Jæja
Þetta blogg hefur verið dautt í aldaraðir. Ég hefi, sem aðrir, hlegið yfir líki þess um nokkurt skeið, en er nú loks í skapi til að vekja það upp frá dauða með svartagaldri. Ég býst ekki við að margir lesi þetta blogg, þar sem flestir gömlu lesendanna eru löngu búnir að gefast upp á að pota í líkið með vef-priki sínu, en hér kemur pistill.
Í dag er 25. mars, 10 apríl er stúdentspróf í íslenskum fræðum, og 25. apríl er dimissio. Á þeim degi kasta ég valdakeflinu til næsta manns og kem til með að djöfsast um öngstræti Reykjavíkur í múmíubúningi, sic transit gloria mundi. Þetta hefur verið mjög viðburðaríkt og skemmtilegt ár, en það verður að viðurkennast að seta í Inspectorsstólnum fer illa með rasskinnarnar, þ.e.a.s. vinstri rasskinn ræktar við frændgarð vina sinna og hægri rasskinn ræktar við lendar Menntagyðjunnar. Eftir ánægjuleg og upplífgandi rassaköst í heilt ár get ég sáttur skilað stólnum til næsta manns svo hans botn megi einnig glíma við flauel valdanna.
En nú bresta stúdentsprófin brátt á. Vonandi þarf ég ekki að gjalda allra synda minna þar, og mun ég vera sjálfum mér samkvæmur í viðleitni minni við að sleppa við réttan dóm þar sem annars staðar, sé hann mér ekki í vil. Nú mun tíminn einfaldlega leiða í ljós hvort mér tekst að beygja námsefni fjögurra vetra að vilja mínum. Ég trúi því statt og stöðugt að svo takist, að minnsta kosti að nokkru leyti.
Þessi orð eru vafalítið mælt út í vindinn, þar sem enginn les þetta blogg lengur (og það með réttu). Því lofa ég þeim fyrsta sem kommentar mars-stykki og þeim tíunda shiatsu-nuddi, enda tel ég engar líkur að til aflesturs textans komi...
Ég hef mælt.