Friðgeir
Einu sinni var til þjóð einöngruð í Alpafjöllunum sem fann leið til að brugga drykk sem færði alla heimsins hamingju þegar hann var drukkinn. Allir fögnuðu þessari uppfinningu, og drukku. Nokkrum öldum síðar kom ferðalangur í fjalladal þjóðarinnar, og við honum blöstu furðulegar mannverur. Öll höfðu þau flösku við mjöðmina. Þau voru svifasein í hugsun og hreyfingum, og syfjulegt glott þakti þann hluta andlitsins sem ekki innihélt letileg augnlokin utan um heimsk augun. Þau voru klædd í ull, og bjuggu í kofum. Þau þurftu ekki að afla sér matar, fyrir því sá drykkurinn góði. Hver þarf að vinna ef hann er alltaf hamingjusamur? Tækni takmarkaðist við brugghúsið þar sem drykkurinn var búinn til í stórum potti. Til hvers að rannsaka heiminn? Heimurinn var í flöskunni.
Ef slíkur drykkur væri til, vildum við drekka hann? Mér er spurn. Myndi þá ekki allt sem er glæsilegt í manninum deyja út? Þó leita margir að slíkri lausn á lífinu. Í mínum huga hlýtur gleðin alltaf að vera fólgin í leitinni (upp að vissu marki), sama í hvaða átt menn beina afli sínu. Vísindi, félagslíf, listir og sköpun eru meðal margra árfarvega til þessa. Maðurinn þarf ekki árós, eða að týna sjálfum sér í einhverju ímynduðu hafi. Hann þarf að streyma!
Annars er ég orðinn mjög viss um að ég ætla í eðlisfræði í háskólanum.
Eftir djammið krýp ég við fætur mennagyðjunnar og svala mér úr blákaldri lind vísindanna. Ójá, það verður sko djamm aldarinnar! Sviðsjöfnur og líkindadreifð tvinntalnagreining… ég er strax byrjaður að slefa.
En jájá, Árshátíðin var vel heppnuð, held ég. Árshátíðarvikan var geðveik (vil ég meina) og sjálft ballið nokkuð töff. Það er þó leiðinlegt löggan banni að hafa þetta lengur en til eitt. Þið getið þó huggað ykkur við það, kæru lesendur, að við í Hagsmunaráði erum með löffara (lögfræðing) í málinu, og höfum fengið borgarstjórn með okkur í lið. Vonandi er þetta bara tímaspursmál.
Nú beini ég þó spurn til lesenda: Hvurnig var Há-Árstíðin? Blæs slúðurlúðurinn?
|