fimmtudagur, ágúst 14, 2008

Sumarið hingað til

Þetta blogg er eins og fönix. Með ákveðnu millibili hnígur það í öskuna, aðeins til að geysast um himinhvoltin á eldvængjum sínum á ný.

...það er kannski ekki alveg svona töff, en það hefur allavega dáið með reglulegu millibili.

Nú mun þessi uppvakningur þreyta nýjustu endurlífgunartilraun sína. Mun hún endast í meira en einn pistil? Enginn veit. Flestum er sama. Allavega:

Þetta sumar hefur verið alger snilld, að stórum hluta vegna Póllandsferðar Háskólakórsins, sem flestir Facebook-vinir mínir ættu nú að vita af eftir óteljandi tilkynningar um "Vinur þinn, Doddi, hefur verið taggaður á mynd". Bið ég hér með þá sem málið snertir forláts á þessari óhóflegu fjölmiðlun á mér af annarra hálfu.

Í stuttu máli var Póllandsferðin alger snilld. Ég hafði aldrei komið til A-Evrópu þannig að ég myndi eftir því, þó ég hafi vissulega ferðast til Júgóslavíu sem ný-fyrrverandi fóstur meðan hún var og hét (þar tók ég mín fyrstu skref, merkilegt nokk).

Einhvernveginn myndaðist ótrúlega, ótrúlega góð stemmning í hópnum, og þá sérstaklega í litlum hóp sem hékk þaðan af saman í ferðinni. Þessi hópur, sem þekktist lítið innbyrðis þegar við fórum út heldur nú reglulega sambandi - við ætlum meira að segja að borða saman á morgun.

Pólland er Evrópuríki. Sovét-Mordor-fílingurinn var aðallega sjáanlegur í úthverfum þeirra borga sem við heimsóttum, en miðbæirnir voru öllu líflegri og fallegri. Síðan skemmir náttúrulega ekki fyrir að syngja í flottum kirkjum, skoða land með jafnríka sögu (fórum m.a. í Auschwitz-Birkenau búðirnar) og upplifa allt þetta með jafnskemmtilegum hóp.

Síðan þá hef ég unnið eins og maur á amfetamíni hjá litlu sprotafyrirtæki sem heitir Amivox. Þetta er alger snilldarvinna, en hún er mjög krefjandi á tíma og orku - ekkert letilíf þar, skal ég segja ykkur.

Ég sótti um þessa vinnu þegar ég fattaði að ég myndi ekki fá vinnu hjá álverinu á Grundavinnu, og er mjög ánægður með þá niðurstöðu núna eftir á.

Ég er farinn að hlakka hressilega til að byrja aftur í Háskólanum, en því miður djammaði ég ekki nógu mikið með eðalmeisturunum Gunna Helga, Geiri Atla og Lenu í fyrra. Ekkert þeirra verður Frónvegis næstæris, svo ég verð að leita annarra ölkeldna ef ég hygst aflétta þeirri sumbleklu sem hefur einkennt félagslíf (félagsdauða?) minn á síðasta ári... Ég tek því bara sem áskorun.

Þessi pistill er orðinn nógu langur. Ef þú ert ennþá að lesa hrósa ég þér fyrir andlegt úthald. Ef til vill birti ég hér fleiri slíkar þrekæfingar á næstuni.