Pæling um kristni og illsku
Vandamál illskunnar reynist kristninni mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að sætta við kenningar sínar. Ef Guð er til og er fullkomlega miskunnsamur, velviljaður og almáttugur, af hverju leyfir hann þá svo mikla illsku í sköpunarverki sínu? Ég hef mikið spáð í þessa mótsögn síðustu daga.
Gömlu heiðnu trúarbrögðin voru, eftir því sem ég best skil, eins konar ofurhetjutrúarbrögð. Guðirnir voru í grunninn mannlegir, nema þeir voru ódauðlegir og höfðu ofurkrafta. Guðirnir þurftu að taka afleiðingum gjörða sinna. Gömlu sögurnar snúast margar um að einhver guðanna gerir skyssu (stelur frá dverg, drepur sakleysingja eða eitthvað álíka), og viðkomandi guð sýpur þá jafnan seyðið af þeirri gjörð.
Lykilatriðið er að þarna er engin skilgreining á góðu eða illu - bara orsök og afleiðing - og að allt siðferði er siðferði sem menn móta sér á eigin spýtur út frá venjulegum, veraldlegum forsendum.
Í kristninni er Guð hins vegar skilgreining réttlætis, miskunnsemi og góðvildar. Ef Guð gerir eitthvað sem okkur virðist vera ranglátt, grimmilegt eða illskulegt, þá höfum við rangt fyrir okkur, því samkvæmt skilgreiningu hefur Guð alltaf rétt fyrir sér.
Jobsbók Gamla testamentisins fjallar um Job. Job er réttlátur fyrir guði. Gefum okkur til hæginda að hann sé líka réttlátur og góður gaur almennt, því það er eiginlega gefið í skyn. Guð leyfir Satni (sem er auðvitað það sama og að gera það sjálfur) að drepa börnin hans tíu, þurrka út öll auðæfi hans og pynta hann með hræðilegum sjúkdómi (án þess þó að leyfa honum að deyja). Bókin endar reyndar á að Guð læknar Job og gefur honum nýja konu, ný börn og ný auðæfi, en það breytir ekki einu:
Guð framdi með eigin hönd eitthvað, sem samkvæmt siðferðiskennd flestra jarðarbúa var tilgangslaus grimmd, illska og óréttlæti. Þetta er eiginlega óumdeilanlegt í tilviki Jobsbókar.
Hvernig skilgreinist siðferðiskennd okkar? Ég held að á dýpsta stigi (þ.e. fyrir utan lög, reglur og hefðir samfélagsins sem við búum í) eigi hún uppruna sinn í eðlisávísun okkar; á hliðstæðan hátt og við greinum á milli tónlistar sem við fílum eða fílum ekki greinum við milli góðs og ills. Ef Guð drepur saklaust fólk af ástæðulausu, þá segir eðlisávísun mér að það sé ekki tónlist sem ég fíla.
Og þá erum við komin að kjarna málsins. Siðferði er ekkert nema siðferðilegt fegurðarskyn, og ef eitthvað brýtur hrottalega gegn því fegurðarskyni er það samkvæmt (jarðneskri, ekki kristinni) skilgreiningu ekki „gott”. Bara vegna þess að Guð á að geta lostið mig niður með eldingu þýðir ekki að hann hafi rétt fyrir sér í siðferðilegum álitaefnum þegar við erum ósammála - það er bara hrekkjusvínasiðferði, og varla er Guð hrekkjusvín. Ef siðferði á að vera algilt, og Guð er réttlátur, þá myndi okkur aldrei finnast neitt sem við upplifum vera óréttlátt eða grimmilegt ef við hefðum sömu vitneskju og hann. Hann hefði komið í veg fyrir óréttlætið og grimmdina, eins og við sjálf hefðum gert í hans sporum.
Við þurfum bara eitt mótdæmi til að afsanna regluna um algæsku Guðs, og úr mörgu er að velja. Dæmið úr Jobsbók væri nóg, en við höfum líka svo mörg dæmi úr raunveruleikanum - börn eru sérstaklega áhrifarík og einföld dæmi sem við getum flest verið sammála um. Börn sem hafa ekkert brotið af sér eru pyntuð og myrt á hverjum degi, til dæmis á átakasvæðum í Afríku. Slíkt á sér enga hugsanlega réttlætingu í siðferðiskennd heilbrigðs fólks.
Þar af leiðir:
Annað hvort er Guð ekki til, eða hann er óréttlátur.
...og þá er nú flottara að vera trúleysingi, í báðum tilvikum!