laugardagur, mars 25, 2006

Ja-há.

Það hefir nú gerst, sem ég hefði aldrei fyrir mitt auma líf talið mögulegt, að ég hefi verið kjörinn Inspó. Ég sit hér brjósthýr að sumbllokum og íhuga þetta gríðarlega kvöld, og þessa gríðarlegu viku. Dagar þessarar viku hafa skriðið hjá sem hægt sem vikur, og ég var orðinn fulllúinn á þessum endalausu spekúléringum og vangaveltum um framboðsmál. Nú er kálið sopið og fasaninn matreiddur, engar frekari bollaleggingar í bili heldur vel þegið hlé frá þessum mikla atgangi sem framboðsmál eru. Þetta minnti um margt á tilfinninguna sem fylgdi því að vera kjörinn í quaestor, nema margfalt, margfalt magnaðri. Ég hefi ekki ennþá fullkomlega náð kringum hvað gerst hefir, en það kemur líklegast með tímanum. Stressið var svakalegt, og ekki munaði miklu að magasýrur mínar og lungnasmjer færu í lystisiglingu um andrúmsloftið, sessunautum mínum til lítillar huglyftingar, þegar sem mest lét.

Á morgun skal þó Júterpa dýrkuð á ný, og haldið í kórferð. Kórferðir eru með því skemmtilegasta sem maður kemur sér í, og því efni til mikillar tilhlökkunar... Nú eftir spennufallið finn ég til mikillar uppsafnaðrar þreytu eftir framboðsplöggsmálin. Ég mun nú gefast Nótt drottningu á vald og hvíla glaðar taugar höfgum lúr. Ég þakka þeim sem studdu mig í þessarri baráttu kærlega, sem og mótframbjóðendum mínum sem eru hinir mestu heiðursmenn...

Sæll, Morfeus.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Gettu betur

Þetta mun aðeins vera sagt einu sinni, og þá verður þetta málefni afgreitt af minni hálfu. Enda er best að vera bitur í sem stystan tíma:

Ó þú, dómaraafglapi! Megi Jób, Jab og Jeb siga hungruðum geitahjörðum sínum á þig.


Ég hefi mælt.
Að því sögðu eiga strákarnir í liðinu hrós skilið fyrir vasklega frammistöðu. En ég vil sjá fokking hljóðnemann heim á næsta ári, annars geri ég eitthvað kreisí.

Þá er næsta mál á dagskrá að rústa MorfÍs á morgun.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Ragnars Hallfreðssonar þáttur hrímskeggja

Hallfreður hét maður, bur Skinnfálknis hins fleyga og Freðdísar Alfreðsdóttur frostajarls. Gat hann bur með kvinnu sinni, Þrúðhéli hinni tindilfættu, og hét sá Ragnar. Snemma aldurs þótti Ragnar kappi mikill, og óx honum snemma skegg mikið. Þau bjuggu á Svalbarða hinum nyrðri, þar er oftast kallað er Norðurpóllinn. Ragnar stundaði það snemma aldurs að glíma við rostunga, ísbirni og stöku búrhveli sér til skemmtunar og aflsauka, en er hann var og tvítugvetra orðinn kvað hann til föður síns:

"Hyggv ég nú að höggva,
hálan ís, björn brjálan,
unnar faðmi að inna
æ skal hræ skapa
öldrum um aldur stytta
verða munk jarlinn herða."

Að því loknu greip hann ax sitt, hvalskinn og ísbjarnarlúffur, og vatt sér í bát nokkurn er nærri lá. Ragnar sigldi í vikur nokkrar áður en hann land nam við Reykjavíkurhöfn. Varhuga skimaði hann um með ax sitt gríðarstórt á lofti og hnusaði. Fennt hafði um nokkurra daga skeið, og blindhríð var á götum úti. Er Ragnar hafði gengið stuttan spöl kom aðvífandi skrýmsl gríðarstórt og gult, sem úr járni gjörvt, og rann það á hjólum fernum. Svá virtist Ragnari einnig að skrýmsl þetta hefði allnokkur ungmenni gleypt í belg sér, og ákvað því að sýna hetjulund. Ragnar brá axi sínu af heift og leikni, og tók járnskrýmslið í sundur við miðju. Eldur mikill kviknaði úr innviðum andlits skrýmslisins, og hljóp þá Ragnar á brautu, skelfdur nokk við þennan mannætujárndreka. Móður og másandi rann hann að myndarlegu húsi á hól, það er honum sýndist hvað næst vera rökréttu í þessu brjálsama umhverfi. Gekk hann þegar inn, en vissi ekki hvað beið hans þar...

Ragnar var kominn í Menntaskólann í Reykjavík. Hvernig tekst Ragnari að koma fótunum fyrir sig í Skólanum? Lærir hann að diffra? Lærir hann latneskar sagnbeygingar? Fylgist með.
(n.b. ef þetta er eins mikið rusl og mér sýnist það vera mun ég tafarlaust hætta þessu eipi og skrifa eitthvað að viti.)