laugardagur, júlí 29, 2006

Reciprocate!

Ég er með tillögu til allra bloggara.

Skoðið síður vina ykkar reglulega og skiljið eftir komment. Það mun leiða til þess að þeir kommenta hjá ykkur, og þar af leiðandi munuð bæði þið og þeir blogga oftar, og jafnvel leggja meiri orku í hvern póst. Bloggið er maturt sem þrífst að miklu leyti á athygli annara maturtaræktenda.

So sayeth the wise Alamando.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Og þannig spék Zóróthastres

Síðastliðnar tvær vikur hafa liðið í svitamóki á hinni Balörsku ey Mallorku. Engin loftræsting og þröng af sólbrenndum breskum og þýskum kjötskrokkum vafrandi um göturnar með yfirvaraskegg og heimaeldaða nýrnaböku blöstu við við viðkomu á hótelinu. Það kom þó ekki að sök, því ströndin var æði. Svo fékk ég líka eins mikið af kóki og oreo-kexi og ég vildi. Þann mann kalla ég armt flak sem ekki getur verið sáttur í sykurnautn oreo/kók-blöndunnar. Þegar ég kem á strönd sleppi ég því þykistuyfirskini að ég sé fágaður ungur maður sem hugsar vitrænt og hagar sér skikkanlega. Ég hleyp flissandi út í sjóinn í kút með öllum krökkunum og flissa í ölduganginum og saltinu þangað til ég er algerlega dauður úr þreytu. Þá legst ég á bakið og leyfi saltskorpunni að þorna utan á mér áður en ég held heim á leið. Þá fer ég í sturtu og les. Ég las tvær og hálfa bók í þessu fríi: Draumalandið eftir Andra Snæ, Flugdrekahlauparann eftir Hosseini og hálfa "Also sprach Zarathustra" Nietzsches á ensku. Ég er mjög hrifinn af þessari bók, og ríf hana í mig á ógnarhraða. Næst á dagskrá eru Karamazoff-bræðurnir. Þeir verða lesnir á sundlaugarkantinum á Marmaris.

Síðan gerir maður alltaf eitthvað sem ómögulegt er að segja frá í prenti eða orði, eins og eins-manns djammið mitt með Credence á sundlaugarbakkanum klukkan 3 að næturlagi á fimmtudaginn, eða líflegar umræðurnar sem við áttum um Sveppakenninguna í stjórnsýslu.


Marmaris! Marmaris! Þetta verður geggjaðra en skeggjaður kvenkyns dvergur með ullarkollhúfu og þúfnabana milli þjóhnappanna, og þá hygg ég nokkuð sagt. Ég vona bara að ferðin standi fyrir sínu, en þær gera það oftast, þessar ferðir.

laugardagur, júlí 01, 2006

Hér sit ég og blasta Kvöldsöngvum sankti-Jóhannesar Krísóstóms (gullkjafts) eftir góðan skammt af sjálfskapaðri freðmjólk, þekkt leikmönnum sem ís. Því miður virðast allir kunningjar mínir annaðhvort vera fjarstaddir Reykjavík eða undirþramdir Belefgor, erkidjöfli letinnar og óvini sumblfýsnar og gleðihalds. Ég hef af þeim sökum eytt kvöldinu í spjall við Armenskan fasteignasala og gyðinglegan píanóleikara frá Long Island, að glöggva mig á sértæku afstæðiskenningunni og Hindúisma.

Vá, ég er strax farinn að hlakka til að fara aftur í Skólann! Ég hlakka til að hittta vinina aftur, þetta yndislega fólk sem alltaf tekst að lýsa upp fyrir manni daginn. En þó er ekki örvæntingar þörf, því ég er að fara til tveggja sólríkra og, takandi tillit til miðbaugslægni, funheitra landa áður en hausta tekur.

Skólafélaginu gengur eins og vel smurðum Skota að ferðast gegnum loftræstikerfi: mjög vel. Samningar eru flestir í höfn, hjólin snúast og kotbændur sækja diskótek, við mikinn fögnuð.

Ég átti annars afmæli í gær. Hver er til í partí?