Busaferðin
Busaferðin var haldin þessa helgina, og leyfist mér að fullyrða æðisleik hennar með allnokkurri vissu. Í ferðinni var margt ódauðlegt, reif bak við lokuð tjöld, hvolpaást meðal busanna og hetjuleg barátta okkar Guðmundar Egils við jagúar sem gerði sig heimakominn í félagsheimilinu. Við ramman leik tókst okkur Gumma að hrekja ófétið frá skelfdum busunum með skerptum bambusprikum og allnokkrum dólgslátum. Dýrið var svo að lokum króað af inni í skúr og stungið í klessu, uns það drapst.
Mig furðar hvað svona ferðir eru skemmtilegar, af hverju fara menn ekki oftar í svona? Legið í móanum og glápt á stjörnuhrap, göngutúrar og illa grillaðar pylsur! Díónýsos yrði stoltur, ef hann væri ekki allaf svona fullur. En það er ekki okkar að ákveða.
Busaferðin í fyrra var líka æðisleg, en þessi sló öll met. Það er ekkert betra en að drekka ferskar sálir. Ég er ekki frá því að mér hafi fundist 6. bekkur frekar þurr og líflaus í samanburði við díónýsíska gleði og opna huga busanna þegar ég gekk til náms í dag.. Kannski ættum við að líta í eigin barm í þessu tilliti. Þótt síðustu ár hafi fært okkur þekkingu og meiri krafta á andlega sviðinu er ég ekki frá því að kvörn daglegs gráma hafi deyft egg augna okkar.
En vei því að augun - eru glugginn að sálinni!
Gleymum ekki einlægninni og undruninni sem fyllti okkur fyrstu mánuði skólagöngunnar! Fleiri bros, meiri hlátur og þorstinn í félagsskap mega ekki slokkna þó drukkið sé úr túttu lífsins, kæru vinir.
עורו אחים, עורו אחים
הבה נגילה ונשמחה
Mælti frómur gyðingur forðum tíð, og ég verð að samsinna honum.
Uru, uru, achim! Hava nagila venis'mecha.
Vaknið, vaknið bræður! Djammið og gleðjist.
|