Minas Morgsúla
Man einhver eftir þessu atriði úr Return of the King?
Vei þeim spyrðnu ættlerum sem espa skrílinn gegn sólkonungnum!
Man einhver eftir þessu atriði úr Return of the King?
gnauð Doddi kl. 3:06 f.h. |
Í tilefni nýkomins sumars flatbaka hér tveir æskuvinir, Gúndi litli og Flati-Gvendur. Gvendur litli lætur augljóslega rýmisfræðilega fötlun sína lítið á sig fá og kýs frekar að láta gleðina ráða á þessum fallega sumardegi.
gnauð Doddi kl. 8:32 e.h. |
Þá er komið að því, MR er lokið. Við taka ný og spennandi viðfangsefni, og fyrsta veigamikla ákvörðun mín innan menntageirans síðan í tíunda bekk hefur verið tekin: stærðfræði í HÍ er næst á dagskrá.
Á útskriftinni héldu margir menn, vafalaust nafntogaðir á ýmsa og frækilega lund, langar og frækilega nafntogandi ræður á hendur Menntaskólanum, nemendum hans og sjálfum sér. Fyrir inspectorssetuna fékk ég pakka af bókum, nafn hverra var einhver útgáfa af "Minningar úr Menntaskólanum, x-ta bindi", og voru þær án alls efa gefnar mér í þeim eina tilgangi að ég gæti haldið álíka langar, keimlíkar og nafntogandi ræður á hendur Menntaskólanum og nemendum hans þegar ég skríð upp í pontu veðraður og ónýtur af ellislitieftir sjötíu ár.
Hefur þessi hefð vafalítið viðgengist í mörg árhundruð, og viðhaldið bæði stöðlunargildi ræðnanna annars vegar og tryggt ákveðna lágmarkseftirspurn eftir minningarritum um MR.
Júbílantaballið var geigvænlega skemmtilegt, líklega einn eftirminnilegasti og hressasti atburður allrar skólagöngu minnar. Ég tvistaði við Ragnheiði Torfa, fyrrverandi rektor, og hélt ræðu um ísjaka.
Þessir "Stúdentsviðburðir" í kringum útskriftina höfðu þau mjög jákvæðu áhrif að minna mann á hversu sterk og drjúg vinaböndin sem myndast í MR geta reynst manni alla ævi. Á sama tíma minntu þeir mig á hversu mikilvægt er að rækta frændgarð skólafélaga minna sem best, svo ég megi uppskera frekari vinskaparlauk þaðan síðar.
Til hamingju með útskriftina, 6. bekkingar, og látum oss rækta lauk.
gnauð Doddi kl. 1:34 f.h. |
Maggi Lú vann Meistarann og er því ekki einungis nýbakaður forseti Framtíðarinnar og hljóðnemungur Gettu Betur heldur líka Meistarinn. Titlasöfnun mannsins virðist ekki þekkja nein takmörk, ef til vill verður hann fyrsti forseti Sólkerfisins áður en yfir lýkur.
Vissulega geta menn ekki ráðið örlögum sínum að fullu, en þeir nýta tíma sinn, aðföng og hæfileika á þann hátt sem þeim sýnist. Mágurinn uppskar einfaldlega eins og hann sáði til.
gnauð Doddi kl. 1:07 f.h. |
Ágúst Ólafur: "Þið hafið gerst sekir um gríðarleg hagstjórnarmistök, skattbyrði hinna lægst launuðu hefur stóraukist á tíma þessarar ríksstjórnar. Þetta segja Glitnir, ASÍ, BSÍ, TBR, DAS, NSDAP, CCCP og Hemmi Gunn. Þessu ætlar Samfylkingin að kippa í lag komist hún í stjórn."
Árni Matthiessen: "Hefur skattbyrðin aukist? Það er bara ekki satt. Þú lýgur."
Fréttamaðurinn glottir eins og Sólheimabúi sem ljær honum afslappaðan en miður gáfulegan svip.
Hvernig getur þetta gerst? Annað hvort hefur skattbyrðin aukist eða ekki. Svona dæmi um misræmi í fullyrðingum um einfaldar, hagfræðilegar stærðir eru óþægilega algeng. Maður veit satt best að segja ekki hver hefur rétt fyrir sér, og landsmenn ákveða að lokum að trúa þeim sem er með flottasta bindið og kjósa flokkinn hans. Ekki vanmeta mátt vel valins bindis í nútímastjórnmálum á Íslandi.
Þegar fólk dregur pósítívískar, vísindalegar fullyrðingar niður í svað stjórnmálaþvælings er mér næst að gubba á köttinn minn.
gnauð Doddi kl. 9:01 e.h. |
Ef ég hrauna á mig í prófunum er það þessari síðu og litla gyðingnum sem andsetur hana að kenna.
gnauð Doddi kl. 1:07 f.h. |
Næsta hrörnunarstigi mínu hefur verið náð. Ég er kominn með mæspeis (smella á titil). Líflátshótanir berist til Laugarásvegar 13, miðhæðina (vinstri lúguna).
Stúdentsprófin eru byrjuð, en því ærnara er tilefni þess að vippa sér út um mánahlið ímyndunaraflsins í bloggheima. Ég spái sílækkandi pH-gildi bloggpistla því lengra sem liðið er á próftímann.
Lag dagsins: Monasteria de Sal með flamíngógítarleikaranum Paco de Lucía.
Tilvitnun dagsins: "Science is like sex. It may produce some practical results, but that's not why we do it." -Richard Feynman,
Kvikmynd dagsins: Munich.
Fugl dagsins: geirfugl.
Maður dagsins: Jónatan,
Stúdentspróf dagsins: Hagfræði.
Frumefni dagsins: kóbalt.
Fornhetja dagsins: Afbélnir frá Litlu-Þröm.
gnauð Doddi kl. 2:13 f.h. |
Ákvörðun Planckfasta
Tilgangur:
Ákvörðun Planckfasta með mælingu á orku rafeinda sem losna frá málmi við áhrif ljóss.
Fræði:
Orka ljósrafeindar (rafeindar sem sleppur frá málmi við ljósröfun) er aðeins háð lausnarorkunni Φ (þeirri lágmarksorku sem þarf til að slíta rafeindina frá málminum) og tíðni ljóssins sem losar hana. Styrkur ljóssins skiptir engu. Þessum hrifum er lýst með eftirfarandi jöfnu:
E = hf = h(c/f)
Hér er E orka ljóseindar, f er tíðni ljóssins, h er Planckfastinn, c er hraði ljóss í tómi. Hámarkshreyfiorka sem ljósrafeind losuð af ljósi með tíðni f getur haft er:
Kmax = hf – Φ.
Í þessari tilraun var notast við ljósnema með tveim
málmsktautum. Katóðan missir rafeindir við ljósröfunina,
og þá svífa þær yfir á anóðuna. Þetta ferli stöðvast þegar
A: anóða K: katóða V: spennumælir M: magnari
spennan milli anóðu og katóðu er jöfn mestu hreyfiorku
rafeindanna sem ljósið losar. Þá gildir:
Kmax = eVþ
Þetta gefur okkur:
eVþ = hf – Φ <=> Vþ = (h/e)f – (Φ /e) (1)
Við gerum því mælingar á þessari hámarksspennu við mismundandi tíðnir ljóss, í þessu tilviki frá litrófi kvikasilfursljóss. Við teiknum síðan graf af þröskuldsspennu sem falli af tíðni og finnum Planckfastann út frá hallatölu þess
Framkvæmd:
Kvikasilfursljósið er greint upp í litróf sitt með raufagleri
og ljósnemanum snúið um punkt til að skynja mismunandi
litrófslínur eins og gefið er til kynna á myndinni t.v.
Hámarksspennan var svo mæld með spennumæli fyrir
nokkra af greinilegustu litum litrófsins og graf gert úr
niðurstöðunum:
Litur | Öldulengd (nm) | Tíðni (THz) | Þröskuldsspenna (V) |
Fjólublátt 2 | 578 | 519 | 0,737 |
Fjólublátt 1 | 546 | 549 | 0,864 |
Blátt | 436 | 688 | 1,451 |
Grænt | 405 | 741 | 1,661 |
Gult | 365 | 822 | 1,951 |
Úrvinnsla:
Af grafinu má sjá að hallatalan er 0,00405 svo h (Planckfastinn) er skv. jöfnu (1) 0,00405*e = 0,00405*1,6-19*(10-14 Hz/THz) = 6,48*10-36 Js. Finnum síðan skv. jöfnu (1) og grafinu að ofan að Φ = 1,35*e = 2,16*10-19 J.
Hlutfallsóvissa á h = Δslope/slope = (7,99*10-5)/(0,00405) = 2%. Viðurkennt gildi h er 6,626*10-34, en mælt gildi þessu sinni er (6,626-6,48)/6,626 = 2,2% frá viðurkenndu gildi. Hlutfallsóvissa á Φ = Δy-skp./y-skp. = 0,0538/1,35 = 4%.
Ljóst er að tilraunin nær nokkuð vel réttum gildum þó þau séu utan óvissumarka.
gnauð Doddi kl. 1:37 f.h. |
gnauð Doddi kl. 12:33 f.h. |
Ég var í mat hjá Pabba hið örlagaríka kvöld sem úrslitin úr íbúakosningunum voru kunngjörð, en hann býr einmitt í Hafnarfirði. Húskarlar og búandlið þess bæjar kaus gegn stækkun álversins. Ekki munaði nema 0,6% á fylkingum sem verður að teljast mjög lítið.
Skiptar skoðanir eru um ákvörðun bæjarstjórnar að halda íbúakosningu í málinu. Vissulega er þetta þægileg, pópúlísk leið fram hjá erfiðri ákvörðun sem setur aukritis lýðræðisástarstimpil á meirihlutann í Hafnarfirði.
Beint lýðræði er mjög sjaldgæft á Íslandi, enda vandmeðfarið skrýmsl á marga lund. Áróðursherferðir hagsmunaaðila kappkosta við að færa vanþekkingu skrílsins sér í nyt. Þá getur kennt aflsmuna (fjármuna) keppenda í millum, en sá sem prentar flottari bleðla á þykkari glanspappír fær kúlistastig umfram hinn.
Ef skríllinn gerist hins vegar vel upplýstur almenningur horfir þetta öðruvísi og mun betur við.
Ég skal ekki fullyrða hvað er rétt og rangt í þessu einstaka máli, en lífleg umræða og geysimikil þáttaka (meiri en í bæjarstjórnarkosningunum!) einkenndu málaferlin. Heldur skal ekki fullyrt að allar kappræður og deilur hafi verið háðar á þeim forsendum að koma óbjöguðum upplýsingum til almennings.
En er þetta ekki mjög töff? Jón Sigurðsson, ráðherra vor ástkær og frómur, vill meina að bæjarstjórnin sé ekki bundin af kosningunni frekar en hún vilji. En hver gengur gegn úrskurði íbúakosningu? Það yrði alla vegana ekki vinsælasta hugdetta ársins, svo mikið er víst.
Hvað segja spekúlantar? Er þetta byrjun á uppgangi beins lýðræðis hér á landi? Eða einungis hlálegt dæmi um fáfræði lýðsins og vald áróðursmeistara yfir þönkum hans?
gnauð Doddi kl. 5:44 e.h. |
Þetta blogg hefur verið dautt í aldaraðir. Ég hefi, sem aðrir, hlegið yfir líki þess um nokkurt skeið, en er nú loks í skapi til að vekja það upp frá dauða með svartagaldri. Ég býst ekki við að margir lesi þetta blogg, þar sem flestir gömlu lesendanna eru löngu búnir að gefast upp á að pota í líkið með vef-priki sínu, en hér kemur pistill.
Í dag er 25. mars, 10 apríl er stúdentspróf í íslenskum fræðum, og 25. apríl er dimissio. Á þeim degi kasta ég valdakeflinu til næsta manns og kem til með að djöfsast um öngstræti Reykjavíkur í múmíubúningi, sic transit gloria mundi. Þetta hefur verið mjög viðburðaríkt og skemmtilegt ár, en það verður að viðurkennast að seta í Inspectorsstólnum fer illa með rasskinnarnar, þ.e.a.s. vinstri rasskinn ræktar við frændgarð vina sinna og hægri rasskinn ræktar við lendar Menntagyðjunnar. Eftir ánægjuleg og upplífgandi rassaköst í heilt ár get ég sáttur skilað stólnum til næsta manns svo hans botn megi einnig glíma við flauel valdanna.
En nú bresta stúdentsprófin brátt á. Vonandi þarf ég ekki að gjalda allra synda minna þar, og mun ég vera sjálfum mér samkvæmur í viðleitni minni við að sleppa við réttan dóm þar sem annars staðar, sé hann mér ekki í vil. Nú mun tíminn einfaldlega leiða í ljós hvort mér tekst að beygja námsefni fjögurra vetra að vilja mínum. Ég trúi því statt og stöðugt að svo takist, að minnsta kosti að nokkru leyti.
Þessi orð eru vafalítið mælt út í vindinn, þar sem enginn les þetta blogg lengur (og það með réttu). Því lofa ég þeim fyrsta sem kommentar mars-stykki og þeim tíunda shiatsu-nuddi, enda tel ég engar líkur að til aflesturs textans komi...
Ég hef mælt.
gnauð Doddi kl. 11:47 e.h. |