föstudagur, nóvember 21, 2008

Hlutlausir fjölmiðlar - snilld, eða bara drasl?

Hlutlausir fjölmiðlar eru háttprísað fyrirbæri þessa dagana.


En eru þeir ekki í rauninni bara hálfgert prump, ef þeir eru þá til yfir höfuð? Ég leyfi mér nefnilega að efast um tilvist þeirra.

Blaðamenn og aðrir fulltrúar hinna blaðrandi stétta sem hafa nógu brennandi áhuga á samfélagsskipaninni til að taka virkan þátt í „umræðunni“ hafa jafnframt sterkar skoðanir á málunum.

Þeir eru pólítískir á einn hátt eða annan.

Þeir örfáu sem eru ekki pólítískir eru svo sjaldgæfir að þeir voru allir læstir inni í glerbúri á Louvre um leið og þeir uppgötvuðust.

Vinstri Grænir opnuðu um daginn vefritið smuguna. Ég hef nú ekki lagt í að lesa nema örfáar greinar þar, en mér líkar það sem ég sé (enda er oft mest gaman að fólki sem maður er ósammála).

Hlutleysi er næstum ómögulegt. Þegar fólk ætlar að gæta fullkomins hlutleysis kostar það slíkt hark og slíka sjálfsritskoðun - sjálfsgeldingu - að annað hvort verða greinarnar geldar og óáhugaverðar (og þar af leiðandi nennir enginn að lesa þær) eða fólk gefst einfaldlega upp á hlutleysinu, leynt eða ljóst.

Gott og vel. Fólk meikar ekki að vera hlutlaust. En þá á það ekki að hræsnast bak við falsgrímu hlutleysisins - það er bara plebbalegt.

Ég fagna smugunni. Önnur vefrit sem tilheyra öðrum geirum litrófsins eru vissulega til, en mikið myndi ég gleðjast yfir breyttari áherslum í fjölmiðlun.

Í gamla daga gátu menn lesið hægri pressuna og vinstri pressuna, og ályktað að raunveruleg staða mála væri einhversstaðar á milli. Nú veit maður ekki neitt.

Stjórnmálaskoðanir eru heilbrigðar. Fólk má vera ósammála. Sú flathyggja að allir eigi að gæta hlutleysis er ófrjó og óheiðarleg. Ég á ekki við að fólk eigi að hagræða sannleikanum. Ég á við að fólk tjái skoðanir sínar umbúðalaust og reyni ekki að lauma boðskap að almenningi undir formerkjum ó-pólítíkur.

Væri það ekki skemmtilegra?