sunnudagur, apríl 22, 2007

Lengi má vont versna

Næsta hrörnunarstigi mínu hefur verið náð. Ég er kominn með mæspeis (smella á titil). Líflátshótanir berist til Laugarásvegar 13, miðhæðina (vinstri lúguna).

Stúdentsprófin eru byrjuð, en því ærnara er tilefni þess að vippa sér út um mánahlið ímyndunaraflsins í bloggheima. Ég spái sílækkandi pH-gildi bloggpistla því lengra sem liðið er á próftímann.

Lag dagsins: Monasteria de Sal með flamíngógítarleikaranum Paco de Lucía.
Tilvitnun dagsins: "Science is like sex. It may produce some practical results, but that's not why we do it." -Richard Feynman,
Kvikmynd dagsins: Munich.
Fugl dagsins: geirfugl.
Maður dagsins: Jónatan,
Stúdentspróf dagsins: Hagfræði.
Frumefni dagsins: kóbalt.
Fornhetja dagsins: Afbélnir frá Litlu-Þröm.

sunnudagur, apríl 15, 2007

Eðlisfræðiskýrsla

Ákvörðun Planckfasta

Tilgangur:

Ákvörðun Planckfasta með mælingu á orku rafeinda sem losna frá málmi við áhrif ljóss.

Fræði:

Orka ljósrafeindar (rafeindar sem sleppur frá málmi við ljósröfun) er aðeins háð lausnarorkunni Φ (þeirri lágmarksorku sem þarf til að slíta rafeindina frá málminum) og tíðni ljóssins sem losar hana. Styrkur ljóssins skiptir engu. Þessum hrifum er lýst með eftirfarandi jöfnu:

E = hf = h(c/f)

Hér er E orka ljóseindar, f er tíðni ljóssins, h er Planckfastinn, c er hraði ljóss í tómi. Hámarkshreyfiorka sem ljósrafeind losuð af ljósi með tíðni f getur haft er:

Kmax = hf – Φ.

Í þessari tilraun var notast við ljósnema með tveim

málmsktautum. Katóðan missir rafeindir við ljósröfunina,

og þá svífa þær yfir á anóðuna. Þetta ferli stöðvast þegar

A: anóða

K: katóða

V: spennumælir

M: magnari

spennan milli anóðu og katóðu er jöfn mestu hreyfiorku

rafeindanna sem ljósið losar. Þá gildir:

Kmax = eVþ

Þetta gefur okkur:

eVþ = hf – Φ <=> Vþ = (h/e)f – (Φ /e) (1)

Við gerum því mælingar á þessari hámarksspennu við mismundandi tíðnir ljóss, í þessu tilviki frá litrófi kvikasilfursljóss. Við teiknum síðan graf af þröskuldsspennu sem falli af tíðni og finnum Planckfastann út frá hallatölu þess

Framkvæmd:

Kvikasilfursljósið er greint upp í litróf sitt með raufagleri

og ljósnemanum snúið um punkt til að skynja mismunandi

litrófslínur eins og gefið er til kynna á myndinni t.v.

Hámarksspennan var svo mæld með spennumæli fyrir

nokkra af greinilegustu litum litrófsins og graf gert úr

niðurstöðunum:

Litur

Öldulengd (nm)

Tíðni (THz)

Þröskuldsspenna (V)

Fjólublátt 2

578

519

0,737

Fjólublátt 1

546

549

0,864

Blátt

436

688

1,451

Grænt

405

741

1,661

Gult

365

822

1,951

Úrvinnsla:

Af grafinu má sjá að hallatalan er 0,00405 svo h (Planckfastinn) er skv. jöfnu (1) 0,00405*e = 0,00405*1,6-19*(10-14 Hz/THz) = 6,48*10-36 Js. Finnum síðan skv. jöfnu (1) og grafinu að ofan að Φ = 1,35*e = 2,16*10-19 J.

Hlutfallsóvissa á h = Δslope/slope = (7,99*10-5)/(0,00405) = 2%. Viðurkennt gildi h er 6,626*10-34, en mælt gildi þessu sinni er (6,626-6,48)/6,626 = 2,2% frá viðurkenndu gildi. Hlutfallsóvissa á Φ = Δy-skp./y-skp. = 0,0538/1,35 = 4%.

Ljóst er að tilraunin nær nokkuð vel réttum gildum þó þau séu utan óvissumarka.

föstudagur, apríl 06, 2007

Jákvæðu hliðar baráttunnar gegn hnattrænni hlýnun

Nokkuð almenn er nú sú skoðun meðal manna að hnattræn hlýnun af manna völdum sé staðreynd. Ekki er þverfótað fyrir málinuí alþjóðlegum fjölmiðlum.

Látum liggja milli hluta hvort hnattræn hlýnun sé raunveruleg eður ei, en pælum aðeins í afleiðingum baráttunnar gegn henni.

Vísindasamfélagið virðist líka nokkuð samtaka í afstöðu sinni, og er því fjármagni ausið í þróun endurnýjanlegra orkugjafa og vistvænna véla í apparöt ýmisleg. Tilraunir með vetnissamruna lofa góðu, og alþjóðasamfélagið virðist loks vera að taka við sér. Ef svo fer sem ég vona munu framlög til rannsókna og þróunar á vistvæni orku og hátæknilegum aðferðum til framleiðslu á henni verða hvatinn að stórstígum tækniframförum hér á jörð...

Neyðin kennir nöktu mannkyni að finna upp sniðuga hluti. Ég spái skemmtilega spennandi árum fyrir vísindamenn og iðnfrömuði framtíðarinnar.

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Álverið fellt

Ég var í mat hjá Pabba hið örlagaríka kvöld sem úrslitin úr íbúakosningunum voru kunngjörð, en hann býr einmitt í Hafnarfirði. Húskarlar og búandlið þess bæjar kaus gegn stækkun álversins. Ekki munaði nema 0,6% á fylkingum sem verður að teljast mjög lítið.

Skiptar skoðanir eru um ákvörðun bæjarstjórnar að halda íbúakosningu í málinu. Vissulega er þetta þægileg, pópúlísk leið fram hjá erfiðri ákvörðun sem setur aukritis lýðræðisástarstimpil á meirihlutann í Hafnarfirði.

Beint lýðræði er mjög sjaldgæft á Íslandi, enda vandmeðfarið skrýmsl á marga lund. Áróðursherferðir hagsmunaaðila kappkosta við að færa vanþekkingu skrílsins sér í nyt. Þá getur kennt aflsmuna (fjármuna) keppenda í millum, en sá sem prentar flottari bleðla á þykkari glanspappír fær kúlistastig umfram hinn.

Ef skríllinn gerist hins vegar vel upplýstur almenningur horfir þetta öðruvísi og mun betur við.

Ég skal ekki fullyrða hvað er rétt og rangt í þessu einstaka máli, en lífleg umræða og geysimikil þáttaka (meiri en í bæjarstjórnarkosningunum!) einkenndu málaferlin. Heldur skal ekki fullyrt að allar kappræður og deilur hafi verið háðar á þeim forsendum að koma óbjöguðum upplýsingum til almennings.

En er þetta ekki mjög töff? Jón Sigurðsson, ráðherra vor ástkær og frómur, vill meina að bæjarstjórnin sé ekki bundin af kosningunni frekar en hún vilji. En hver gengur gegn úrskurði íbúakosningu? Það yrði alla vegana ekki vinsælasta hugdetta ársins, svo mikið er víst.

Hvað segja spekúlantar? Er þetta byrjun á uppgangi beins lýðræðis hér á landi? Eða einungis hlálegt dæmi um fáfræði lýðsins og vald áróðursmeistara yfir þönkum hans?