Tölfræði
Ég las bók eftir hann fyrir tveim árum, „Fooled by randomness“. Mjög skemmtileg og mjög uppljómandi.
Taleb setur hér fram sprenghlægilega samlíkingu, en hún inniheldur líka skuggalega mikilvægt sannleikskorn í samhengi fjármálakrísunnar.
Vei þeim spyrðnu ættlerum sem espa skrílinn gegn sólkonungnum!
gnauð Doddi kl. 4:05 e.h. |
Ég mætti á fyrstu æfingu hjá Mótettukórnum í gær - ótrúleg upplifun!
Þrátt fyrir að eiga 4 ár í kór að baki fannst mér eins og ég hefði aldrei verið í kór áður þegar ég heyrði fyrst hljóminn í upphituninni. Ég hef aldrei verið hluti af kórhljóm sem er svona öflugur, hreinn og fallegur. Yfirferðin var miklu hraðari en ég á að venjast úr MR og Háskólakórnum, en það var allt í lagi - í raun alveg mátulegt. Þar að auki voru allir í kringum mig svo öruggir að ég gat bara slappað af og vandað mig við að syngja og passa inn í hljóminn.
Til dæmis reyndi ég að hlusta eftir röddinni í gaurnum við hliðina á mér, en ég gat ekki greint röddina hans því hljómurinn í bassanum var svo samstilltur!
Háskólakórinn er fínn fyrir það hlutverk sem hann ætlar sér, en ég mun aldrei geta litið hann sömu augum eftir æfinguna í gær.
Hvílík snilld! Ég get varla beðið eftir næstu æfingu...
gnauð Doddi kl. 8:24 e.h. |
Ég heyrði skemmtilegan lítinn þátt á BBC áðan (sjá tengil í titli þessarar færslu). Í þessu stutta lýsir prófessor niðurstöðum rannsóknar sinnar á fylgni ákveðinna persónueiginleika og tónlistarsmekks viðkomandi.
Karlinn vill meina að aðdáendur þungarokks og klassíkur eigi margt sameiginlegt, og að aldursmunurinn sé oft það helsta sem skilur að (yngra fólk hlustar frekar á rokk, eldra á klassík).
Mér finnst ég skilja hvað karlinn er að fara; sjálfur kynntist ég tónlist gegnum þungarokk á sínum tíma og er nú mikill aðdáandi klassískrar tónlistar mörgum árum síðar. Auðvitað er þungarokk ekki það sama og þungarokk, en í því þungarokki sem ég hef hlustað á (t.d. Muse og Iron Maiden) vil ég meina að ég skynji sama frumefnið og þeirri klassík sem ég hef mest dálæti á (t.d. sinfóníur Beethovens og Bruckners, flestallt eftir Rachmaninoff og Chopin).
Benni Kristjáns félagi minn, fyrrum rokkhundur og forfallinn unnandi góðs þungmálms, er nú á góðri leið með að verða klassískur söngvari að atvinnu - einhvernvegin er þetta ekki svo óeðlileg þróun mála í mínum huga...
Ég hugsa að ákveðinn smekkur fyrir ákveðinni epík, ofsa og melódískri fegurð gætu verið sameiginlegir þættir meðal unnenda þessara tónlistarstefna. Þetta er auðvitað ekki sama tóbakið, en skiljiði ekki samt hvert ég er að fara?
gnauð Doddi kl. 10:57 e.h. |
Í morgun fékk ég bréf frá American Chemical Society með boði um inngöngu. Ég gúglaði samtökin, og þetta virðast vera ósköp venjuleg samtök bandarískra efnafræðinga sem auðvelda efnafræðingum að hitta og kynnast öðrum efnafræðingum og ýta undir akademískt samstarf þeirra á milli.
Hvernig dettur þeim í hug að senda stærðfræðinema á Íslandi boð í félag fyrir fólk með háskólagráðu í efnafræði?
gnauð Doddi kl. 11:48 f.h. |
Ég komst inn í Mótettukórinn.
Fagnaðarlæti mín samanstóðu af hádegismat (sem ég tími venjulega ekki að kaupa), bíóferð og öðru álíka epísku.
Hvað varðar hásæti Goðanna, og hvort þau hafi skolfið frammi fyrir dýrð fögnuðarins, þá hef ég ekkert heyrt í guðunum varðandi það ennþá. Geri því ráð fyrir að þeir séu ennþá í sjokki.
gnauð Doddi kl. 1:01 f.h. |
Í síðustu viku þreytti ég inntökupróf í Mótettukórinn. Ég hef ennþá ekkert heyrt í kórstjóranum og er, satt best að segja, ekkert sérstaklega vongóður um inngöngu. Það kemur auðvitað allt í ljós á næstu dögum (ég er mjög spenntur að vita hvort þumallinn snýr upp eða niður), en það væri svo sem engin heimsendir að komast ekki inn - þá held ég bara áfram í Háskólakórnum og syng Messías eftir Händel í nóvember.
Ef ég á hinn bóginn kemst inn munu drunur fögnuðar míns skekja hásæti goðanna.
--
Ég er nýkominn heim af Sinfóníutónleikum. Fór heim í hlénu, þar sem ég fór gagngert til að hlusta á fyrri hlutann. Verk kvöldsins var fiðlukonsert Tsjaíkoffskýs (og forleikur þar á undan) - mikið uppáhaldsverk þar á ferðinni. Mér er sagt að einleikarinn sem spilaði þyki besti fiðuleikari heims um þessar mundir.
Hann var vissulega mikill snillingur. Ég á verkið með Berlínarfílharmóníunni og Vengeroff. Þar er líklega hljóðversútgáfa á ferðinni. Vengeroff sletti sér meira (á góðan hátt), en þessi var fágaðri. Á hinn bóginn var þessi (man ekki hvað hann heitir) nokkuð oft óhreinn, og mér fannst hann stundum ekki ráða alveg við þann hraða sem hann valdi sér. Á heildina litið stóð hann sig alveg frábærlega, þetta voru bestu tónleikar sem ég hef farið á lengi (enda verkið líka geðveikt).
--
Ég las áðan grein Hafsteins Gunnars Haukssonar á deiglunni.com, þar sem hann lýsir Sambandi íslenskra framhaldsskólanema.
Skrýmsli eru merkileg fyrirbæri. Sauron hinn mikli hóf feril sinn í leit að völdum til að koma góðu til leiðar. Hann sóttist sífellt eftir meiri völdum og áhrifum, og fljótlega fóru upprunalegu hugsjónirnar að víkja fyrir nýjum, spilltum metnaði - hann var orðinn að skrýmsli.
Samband íslenskra framhaldsskólanema eru merkilegt fyrirbæri. SÍF hóf feril sinn í leit að völdum til að koma góðu til leiðar. Það sóttist sífellt eftir meiri völdum og áhrifum, og fljótlega fóru upprunalegu hugsjónirnar að víkja fyrir nýjum, spilltum metnaði - það var orðið að skrýmsli.
Ég tók svolítinn þátt í sköpun þessa skrýmslis. Upprunalega hugmyndin var að skapa framhaldsskólanemum öflugt verkfæri til að bregðast við pólítískum ásóknum á framhaldsskólakerfið, eins og okkur MR-ingum þótti t.d. frumvarp menntamálaráðherra um styttingu náms til stúdentsprófs vera. Þetta nýja sverð í höndum okkar átti að vernda ástkærar menntastofnanir okkar fyrir inngripi skilningslausra möppudýra Menntamálaráðuneytisins.
Eins og sjá má á greininni er SÍF alls ekki sverð í höndum framhaldsskólanema, heldur hefur það nú öðlast sjálfstæðan vilja og beitir sér sem pólítískt þrýstiafl á vinstri vængnum fyrir hönd allra famhaldsskólanema - svolítið eins og Röskva gerir í HÍ.
Sagan endurtekur sig. Fyrir nokkru hrundi hið fánýta, útblásna og kostnaðarsama bákn FF (Félag framhaldsskólanema) til heljar. Ekki liðu nema nokkur ár þangað til við höfðum skapað nýtt skrýmsli til að fylla í skarðið.
Sorrí, krakkar!
gnauð Doddi kl. 9:58 e.h. |