hefur einum manna á Íslandi tekist að lesa hana ekki hingað til. En svá bregðast krosstré sem önnur tré. Er reyndar ekki kominn langt í henni, en hún lofar góðu. Á morgun er svo.... nöh! Jób sé oss næstur. Klukkan er orðin margt, og svefnfrygðin ágerist. Meira síðar!

þriðjudagur, desember 20, 2005

Í fréttum

Ég las fyrirsögn á Fréttablaðinu sem hlægði mig svo um munaði.

"Dr. Sýkill er frjáls ferða sinna"

Ég nennti nú ekki að lesa fréttina, en ég get frá fyrirsögninni giskað á innihald hennar.

"Dr. Sýkill er frjáls ferða sinna.

Hinn illræmdi snillingur og David Bowie-aðdáandi Dr. Sýkill flúði úr prísund sinni á Svalbarða á baki tamda rostungsins Viggó síðdegis í gær. Aðspurður taldi Uffe Bjeff, sérfræðingur í alþjóðlegum hryðjuverkum og rostungum, að Dr. Sýkill gæti nú þegar verið kominn í leynipýramída sinn í Aserbaijan. Hann sagði líklegt að Dr. Sýkill mundi nú á ný sameina krafta sína Þríhyrningsmanninum og Mannlega Sæbjúganu. Dr. Sýkill hefur áður spreytt sig á sviði heimsyfirráðatilrauna. Hinn vestræni heimur var á barmi tortímingar síðastliðið haust þegar Dr. Sýkill jók gífurlega framboð á frosnum jarðaberjum, en þá voru áætlanir hans stöðvaðar af Undra-Höfrunginum og aðstoðarmanni hans, Bill Clinton. Óvíst er hver mun bjarga málunum í þetta sinnið, þar sem Undra-Höfrungurinn rekur nú útibú Saab í Argentínu, og Bill Clinton hefur ekki tekist að kenna öðrum höfrungi að fljúga, né að spýja orkugeislum.

Reuters AP"

Heimur versnandi fer.

föstudagur, desember 16, 2005

"...og Arngunnur Árnadóttir leikur einleik á klarínett."

með Sinfó. Ekki er alllaust við að maður sé nokkuð stoltur af henni á þessarri stundu. Sendum henni hlýja strauma.

Gangi þér vel!!

miðvikudagur, desember 14, 2005

Fliss kattarins

7 hlutir sem mig langar til að gera áður en ég dey:

Vera hetja
Fara til Grikklands
Skrifa skáldsögu
Eignast börn
Lesa.. það er svo margt sem ég á eftir að lesa!
Ferðast til eða búa í Japan um stund
Læra japönsku

7 hlutir sem ég get gjörvt:

Borðað meira af gráðaosti í einu en flestir dauðlegir menn
Klappað með annarri hönd
Hugsað mjög djúpt
Búið til góðan ís
Talað of hátt
Búggí búggí á dansgólfinu
Riðið hrossi

7 hlutir sem ég get ekki gjörvt:

Fundið lykt af nokkrum sköpuðum hlut
Verið þunglyndur
Spilað fótbolta
Talað japönsku
Flogið (schade.)
Séð það vonda í fólki
Borðað banana. Ávextir satans.

7 hlutir sem heilla mig við fegurra kynið:

Hreinlyndi
Eldur
Gáfur
Fegurð
Kímnigáfa
Tónelska
Andríki

7 staðir sem mig langar á:

Grikkland
Japan
Róm
Tíbet
París
St. Pétursborg
Rúmið mitt

7 orð eða setningar sem ég segi oft:

"Ert'ekki að grennast í mér?"
"Djöfull er ég í góðu skapi í dag!"
"Eins og Ödípus"
"Crazy like a fool"
"Geðveikt!" (því miður)
"Beast!" (við Þorstein)
"Það er svo gaman að vera í Kórnum"

7 hlutir sem ég sé núna:

miðlungsvolgan bloggpistill
gítar
hendur
Albert Einstein
tunglið
japönsk teiknimynd
köflóttar bómullarnáttbuxur

Nóg komið. Næsta fordæmi ég Þorstein, Kára og Darra E.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Kitlaður köttur

Ef ég væri köttur, þá væri ég nú kitlaður. Þar sem var nýbúinn að hreta frá mér færslu þegar ég fattaði að Sigurlaug hefði kitlað mig verð ég að fá a.m.k. eins dags frest til þess.. en það kemur.

Yule in Thule

Nú nálgast Jólin. Í jólaprófunum hefur leikni mín við smákökubakstur, og þá sérstaklega við bruggun heits súkkulaðis, aukist um gríðarleg stökk, þar sem hún var ekki upp á marga fiska áður. Gerð heits súkkulaðis er ekki eldamennska fyrir mér, nei, hún er viðkvæm list og nákvæm vísindi. Mörg leynihráefni eru notuð, þ.á.m. nokkrir dropar af koníaki, örlítið chili-duft, tár engilsins og lungnasmjör drekahvolpsins. Allir sem hafa lesið Harry Potter ættu að kannast við aðferðafræðina úr seyðisbruggunartímunum hjá Snape, enda hef ég numið hjá Skarphéðni efnafræðikennara, sem er í rauninni sami maðurinn. Súkkulaðið er farið að verða ansi gott hjá karlinum, og þeir sem vilja það kneyfa skulu bara biðja mig um það. Ef þeir búa í skynsamlegri fjarlægð frá miðbænum / laugardalnum skal ég koma til þeirra og laga kakó (að því gefnu að þeir eigi suðusúkkulaði og mjólk). Slíkur bolli kostar þó að sjálfsögðu eina sálu, útlim eða klapp á bakið.

Ég vil hvetja MR-inga til að hittast óspart í jólafríinu og herða vinskaparjárnin í eldi góðs kveðskapar og bakkelsissukks, enda eru engin Jól Jól án aukakílóa.

Mig vantar góða fantasíubók til að drekka í jólafríinu. Vitið þið um eina slíka? Ef svo, látið mig vita!

Vááá hvað ég hlakka til Jólaballsins, og kórtónleikanna! Þetta verður skeggjað. Nú hefur maður ekki komist á kóræfingu í... ég veit ekki hvað marga daga. Fráhvarfseinkennin eru orðin harkaleg, þau byrjuðu með smávægilegum höfuðverkjum og niðurgangi, en hafa nú þróast út í beinverki, prófþreytu og geðsýki. Auk þess klæjar mig í nefið. Ekki nóg með það, MH-og Hamrahlíðarkórinn fær að syngja Mozart Requiem með Sinfó eftir jól! Guð minn góður, hvað ég myndi ekki gefa fyrir það. Helvítis MH-ingar, með sinn góða kór, og sínar tíðu æfingar, og sín sífelldu partí, og sitt létta nám... djö.

Þetta er farið að leysast upp raup, svo ég óska ykkur bara gleðilegra prófloka í bili.

laugardagur, desember 10, 2005

Föndurstund

Vá, hvað þetta lag er fyndið! Um er að ræða eitt lagið með Baggalútsbaularanum Tony Ztarblaster. Fyrir þá, sem eru alger flón, sem ekki vita hvaðan lagið er upprunið bendi ég á lagið Þönderströkk með Riðstraumi/Beinstraumi.

Dagurinn fór í stærðfræði. Ef ég segðist hafa farið úr náttfötunum í dag væri það augljóslega lygi. Ekki er laust við að maður sé soldið stoltur af afrakstri dagsins. Ég er búinn að beygja skrýmslið undir blóðugt stígvélið eftir ramman bardaga, klofinn skjöld og ótal sverðshögg. Verkefni morgundagsins er síðan að grilla bestíuna og eta.



























Þau próf sem eru búin heppnuðust vonum framar, vona ég. Prófin sem ekki eru búin mun ég vona að heppnist framar vonum. Vonandi.

Koma svo, krakkar! Eitt komment, eitt komment er allt sem ég þrái! Annars álykta ég að þetta blogg sé að deyja.

Doddi
-Með dauðahryglu.

sunnudagur, desember 04, 2005

Sálarhvíl eftir hugarvíl

Það er fátt, ef nokkuð, til betra að setja á fóninn en Django & band hans þegar steikir kálfasnitselið og flippar pönnsunum. Jú, rólyndi er kjörorð helgarinnar. Lærdómur hefur verið hófnógur, og tímabilið frá síðustu færslu einkennst af "feel doth it good, and the sun shineth, and mine arse swing'th as the arse of the swing God himselfe doth swing", svo ég vitni í sjálfan mig.

Prófkvíði, segðu frekar 1/prófkvíða. Prófléttir. Síðasta vikan í skólanum fór í óþreyjufulla bið eftir upplestrarfríi, kannist þið ekki við þetta, eðlu lesendur?

Fór á tvo geðveika tónleika um helgina. Útgáfutónleikar Garðars Thors Cortes, (plögg í boði Einars Bárðarsonar) voru í gær. Lagavalið var kannske ekki með klassískasta móti, en váááááá hvað maðurinn syngur! Jahve sé prísaður, og allar hans geitur! Karlinn fékk að sjáfsögðu standandi klapp eftir flutninginn, og á eftir hverju lagi sprakk út gífurleg klappflóðbylgja að síðasta tóni nýslepptum. Glæsilegt, svo ég segi ekki meira. Mútter spilaði í bandinu svo ég fékk að heilsa upp á kempuna baksviðs, og ekki var að taka eftir neinu egói í meistaranum. Það þykir mér ótrúlega aðdáunarvert, enda skilar það sér í flutningnum. Til að tónlistarmaður flytji frábærlega vel þarf hann ekki aðeins að vera góður á hljóðfæri sitt, heldur verður hann að vera laus við egó. Það er alltént mín skoðun. En nóg af því.

Hinir tónleikarnir voru ekki svo gríðarlegir, en þó frábærir. Þar söng Áskirkjukórinn í aðventuprógrammi í Áskirkju í kvöld (í.). Svakalega flottur kór þar á ferðinni. Þó átti ég erfitt með að halda niðri í mér hlátri undir lok flutningsins, þar sem nokkrir eldri menn supu hveljur djúpt ofan í kok með markvissu millibili. Það minnti nefnilega óheyrilega á rýt villigaltar. En það er jú eitt fyndnasta hljóð sem fyrirfinnst á jörðu, sérstaklega í þessu helga samhengi, maður varð bara að vera þarna.

Megi prófin brosa við ykkur, höfuðskepnur góðar.

laugardagur, desember 03, 2005

Jólaglöggur

Loks, loks! Nú er kennslu fyrir jól lokið og við taka jólaprófin. Ekki er alllaust við að nokkur óþreyja hafi komið upp síðustu viku skólans, sem ég tel að betur hefði verið varið í upplestrarfrí. Það segir sitt um hektík ársins að þegar ég kom heim í dag, í lok annarinnar hlammaði ég mér í dyngju mína og svaf værum blundi í sex tíma, vaknaði svo klukkan níu um kveld og fór skömmu síðar að sofa. Prófin leggjast nokkuð vel í mig, en þó segist ég ekki hafið hafa haft nægan tíma til að stunda námið. Þetta er þó í raun rugl og bullumsull; ef ég hefði lifað spartverskt hefði ég auðla (andst. trauðla) getað stundað námið betur, en allir menn þurfa sína hvíld með reglulegu millibili.

Engin kóræfing í tvær vikur. Hvernig skrimtir maður á því, mér er spurn? Ef ég á ekki að sökkva ofan í Hindúisma og mannát verð ég að finna mér eitthvað annað til upplyftingar, og það skjótt!

Allar uppástungur eru vel hafnar. Flljótt! Áður en ég kafna í pappírsflóði efnafræði-og stærðfræðilesturs!