þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Danmerkurferðin

Þar sem þrír heiðursmenn hafa hvatt mig til frjálslegri skrifa kemur hér frjálslegt skrif.

Miðvikudaginn 3. júlí fórum við Einar Óskarsson og ég (ef mig skyldi kalla) til Danmerkur. Dvöl Einars verður um nokkuð lengri en mín, því hann mun stunda nám við Idrethǿjskolen i Brǿnderslev til jóla.

Þá fannst okkur góð hugmynd að flippa saman í fjóra daga áður en hann héldi til nyrðra Jótlands, enda var það ástæðan fyrir ferðinni.
Okkur tókst að redda frábæru hóteli á afargóðum (n.b. afargóðum í einu orði sem áherzluauki) kjörum, þ.e.a.s. 250 kr. beynskar á nóttina. Ferðin var yndisleg á alla kanta, við röltum talsvert oft upp og niður Strikið, og auk þess stunduðum við allthvaðþúetakanntflatbökuhlaðborð helzt til grimmt. Um leið og heim var komið hóf ég matarafeitrun, sem sagt sneri ég mér alfarið að fiskáti.
Næturlífið í Kǿben var afar skemmtilegt, talsvert afslappaðra en það í Reykjavík. Kórvanir muna ef til vill eftir snilldarkaraókítöktum Kára Sighvats á Sam's bar í kórferðinni fyrr í sumar. Dönsku hnakkarnir sem komu fram að þessu sinni stóðu sig vel, en þó efast ég um að þeir státi Kára í sveittri sviðsframkomu og einskærri geðveiki..
Síðasta kvöldið okkar endaði á að verða það bezta. Þá fundum við loksins að kveldlagi borgarhjól okkur til afnota og yndisauka. Kvöldmatnum var frestað vegna hjólafundsins, en borgarhjólin eru nær alltaf upptekin, og hjólað var um öngstræti Kaupinhafnar í góða tvo tíma. Það var ekki fyrr en í þessum hjólatúr sem ég áttaði mig á hve ótrúlega falleg borg Kaupmannahöfn er. Sérstaklega man ég eftir bronzstyttu af engli niðri við höfnina, rétt hjá Litlu Hafmeyjunni. Þetta var í ljósaskiptunum, og við höfðum gleymt myndavélinni á hótelinu. Við áttuðum okkur á að við myndum ekki ná til baka fyrir myrkur, svo engar myndir náðust. Sem er synd.
Einar fór til Jótlands með lest klukkan ellefu næsta dag, og eftir að hafa fylgt honum að lestinni vissi ég ekki svo vel hvað ég ætti að gera af mér. Þá ákvað ég, í brjálsemis-og flónskukasti að fara strax á flugvöllinn, og lesa þar Karamazoff-bræðurna þar til flugvélin færi um ellefu að kveldi.
Þangað fór ég, og átti í hrókasamræðum um ekkert við leigubílsstýruna á leiðnni. Að sjálfsögðu gat ég ekki skráð mig inn svo snemma dags, svo ég neyddist til að bíða á ytri flugstöðinni í rúma sex tíma. Þar lummaðist ég um hina ýmsu járnbekki og leðurstóla er ég sökk dýpra og dýpra í Dostojeffsky, og var lesturinn aðeins truflaður af stuttum spássítúrum með ákveðnu millibili svo ekki færi að blæða úr legusárunum.
Öllum verð ég að ráðleggja að lesa þessa bók, því hún er ææði. Ég mun ekki kasta skömm á bókina með hjákátlegum tilraunum til lofsöngs, frekar læt ég það öðrum mönnum mér betri og gáfaðri eftir.
Á endanum var flugvélinni svo seinkað um tvo tíma, en ég var svo heppinn að hitta vinkonu mína úr Menntaskólanum, og iðkaði þar langþráðar mannlegar samræður eftir ellefu tíma grúfu og þanka. Svo lenti ég í Saga-klassasætum, en þau þykja fremur öðrum fluvélasætum hönnuð fyrir mannskepnur, en ekki Rhódesíska kast-dverga.
Já, og í Danmörku hafði ég keypt mér iPod (hljóðkút á Hellsku), en hann var mér því miður gagnslaus í Hinni Miklu Bið, verandi tómur.

Æðisleg ferð.

Getur einhver annar þýtt Ultramontanism yfir á íslensku? (nema Þossi, því ég hefi sagt honum frá hugtakinu)