þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Menntaskólinn að Lækjarhnjúkum

Skólinn er settur, bekkirnir hafa verið skipaðir og morkinskinnurnar þeytast út úr prenturunum. Skólasetningardagurinn var bráðskemmtilegur en mjög hektískur. Líst ágætlega á bekkinn, að sjálfsögðu eru ekki bara súrrandi fleppaðar manngerðir á eðlisfræði eitt, en við öðru mátti ekki búast. Við lentum í góðri stofu á jarðhæð Gamla Skóla með góða kennara. Vesalings Ármann Jakobs, hið andlega skrúðfygli, sem bað um að kenna sömu bekkjum og í fyrra á þessu ári fékk sömu bókstafi. Þannig eru aðeins sárafáir úr 4.X í 5.X, en Ármann er að mestu leiti fastur með svitfeitla nerði, þar á meðal mig. Sem þruma úr heiðskíru lofti kom sú staðreynd að ekkert var sett fyrir í stærðfræði á fyrsta degi. Lognið á undan storminum, býst ég við.

Frááábært að hitta elsku MR-ingana aftur, í allri sinni dýrð og fjölbreytileika; fjölbreytileika sem líkist vafalítið því er einfættur dvergur á þríhjóli neytir sýru er hann lítur gegnum hviksjá á sólarlag í Indusdal.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Áskorun

Mikið finnst mér fyndið hvað stelpur fá miklu fleiri komment á síður sínar en strákar. Þetta hefur í sjálfu sér ekkert með gæði skrifana eða venslaþensl höfundarins, einungis það að stúlkur eru duglegri að merkja við hjá vinkonum sínum. Toppurinn er þó líklegast síðasta færsla hæstvirtrar Arngunnar, með 31 athugasemd. Sem eru álíka margar og flestir strákar fá um eins árs tímabil.

Arngunnur. Ef þú nærð hundrað, já hundrað athugasemdum á færslu, skal ég marséra upp og niður Vonarstræti klæddur sem sæbjúga.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Bamboocha

Bamboocha, auglýsingaherferð Fanta, var að miklu leyti algert flopp. Drekkum Fanta, verum Bamboocha kveikir ekki á neinni peru hjá mér eða nokkrum sem ég þekki, en þó fannst mér merking orðsins Bamboocha afar skemmtileg. Þar sem eyjaskeggjarnir í auglýsingunni töluðu afbjagaða og óskiljanlega ensku skal ég hér betra ensku þeirra.

Maður nálgast hawaiiíska eyju á einæringi, glaðhlakkalegur með bústið afró. Annar maður, líkur í útliti, þó feitari, heilsar honum hlæjandi:

[þar sem ég man ekki nöfn mannanna í auglýsingunni bý ég til ný.]

"Hail, Ulysses. I have hither come from the sundering seas to inquire of thee if thou, in thine magnificent generosity and noble spirit, wouldst join me to voyage upon yon ocean in mine humble flagship?

Well met and hail to thee also, brave Prometheus, my portly friend. Indeed, it is a day in which one wouldst enjoy frolicking upon the courts of Poseidon, and the Sun God smileth, and beeth at great joy, for he showest us his radiant face upon this third day of the month of the Aardvaark. Speak to me then, O Prometheus, whither hast thou bethought thineself to sail yon boat?

No place have I reckoned in this respect, Great Ulysses, nor a waterway through which to navigate thenceforth. Nay, I wish only to meander and mirthfully sing "Wheeeee". This musing beeth beknownst to me as Bamboocha.

Aye? I must tell thee, mighty Prometheus, that though I have sailed the sundering seas, defeated the enchantress Minax and eaten dragon brains, I have not in all of mine numerous exploits encountered this expression. I beg of thee, O wise Prometheus, bespeak unto me its meaning, that I might glean knowledge!

Indeed, fabulous Ulysses, I shall explain to that Bamboocha meaneth to eat life with a large spoon!"

Þetta er ansi gott mottó: éta lífið með stórri skeið. Akkúrat! Lifa lífinu lifandi.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Heilagur Jóhannes Kristostóm og hans litúrgía sé með oss!

Sumir hafa sagt íslendinga hafa keimlíka tónlistarsál Rússum. Þetta myndi útskýra hve vel öðrum þjóðum þykja Íslendingar spila Síbelíus, jafnvel jafn vel og Finnar. Reyndar er Síbelíus finnskur, en athygli skal vekja á að Finnar eru allúgrískir, en úgríska er aðeins gríska með ú-i skeyttu framan við, og Rússar eru jú grískt-orþódoxkir. Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er hversu beinu sambandi ég næ við t.d. Tchaikoffsky og Rachmaninov, eða bara rússnesk þjóðlög og flotta rússneska /fyrrv. sovétríska kóra.

Ef til vill mætti kalla þetta "hina Norrænu sál"? Reyndar verð ég að taka hin goðmögn tónskriftanna með í reikninginn, en eins og flestir ættu að vita voru flest þeirra ekki rússnesk.
Þau verk Rachmaninovs sem ég ætlaði að minnast á fyrr í færslunni eru Vespers Op. 37 og Liturgy of St. John Chrysostom, Op. 31, eða Kvöldsöngvar og Tíðagjörð Heilags Jóhannesar hins Gullmynnta (já, án gríns). Verkin syngja Dumka, ríkiskór Úkraínu, og hinn Sinfóníski ríkiskór Rússlands.

Þessi verk tengja sig beint í hjartað í mér, svo ekki sé meira sagt. Ég er ennþá að leita að diski með karlakór St. Basilskirkjunnar sem söng hér um árið.

Svo er skyr líka gott.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Óhagstæður samanburður

Æ hvað mér þykir leiðinlegt að kunna ekkert á bloggsíður... Ég var að skoða hina nýbökuðu, glansandi síðu Arngunnar (konungleg fleirtala ætti hér við) og sá í einni hendingu hvu hjákátleg mín eigin er. Lengi hef ég öfundað Arngunni af því að vera skemmtilegri bloggari en ég, en þetta var sem olíusletta á brennandi múlasna.
Nú er hennar líka orðin ýkt kúl! Ég íhuga að setjast í helgan stein...

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Úje



Hér sit ég í náttslopp og fönka af áfergju
Góstbösterslagið á gítarinn...

Da es etwas fremdes
in deiner Nachbarschaft ist
welche rufst du an?
Geisterjägern!

Geister fürchten mir nicht, je.

Hú ha

Ú

A

Ef ég fæ ekki að dansa úr mér nýrun innan skamms missi ég vitið!

Fönkíheit komast greinilega illa til skila gegnum ritmál, en þið skiljið hvað ég er að hugsa.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Danmerkurferðin

Þar sem þrír heiðursmenn hafa hvatt mig til frjálslegri skrifa kemur hér frjálslegt skrif.

Miðvikudaginn 3. júlí fórum við Einar Óskarsson og ég (ef mig skyldi kalla) til Danmerkur. Dvöl Einars verður um nokkuð lengri en mín, því hann mun stunda nám við Idrethǿjskolen i Brǿnderslev til jóla.

Þá fannst okkur góð hugmynd að flippa saman í fjóra daga áður en hann héldi til nyrðra Jótlands, enda var það ástæðan fyrir ferðinni.
Okkur tókst að redda frábæru hóteli á afargóðum (n.b. afargóðum í einu orði sem áherzluauki) kjörum, þ.e.a.s. 250 kr. beynskar á nóttina. Ferðin var yndisleg á alla kanta, við röltum talsvert oft upp og niður Strikið, og auk þess stunduðum við allthvaðþúetakanntflatbökuhlaðborð helzt til grimmt. Um leið og heim var komið hóf ég matarafeitrun, sem sagt sneri ég mér alfarið að fiskáti.
Næturlífið í Kǿben var afar skemmtilegt, talsvert afslappaðra en það í Reykjavík. Kórvanir muna ef til vill eftir snilldarkaraókítöktum Kára Sighvats á Sam's bar í kórferðinni fyrr í sumar. Dönsku hnakkarnir sem komu fram að þessu sinni stóðu sig vel, en þó efast ég um að þeir státi Kára í sveittri sviðsframkomu og einskærri geðveiki..
Síðasta kvöldið okkar endaði á að verða það bezta. Þá fundum við loksins að kveldlagi borgarhjól okkur til afnota og yndisauka. Kvöldmatnum var frestað vegna hjólafundsins, en borgarhjólin eru nær alltaf upptekin, og hjólað var um öngstræti Kaupinhafnar í góða tvo tíma. Það var ekki fyrr en í þessum hjólatúr sem ég áttaði mig á hve ótrúlega falleg borg Kaupmannahöfn er. Sérstaklega man ég eftir bronzstyttu af engli niðri við höfnina, rétt hjá Litlu Hafmeyjunni. Þetta var í ljósaskiptunum, og við höfðum gleymt myndavélinni á hótelinu. Við áttuðum okkur á að við myndum ekki ná til baka fyrir myrkur, svo engar myndir náðust. Sem er synd.
Einar fór til Jótlands með lest klukkan ellefu næsta dag, og eftir að hafa fylgt honum að lestinni vissi ég ekki svo vel hvað ég ætti að gera af mér. Þá ákvað ég, í brjálsemis-og flónskukasti að fara strax á flugvöllinn, og lesa þar Karamazoff-bræðurna þar til flugvélin færi um ellefu að kveldi.
Þangað fór ég, og átti í hrókasamræðum um ekkert við leigubílsstýruna á leiðnni. Að sjálfsögðu gat ég ekki skráð mig inn svo snemma dags, svo ég neyddist til að bíða á ytri flugstöðinni í rúma sex tíma. Þar lummaðist ég um hina ýmsu járnbekki og leðurstóla er ég sökk dýpra og dýpra í Dostojeffsky, og var lesturinn aðeins truflaður af stuttum spássítúrum með ákveðnu millibili svo ekki færi að blæða úr legusárunum.
Öllum verð ég að ráðleggja að lesa þessa bók, því hún er ææði. Ég mun ekki kasta skömm á bókina með hjákátlegum tilraunum til lofsöngs, frekar læt ég það öðrum mönnum mér betri og gáfaðri eftir.
Á endanum var flugvélinni svo seinkað um tvo tíma, en ég var svo heppinn að hitta vinkonu mína úr Menntaskólanum, og iðkaði þar langþráðar mannlegar samræður eftir ellefu tíma grúfu og þanka. Svo lenti ég í Saga-klassasætum, en þau þykja fremur öðrum fluvélasætum hönnuð fyrir mannskepnur, en ekki Rhódesíska kast-dverga.
Já, og í Danmörku hafði ég keypt mér iPod (hljóðkút á Hellsku), en hann var mér því miður gagnslaus í Hinni Miklu Bið, verandi tómur.

Æðisleg ferð.

Getur einhver annar þýtt Ultramontanism yfir á íslensku? (nema Þossi, því ég hefi sagt honum frá hugtakinu)

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Spádómur.

Eldur og brennisteinn! Asni Bíleams hefur mælt.

Blogg þetta er rotið. Já, líkt og Sódómu var til forna mun því verða tortímt af bræði Abaddons séu róttækar breytingar ekki í nánd.

Síðan þjáist af litleysi og athyglisskorti, en þó mest af ófrýnilegu andleysi höfundarins, sem kreistir út úr sér hvert sódómítaafstyrmið á fætur öðru, aðeins til að sprikla skakklepptum útlimum í skamma stund áður en þeir lemstrast í leðjuflóði erfðasyndarinnar.

Og minnist konu Lots, sem varð að saltstólpa er hún horfði yfir öxl sér á sauruga borgina rifna í sundur í heiftarlegri eldgeðveiki!

Horf ei til baka, heldur flý. Flý, og lítið aðeins til framtíðar, og þekkið aðeins vonina! Von um betri bloggfærslur í framtíðinni!

Síðan rær lífróður upp Viktoríufossa, Viktoríufossa úr hrauni og höfuðkúpum syndaranna!