Ja-há.
Það hefir nú gerst, sem ég hefði aldrei fyrir mitt auma líf talið mögulegt, að ég hefi verið kjörinn Inspó. Ég sit hér brjósthýr að sumbllokum og íhuga þetta gríðarlega kvöld, og þessa gríðarlegu viku. Dagar þessarar viku hafa skriðið hjá sem hægt sem vikur, og ég var orðinn fulllúinn á þessum endalausu spekúléringum og vangaveltum um framboðsmál. Nú er kálið sopið og fasaninn matreiddur, engar frekari bollaleggingar í bili heldur vel þegið hlé frá þessum mikla atgangi sem framboðsmál eru. Þetta minnti um margt á tilfinninguna sem fylgdi því að vera kjörinn í quaestor, nema margfalt, margfalt magnaðri. Ég hefi ekki ennþá fullkomlega náð kringum hvað gerst hefir, en það kemur líklegast með tímanum. Stressið var svakalegt, og ekki munaði miklu að magasýrur mínar og lungnasmjer færu í lystisiglingu um andrúmsloftið, sessunautum mínum til lítillar huglyftingar, þegar sem mest lét.
Á morgun skal þó Júterpa dýrkuð á ný, og haldið í kórferð. Kórferðir eru með því skemmtilegasta sem maður kemur sér í, og því efni til mikillar tilhlökkunar... Nú eftir spennufallið finn ég til mikillar uppsafnaðrar þreytu eftir framboðsplöggsmálin. Ég mun nú gefast Nótt drottningu á vald og hvíla glaðar taugar höfgum lúr. Ég þakka þeim sem studdu mig í þessarri baráttu kærlega, sem og mótframbjóðendum mínum sem eru hinir mestu heiðursmenn...
Sæll, Morfeus.