mánudagur, nóvember 13, 2006

Lo(f)vísa

Kristján ná-bleiki orti um mig lofýsu. Því get ég ekki verið minni maður (eða get allavegana þóst vera það ekki, enda ósatt með öllu) og ákvað að yrkja örlítið fornyrðislagskvæði um gulldrenginn. Nú veit ég ekki hvort hann getur lesið þetta, en vonandi berst þetta þá til þín eftir mystískari boðleiðum, frómi vin.

Man ég merka
manvitsbrekku
gæðasekk
góssi þrútinn.

Bar betri
bróður fyr
Asks algeimur
aldregi.

Mjöð mæran
millum vor svolgum
hrein við harpa
hryn barka.

Æ bylur óhátt
offull tunna.
Sjá hann þó spakir
spunninn gulli.

Kristjáns kunnu
kvinnur sakna,
bræður og bönd
bera kveðju,
austurfara
alsyngjandi,
glókolli gullnum,
valmenni vöndu
vellifandi.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Hausthrygla

Veturinn er alltaf skemmtilegur. Honum fylgja snjór, hvít birta og kuldi sem hæfir norrænum manni. Haustið getur haft sinn sjarma, en sá tími árs sem við fljótum nú gegnum er mér til ama. Myrkur, rok og slydda við og við. Gærdagurinn var leiðinlegur, mér þótti eðlisfræðiprófið ganga illa (annað kom þó í ljós í dag) og hæg yfirferðin í kennslustundum nístir þyrsta einbeitinguna eins og hverfisteinn. Ég hafði ekki farið í sturtu daginn áður, og fann því ekki fyrir sápuvímunni sem sísturtandi vestræn ungmenni hafa gert sig háða. Heimleiðin var hugsanasnautt strætómók, en úr leiðanum bættist við góðan, heitan og beiskan tebolla af indversku nýlendutei og langþráð leiftur tónlistarinnar. Ég hafði gleymt spilastokknum heima.

Hvað er maður án tónlistar?

Styrkur, vinir, styrkur og gleði eru það sem þarf til að þreyja veturinn. Þegar sólskinsins gætir ekki verður það innra að vera því sterkara. Þetta er blessun og bölvun norrænna manna, annað hvort verðurðu grámenni eða öðlast mikinn andlegan auð. Vonum að við föllum í síðari flokkinn.

Veturinn er kominn. Kveikið á kertunum!