mánudagur, september 08, 2008

Klassík og þungarokk

Ég heyrði skemmtilegan lítinn þátt á BBC áðan (sjá tengil í titli þessarar færslu). Í þessu stutta lýsir prófessor niðurstöðum rannsóknar sinnar á fylgni ákveðinna persónueiginleika og tónlistarsmekks viðkomandi.

Karlinn vill meina að aðdáendur þungarokks og klassíkur eigi margt sameiginlegt, og að aldursmunurinn sé oft það helsta sem skilur að (yngra fólk hlustar frekar á rokk, eldra á klassík).

Mér finnst ég skilja hvað karlinn er að fara; sjálfur kynntist ég tónlist gegnum þungarokk á sínum tíma og er nú mikill aðdáandi klassískrar tónlistar mörgum árum síðar. Auðvitað er þungarokk ekki það sama og þungarokk, en í því þungarokki sem ég hef hlustað á (t.d. Muse og Iron Maiden) vil ég meina að ég skynji sama frumefnið og þeirri klassík sem ég hef mest dálæti á (t.d. sinfóníur Beethovens og Bruckners, flestallt eftir Rachmaninoff og Chopin).

Benni Kristjáns félagi minn, fyrrum rokkhundur og forfallinn unnandi góðs þungmálms, er nú á góðri leið með að verða klassískur söngvari að atvinnu - einhvernvegin er þetta ekki svo óeðlileg þróun mála í mínum huga...

Ég hugsa að ákveðinn smekkur fyrir ákveðinni epík, ofsa og melódískri fegurð gætu verið sameiginlegir þættir meðal unnenda þessara tónlistarstefna. Þetta er auðvitað ekki sama tóbakið, en skiljiði ekki samt hvert ég er að fara?